Wednesday, February 04, 2015

Brotinn fótur

Lambafell Í Þrengslum með FÍ
Á leið niður af Lambafelli. Slysið átti sér stað á svipuðum slóðum og fremsta fólk halarófunnar er á þessari mynd

Það gerðist á laugardegi 24. janúar 2015 rétt upp úr hádegi

Gera slysin boð á undan sér? Stundum en ekki alltaf. Þetta slys gerði lítil boð á undan sér. Var í frekar auðveldri göngu á Lambafell í Þrengslum og eiginlega kominn niður af fjallinu þegar snjóhengja gaf sig eða hægri fóturinn og jafnvel ég allur var allt í einu í frjálsu falli, fótur kom niður ofan í holu eða festist af einhverjum ástæðum. Fann að það gaf sig eitthvað inni í fætinum, eitthvað sem ég vissi ekki að gæti gerst á svo auðveldan hátt og ég lá óvígur eftir.

Það var dálítið fum á fólkinu fyrst í kringum mig. Kannski ekki alveg gert ráð fyrir því að einn af leiðsögumönnunum færi að slasa sig. En hér kom í ljós að allt getur gerst. Tókst að komast í talstöðina og kalla til bræður Örvar og Ævar sem komu fljótt. Dálítið kraðak var á tíma í kringum mig en annars gengu björgunaragerðir rosalega vel. Það var hlúð að mér, sett eitthvað dót undir mig og mér troðið í úlpu líklega af öðrum hvorum bræðranna. Slysið var tilkynnt á 112 og óskað eftir flutningi. Það var eitthvað minnst á að þyrla væri í athugun en ekkert í hendi með það. Það voru einhverjir læknismenntaðir með í för og ég held að eitthvað sem þeir sögðu um 90°rótasjón á fætinum hafi haft úrslitaþýðingu með að þyrluflutningur var skoðaður af alvöru.

Eftir einhverar spekúlasjónir um spelkun eða ekki spelkun var niðurstaðan að hafa mig í skónum og spelka hann ekki en hins vegar settur stuðningur með fætinum til að hann lægi ekki alveg út á hlið. Bræður Örvar og Ævar ásamt læknum sem voru með voru búnir að sjá aðeins hvar fóturinn var brotinn. Ég var alveg sæmilega bjartsýnn þar sem brotið var bara einhvers staðar á sköflunginum en ökklinn ætti þá ekki að vera í svo mikilli hættu. Annað átti eftir að koma í ljós :-(

Það var eiginlega mitt lán að nokkrir undanfarar höfðu verið að æfa sig með þyrlu á Sandskeiði og æfingin þeirra búin rétt mátulega og komu og sóttu mig. Voru eitthvað úr Garðabæjarsveitinni og Hafnarfjarðar skildist mér og svo var þar Maggi Blöndal, mér til mikillar ánægu. Hann var auðvitað með myndavélina sína og tók nokkrar myndir. Sótti þessa hér að neðan á FB sem hann setti inn á lokaða hjálparsveitarsíðuna.



Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli þannig að ég fékk líka far með sjúkrabíl. Greinilega ekki lent beint við spítalann nema hraði skipti öllu máli. Það var svo sem ekki raunin hjá mér en ég verð að segja að mikið ofboðslega var ég þakklátur fyrir að fá þyrluna til að flytja mig. Annars hefði þurft að koma á breyttum jeppa yfir óslétt Kristnitökuhraunið við Lambafellið. Bæði hefði ég þurft að bíða mikið lengur eftir flutningnum og eins þá hefði flutningurinn tekið mun lengri tíma og verið sínu óþægilegri. Þyrlan var afar fljót að komast á sinn leiðarenda.

Á slysamóttöku Borgarspítalans tókst að koma mér úr skóm og buxum og þá var hægt að senda mig í röntgen með fótinn rammskakkann og röntgenmyndin sýndi nokkuð greinilegt fótbrot. Ég hafði annars sagt við fólkið á slysó að áður en ég fór í myndatökuna að kannski væri ég ekkert brotinn. Það var bara hlegið að þeim ágæta brandara - enda datt mér ekki í hug annað en að fóturinn væri brotinn. Neðri hluti sköflungs reyndist vera mölbrotinn og að sem verst var að neðst var hann brotinn ofan í ökklaliðinn þannig að hann var sem sagt illa laskaður. Sprunga hélt þar áfram ofan í ökklann en var ekki brotið. Svo brotinn líka sperrileggur ofarlega.

