Sunday, February 15, 2015

Fyrsta útiveran í þrjár vikur

Sprellað smávegis á hækjunum í Hæðarhólmsgarðinum

það eru víst komnar heilar þrjár vikur síðan ég braut mig. Í dag er sunnudagur en það gerðist á laugardegi fyrir þremur vikum. Sunnudagurinn daginn eftir brotið var ég á deild B5 á Borgarspítalanum. Alveg sérdeilis gott að vera þar, fræbært fólk sem sá um mig frá A til Ö. Gekk þá reyndar ekki vel að skrölta um á hækjunum og ekki inni í myndinni að sprella eins og á myndinni að ofan. Ætli það hafi ekki veirð um svipað leyti dagsins sem ég fór fyrst út úr rúminu. Það var eins og fóturinn ætlaði að detta aftur í sundur og þrýstingurinn á fætinum varð frekar mjög vondur. Ég varð að láta sjúkraþjálfann halda undir fótinn því ég hélt honum varla sjálfur. Svo fór þetta að lagast. Seinna sama dag eða daginn eftir þá þurfti sá sem hjálpaði mér, bara að þykjast vera að halda undir fótinn. Núna get ég hérubil sveiflaði gifsfætinum.

Hef enn ekkert farið í vinnuna og að mestu leyti haft hægt um mig. Ætla á morgun hins vegar að skrönglast í Staka og fara að gera eitthvað. Af nógu að taka þar eftir fjarveruna. Vona bara að veðrið haldist sæmilegt því það er ekkert of gott að vera að skrölta á hækjum í snjó, slabbi og hálku. Raunar er það ófærðin sem hefur dálítið komið í veg fyrir að ég hafi verið á einhverjum utandyraþvælingi.

En núna í morgun þá kom ég múttunni sem sagt á óvart þegar ég lýsti því yfir að ég ætlaði að fara í göngutúr. Hún hélt að ég væri bara að fíflast en vissi svo ekki hvaðan á hana stóð veðrið þegar hún áttaði sig á því að mér var fúlasta alvara. Gifsfóturinn var klæddur í ullarsokk sem ég átti alveg óvart eitt eintak af, sokk sem lítur út fyrir að vera sérhannaður fyrir gifsfætur. Notað var sérhannaður skemillinn sem Gunninn betrumbætti til að komast á rassinn og svo var skoppað á rassinum niður stigann. Arkað út í Hæðarhólmsgarðinn, sest á bekk, staðið upp og múttan tók mynd. Skrölt til baka og skreiðst upp stigann aftur. Var helvíti fínn göngutúr má segja þó ekki hafi hann nú verið sérlega langur!

No comments: