Sunday, February 15, 2015

Það var loksins kláruð bók: Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson

Einhvern tímann snemma í desember heyrði ég lesið upphafið á þessari bók og með það sama ákvað ég að þessa bók yrði ég að lesa. Sá svo á Fesbók að vinur minn Páll Ásgeir lofaði bókina í hástert. Það tók ég líka sem meðmæli og keypti því þessa bók þegar ég sá hana á góðu verði í einhverjum stórmarkaði. Það ætti maður aldrei að gera.

Öðrum hvorum meginn við áramótin fór ég svo að reyna að lesa bókina. Áttaði mig fljótlega á því af hverju Páli Ásgeiri hafði fundist bókin svo góð. Hún er skrifuð meira og minna eins og hann hefði skrifað hana sjálfur. Svona eiginlega eins og slitin út úr munninum á honum. Það er gaman að hlusta á Pál en ég játa að ég hefi ekki mikla nennu að lesa tuga blaðsíðna lýsingar á einhverju úr sögu Íslands í skáldsöguformi. Án þess að ég gæti séð að það tengdist neitt söguþræði bókarinnar. Reyndar áttaði ég mig ekkert almennilega á því hver söguþráðurinn í bókinni ætti að vera því bókin fannst mér eiginlega bara vera endalaus romsa atburða sem hafa átt sér stað eða ekki átt sér stað á hinum óaðskiljanlegustu tímabilum íslenskrar sögu.

Snemma í vaðlinum í bókinni tók ég eftir einherju sem ég taldi ekki vera rétt sagnfræðilega. Það er þar sem fram kom að allt fólk í Öræfum hefði látið lífið samstundis þegar eldský og gjóskuflóð æddu niður Öræfafjökul í gosinu 1362. Hið rétta er þar að minnsta kosti að á Bæ sem hefur verið grafinn upp fundust leyfar af fólki sem hefðu þó átt að vera þar. Ljóst var því að þar náði fólkið að flýja. Þessi kannski ekki svo mikla ónákvæmni varð til þess að ég áleit sagnfræðilegan texta bókarinnar bara vera skemmtilega fram settan kjaftavaðal en ekki neitt til að byggja einhverja skoðun á. Las ég því hratt í gegnum hverja blaðsíðuna á fætur annarri þangað til lokið var við tvo þriðju bókarinnar. Var henni þá bar ahent út í horn.

Þegar ég var svo orðinn rúmliggjandi fótbrotinn heima hjá mér þá sneiptist ég til þess að klára bókina eftir að hún hafði fengið bókmenntaverðlaunin. Áfram las ég bókina á sama hundavaðinu. Á einhverjum köflum kom fram einhver söguþráður og eitthvað til að tengja við en það var svo ekki fyrr en á síðustu 20 síðunum eða svo sem að hringurinn sem bókin lýsir náði saman. Þá small allt og bókin ekki svo slæm en eftir situr það að fyrir minn smekk hefði þessi bók verið mun betri sem smásaga en ekki mörg hundruð blaðsíðna skáldsaga.

Í það heila þá er þetta með undarlegri bókum sem ég hef lesið. Bókin varð mestölubók fyrir jólin og eitthvað segir mér að það hafi verið sett íslandsmet í fjölda bóka sem verða aldrei lesnar.
Frá uppgröfnum rústum á Bæ undir Öræfajökli en þar fundist engin ummerki um að fólk hefði grafist undir ofanflóðum frá Öræfajökli - öfugt við það sem Ófeigur hefur í Öræfabókinni og varð til þess að ég lagði ekki mikið uppúr annarri sagnfræði bókarinnar hans.

No comments: