Það var farið í felt um helgina, loksins. Sá á föstudeginum góða veðurspá fyrir laugardaginn, hringdi í Gunnann sem var að koma úr Holuhraunsvinnuferð hvar hann samt ekki sá eldgosið - og leist bara vel á að fara með mér í felt einn dag. Spurði svo Harald sem var með mér í tíma hvort hann langaði ekki í felt - og var þá kominn með tvo til aðstoðar. Fór um kvöldið og sótti bordót til Leós. Fékk meira og minna tvennt af öllu því ekki vildi maður að dótið klikkaði þegar mest á reyndi.
Veðurspáin gekk eftir. Hafði verið skítviðri seini part föstudags en blíða á laugardagsmorgni. það var reyndar móðuharðindablíða þannig að ég var ekki viss um nema ferðin yrði til ónýtis út af móðunni - ekki yrði hægt að miða á nein kennileiti. Það rofaði þó til og kennileitin stóðu sig bara vel.
Komumst í heila þrjá staði að taka sýni. Tveir í Þórólfsfelli og sá þriðji í Rana við Hlöðufell. Í fyrirbæri sem ég hef farið að kalla bólstrabergslæki - en það er hvar lækur hefur sópað í burtu lausu efni ofan af bólstrabergi sem er fast eftir.
Heldur var maður svo þreyttur á sunnudeginum, þrátt fyrir að hafa svo sem ekki verið neitt í erfiðinu við borunina, heldur bara í því að mæla upp kjarnana. Og ekki neitt sérstakt að gera slíkt axlarbrotinn. Braut t.d. einn kjarnann þegar ég studdi mig við óríerenteringar-stautinn!