Bræður Örvar og Ævar komu til mín, fengu allar fréttir. Komu með dót og tóku dót sem ég hafði verið með og aðrir höfðu látið mig fá. Búið að láta Pál framkvæmdastjóra FÍ vita þá strax held ég og hann myndi sjá um slysatryggingarpartinn.

Ég var settur á bæklunardeild B5, Gunni kom til mín með tölvu og eitthvað annað dót. Það var búið að segja mér að ég yrði jafnvel fram á miðvikudag á spítalanum. Vissi ekki alveg af hverju en átti svo sem eftir að komast að því hvernig myndi standa á því. Komst í aðgerð einhvern tímann um klukkan 9 um kvöldið. Aðgerðin tók eitthvað vel á annan tíma og þegar ég vaknaði á skurðarborðinu eftir aðgerðina var mig bara að dreyma eitthvað í rólegheitunum. Þreifaði eftir fætinum og varð dálítið hissa á að gipsið næði ekki upp á nára því það var búið að hræða mig með því að það væri nauðsynlegt út af efra brotinu á sperrileggnum. Það var víst ekki nein þörf á að gera nokkurn skapaðan hlut með efri hluta sperrileggs og raunar bein sem ku mega bara nota í viðgerðir á öðrum beinum! Eitthvað heyrði ég sagt um að ég hefði verið mikið brotinn en síðan ekkert meira því ég var settur inn á gjörgæslu þar sem ég fékk að vakna í rólegheitum. Ekki af því að ég væri í sérstakri lífshættu heldur bara út af því að ég var að vakna úr svæfingu. Sérkennilegt að liggja þar innan um fárveikt fólk og finna að blóðþrýstingur var tekinn reglubundið á svona korters fresti sjálfvirkt. Svo var mér ekið til baka á bæklunardeild B5. Hringi í Gunnann sem hafði farið heim áður en aðgerðin hófst til að tilkynna að ég væri lífs.

Fóturinn samsettur. Vinstra megin sést framan á fótinn og fullt af skrúfum. Á myndinn hægra megin sést staka skrúfan sem heldur sköflungnum saman að neðan.

Á sunnudagsmorgninum kom skurðlæknirinn Ríkharður Sigfússon til mín og jú sagði að þetta hefði verið mikið brotið en nú ekki mikinn áhuga á að spjalla mikið en vildi helst að ég færi af spítalanum sem fyrst þar sem veikara fólk þyrfti að komast að. Eða það voru í öllu falli skilaboðin sem ég meðtók. Mér tokst nú samt að teygja lopann fram á þriðjudaginn þegar skipt var um umbúðir á fætinum. Var þá orðinn alveg sæmilegur af verkjum í fætinum og farinn að geta hreyft mig sjálfan án þess að finna mikið til.

Hægt og rólega þarna á spítalanum áttaði ég mig á því að fóturinn hafði verið mölbrotinn og það sem var verst er brotið neðst í sköflungi sem náði niður í ökklaliðinn. Það var fest saman með stöku skrúfunni. Læknirinn sem var með til aðstoðar í aðgerðinni sagði mér í umbúðasiptinum hins vegar að mjög vel hefði tekist til varðandi þetta í aðgerðinni. Svo var sprunga ofan í ökklaliðinn.



Það var svo á þriðjudegi að skipt var um umbúðir á fætinum og upp úr hádeginu fór ég heim. Það var mamman mín og Gunninn sem komu mér heim. Gunninn búinn að heimsækja mig margoft en líka bræður Örvar og Ævar sem næstum því vöktuðu mig. Ragnhildur með sitt slekti kom líka alveg einu sinni ef ekki tvisvar. Kominn heim með tvö sett af hækjum. Þær löngu sem ég keypti sjálfur og svo mannbroddahlkjurnar frá Önnu Maríu.

No comments: