Sunday, February 15, 2015

það var lesin bók: Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Fékk þessa lánaða frá bróðurnum mínum þegar ég lá fótbrotinn á Borgarspítalanum. Hef lesið eina bók áður eftir Vilborgu, Hrafninn og þessi er eins og su bók, alveg glettilega góð.

Það eru reyndar komnir einhverjir dagar síðan ég lauk við bókina og eitthvað byrjað að skolast til en svona í upphafi þá var hún dálítið eins og að lesa Íslendingasögurnar að ég ruglaði öllum persónunum saman og náði ekki neitt allt of miklu sambandi við hana. Átti ruglið reyndar helst við um tengsl persónanna. Þ.e. hver var systir eða bróðir hvers, frænka eða forfaðir. Persónusköpun aðalpersónanna og þá sérstaklega Auðar hins vegar með eindæmum góð. Alveg frá fyrstu síðu var verið að sníða til áhugaverða persónu fyrir mann til að kynnast nánar.

Söguþráðurinn einnig alveg ágætur þar sem sagan hélt alltaf áfram með ágætu tempói þannig að alltaf eitthvað nýtt kom í ljós sem hægt var að velta fyrir sér. Fáir dauðir punktar í bókinni. Svo skemmdi ekkert fyrir að prsónurnar eru til í Íslendingasögum og hægt er að fletta þeim upp á Íslendingabók Friðriks Skúlasonar til að velta fyrir sér hvar um skáldskap er að ræða og hvar byggt er á raunverulegum heimildum.

Eftir lesturinn er nokkuð ljóst að það þarf að lesa framhaldið einhvern tímann sem fyrst og eins þá má vel glugga aftur í framhald framhaldsins, Laxdæla sögu sem ég las líklega fyrir svona 30 árum síðan. Mikið skelfilega er maður orðinn aldraður!

No comments: