Monday, September 22, 2014

Allgóð feltferð að Hlöðufelli


Einn á bornum, einn á vatninu en sá þriðji bara axlarbrotinn á myndavélinni

Það var farið í felt um helgina, loksins. Sá á föstudeginum góða veðurspá fyrir laugardaginn, hringdi í Gunnann sem var að koma úr Holuhraunsvinnuferð hvar hann samt ekki sá eldgosið - og leist bara vel á að fara með mér í felt einn dag. Spurði svo Harald sem var með mér í tíma hvort hann langaði ekki í felt - og var þá kominn með tvo til aðstoðar. Fór um kvöldið og sótti bordót til Leós. Fékk meira og minna tvennt af öllu því ekki vildi maður að dótið klikkaði þegar mest á reyndi.

Veðurspáin gekk eftir. Hafði verið skítviðri seini part föstudags en blíða á laugardagsmorgni. það var reyndar móðuharðindablíða þannig að ég var ekki viss um nema ferðin yrði til ónýtis út af móðunni - ekki yrði hægt að miða á nein kennileiti. Það rofaði þó til og kennileitin stóðu sig bara vel.

Komumst í heila þrjá staði að taka sýni. Tveir í Þórólfsfelli og sá þriðji í Rana við Hlöðufell. Í fyrirbæri sem ég hef farið að kalla bólstrabergslæki - en það er hvar lækur hefur sópað í burtu lausu efni ofan af bólstrabergi sem er fast eftir.

Heldur var maður svo þreyttur á sunnudeginum, þrátt fyrir að hafa svo sem ekki verið neitt í erfiðinu við borunina, heldur bara í því að mæla upp kjarnana. Og ekki neitt sérstakt að gera slíkt axlarbrotinn. Braut t.d. einn kjarnann þegar ég studdi mig við óríerenteringar-stautinn!

Thursday, September 18, 2014

Fyrsta vika sjúkraþjálfunar að klárast

Búinn að vera eina viku hjá Ragnari axlarsérfræðingi og líklega er ég að taka hann í sátt. Hann veit a.m.k. að öllum líkindum hvað hann er að gera þar sem mér skilst að hann sé einhver mesti axlasérfræðingur landsins. Hann hvað komið er sáttur við framfarir sem ég er að sýna og þá ég ekkert ósáttur þannig séð. Farinn að geta notað hendina talsvert meira - veifað og alles eins og í gær. Fer svo aftur til hans þrisvar í næstu viku og þá verður framhaldið eitthvað skoðað.

Það sem hann segir vera að mér er að liðpokinn í öxlinni sé allur samanskropinn og ég þurfi í raun að ná að pumpa hann upp. það gerist að öllum líkindum hægt og rólega og það er spurning hvenær ég get farið að spila badmin aftur.

Rabbarbarasulta með trjágreinum

Það var um helgina að ég fékk þá flugu í höfuðið að það væri hægt að gera rabbarbarasultu og jafnvel berjasultu einnar hendi. En ég greip í eitthvað tómt úti í garði. Rabbarbarinn hafði ekki vaxið mikið frá því ég tók hann allan um mitt sumar og berin... já verði fuglunum að góðu - þeir hljóta að hafa fengið skitu. Ég fír í víking á Uarðarstekk en þar var sama sagan. Sólberin sem ég fann voru góð, öll fimm berin sem ég át og geri ráð fyrir að sjötta berið sem ég ekki bara tíndi heldur líka týndi hefði eflaust verið gott líka. En mamman manns hafði ráð undir rifi hverju. Við fórum á mánudag í víking í Skammadal hvar hún gamall refur í kartöfflurækt þar vissi um yfirgefna rabbarbarahnausa sem við sóttum í. Það var því fullt af rabbarbara til að gera eitthvað úr - og svo jú, ég var með eitthvað smáræði af rifsberjum.

Núna í kvöld var svo lagt í sultugerð. það var saxaður rabbarbari og berjunum hent í pott. Bæt líka við eitthvað af frosnum rifsberjum frá í fyrra. Einhver rosalega náttúrulegur hrásykur settur í svipuiðu magni með. Látið malla í hvað... svona klukkutíma. Á meðan soðnar og bakaðar krukkur. Brunsaár á höndum við að koma herlegheitunum í. Veit ekki hvort seigjan í þessu fer til fjandans eins og sultan sem var gerð í sumar en það kemur í ljós. Notaðar frekar fleiri litlar krukkur en færri stórar eins og í sumar. Þetta lítur reyndar bara nokkuð vel út en samt dálítill galli að eitthvað af stilkunum af rifsberjunum voru eitthvað trénaðir og linuðust í raun ekki neitt við suðuna og eru eins og einhverjar skrambans trjágreinar í sultunni. Átti ég kannski að reyna að veiða þá úr... það hefði aldrei verið séns. En sultan er í öllu falli góð á bragðið - og kannski ekkert slæmt að það séu smá trefjar í henni. ......

Að geta hendi veifað

Að geta hendi veifað - í skgargöngutúr í Elliðaárdal
Maður er allur í áttina líklegast, farinn að verða það liðugur í hægri hendinni að í göngutúr þarf ég að sveifla höndunum frekar óeðlilega til að ná einhverri teygju í axlarliðinn. Fór langan göngutúr í gærkvöldi í rigningu um skógarstíga Elliðaárdals. Dundaði mér í leiðinni við að kanna vatnsheldni lopapeysunnar. Nýjasta klæðatrendð að vera ber undir lopapeysu svínvirkaði. Peysan blaut að utan en sæmilega þurr að innan. Stakk eiginlega alveg ótrúlega lítið. Skemmtilegt að vera í góðri ullarpeysu og láta blása í gegnum hana þannig að manni verði hvorki of heitt né of kalt. Og merkilegt nokk - á meðan ekki rignir of mikið þá er hún bara sæmilega vatnsheld. Ætli ég hafi ekki verið eins og sauðkind!


My right arm is starting to be more useful. While walking yesterdayin the tiny forest in Elliðárdalur I was ale to wink aso you can see on the photo.

Monday, September 15, 2014

Nýr nýliðahópur í Hjálparsveit Skáta í Reykjavík

HSSR rötunarnámskeið nýliða 1

Hópmynd af þeim sem voru á rötunarnámskeiði á Úlfljótsvatni um síðustu helgi. Allt nýir nýliðar fyrir utan tvær eftirlegukindur

Það gerist á haustin, þá kemur nýr nýliðahópur í hjálparsveitirnar. Þetta er fyrsta haustið í frá 2010 sem ég er ekki formlegur nýliðaforingi annað hvort fyrsta árs eða annars árs nýliðanna. Núna er ég bara fulltrúi stjórnar í að sjá um þá. Reyndar er Kristjón nýliðaforingi frekar einsamall þar sem Sigga sem ætlar að vera með honum er enn í skálavörslu í Þórsmörk. Ég er því með alveg annan fótinn í þessu með honum. Síðasta helgi var það rötunarnámskeið á Úlfljótsvatni þar sem hópmyndin var tekin. Líst ljómandi vel á þennan hóp. Þekki einn nýliðann, Herdísi sem gerði mér þann greiða að spyrja mig uppúr þurru hvort ég hefði prjónað lopapeysyna mína sjálfur. Svarið fékk held ég stelpukonuna við hliðina á henni til að hálf snúa sig úr hálsliðnum.

Um næstu helgi er síðan fyrsta gönguferð nýliðanna og er ég að bræða það með mér að fara með á minni slösuðu hendi. vona að það gangi vel ef ég slæ til.

Að píningu aflokinni

Píningu dagsins í sjúkraþjálfun er lokið. Ekki jafn slæmt og síðast, á að minnsta kosti að koma aftur í vikunni en ekki bra eftir tvær vikur. Óttalegur aumingi samt!

Núna er það leynileyðangur til að sækja sér rabbarbara á fæti og ekki með fæti. Ég grep nefnilega í tómt í dag þegar farið var út í garð að sækja rabbarbara. Eiginlega ekkert eftir og ekki mikið meira á Urðarstekk hvar ég hreynsaði líka upp það sem til var. Ætlaði svo að geta mallað rifsberjahlaupsultu með rabbarbaranum en þar var ég of seinn. Öll ber étið hafði fuglager fyrir stuttri stundu. Á Urðarstekk fann ég svo alveg heil 6 sólber - en týndi einu.

Heimsókn 2 til sjúkraþjálfa

Fyrir tveimur vikum fór ég í fyrsta skipti til sjúkraþjálfa. Játa fúslega að ég kann ekkert á slíkt enda aldrei farið í slíkan tortúr áður. Komst fljótlega að því að það eru ekki tannlæknar sem eru sadistar heldur eru sjúkraþjálfar sadistar dauðans. Ég var látinn hreyfa handlegginn sem hafði sem minnst verið hreyfður mánuðinn á undan. Ekki hreyfðist hann nú mikið og fljótlega fékk ég á tilfinninguna að sjúkraþjálfanum þætti ég vera hinn argasti aumingi. Bað mig náðarsamlegast að reyna að hreyfa liðinn en ekki bara öxlina alla... svona eins og ég væri bara að svindla.

Sársaukinn var alveg ágætur en ég reyndi að æmta hvorki né skræmta. Svo var ég settur í eitthvað leðurólatól og átti að hafa handlegginn í einhverri frekar mjög óþægilegri stöðu í 10 mínútur. Það var vont en ekki svo en þá fór mér bara að sortna fyrir augum og var hálf liðið yfir mig, sem sjúkraþjálfinn gaf nú ekki mikið út á en spurði hvort það væri venjulega að líða yfir mig, sem ég þvertók fyrir. Veit ekki hvort honum fannst ég bara vera aumingi en niðurstaðan varð sú að ég skyldi bara fara heim og vera í fatlanum næstu tvær vikur og koma svo aftur.

Ef þessi sjúkraþjálfi væri ekki að mér skilst einhver færasti axlasjúkraþjálfi landsins, þá hefði ég líklega reynt að finna einhvern annan.

En núna eru þessar tvær vikur sem sagt liðnar og ég fer aftur til hans eftir hádegið í dag. Get ekki sagt að ég hlakki beinlínis til.

Sunday, September 14, 2014

Fyrsta skokk í rúman mánuð

Eitthvað ætlaði ég að vera búinn að blogga um hrakfarir sumarsins og kemur kannski seinna en þá samt á undan þessari færslu. Reimdi á mig hlaupaskó og fór í hlaupbrók til að fara út að hlaupa í fyrsta sinn síðan örlagaríkan dag í Fellsmörk fyrir einum og hálfum mánuði eða svo. Hljóp nú hvorki hratt né mikið. Handleggurinn má ekki við miklum látum og svo var ég logandi hræddur um að detta, fór því bara fetið á köflum, en þetta var skokk en ekki bara labb. Hraðinn meiri en eðllegur hraður gönguhraði þó það hafi nú ekki verið neitt spretthlaup hjá stráknum. Áttaði mig svo á því þegar ég var farinn að ganga síðustu metrana til baka að það er víst að koma haust!

Tuesday, September 09, 2014

Góð framsetning á GPS færslum hjá Hildi og félögum á Veðurstofunni

Skemmtileg framsetning á jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofunni GPS og jarðskjálftaupplýsingar. http://hraun.vedur.is/ja/Bardarb/GPS/Slider/images.html
 
Flott efni fyrir mátulega mikla nörda. Það að svona efni sé opið almenningi um leið og atburðir eiga sér stað er ekki alveg sjálfgefið - og reyndar einstakt hefur mér verið sagt.

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Monday, September 08, 2014

Hvað er nýja Holuhraunið orðið stórt?


Það er vinsælt að setja fram kort sem sýnir að ef eldgosið í Holuhrauni hefði verið í Reykjavík, þá væri stór hluti borgarinnar kominn undir hraun. Eldgos í miðri Reykjavík er hins vegar ekki sérstaklega líklegt en hins vegar er eldgos t.d. í Vífilsfelli í Bláfjöllum ekki ósennilegt einhvern tíman á þessari öld eða næstu. Ef hraunið hefði runnið eins og það rann í Holuhrauni en átt upptök sín í Vílfilsfelli þá væri það komið niður undir Árbæjarstífluna. Til að sannleikans sé gætt verður að taka fram að ef eldgos verður í Vífilsfelli þá dreifist hraunið meira en norðan Dyngjujökuls því við Vífilsfell er enginn árfarvegur Jökulsár á Fjöllum til að renna eftir. Stærð hraunsins sem ég sýni er byggð á ratsjármynd af FB síðu Jarðvísindastofnunar sem sýnir stærð hraunsins 7. september. Mér sýndist þar að hraunið væri tæpir 15km að lengd.
---------
Það eru nokkur eldstöðvakerfi á Reykjanesi og hjá þeim skiptast á virk tímabil og óvirk. Þegar þau verða virk þá sýnir sagan að algengt er að austasta kerfið verði fyrst virkt og svo færist virknin út Reykjanesið. Í heild getur virki tíminn tekið nokkur hundruð ár en svo er goshlé á milli sem er álíka langt eða ívið lengra minnir mig. Síðasta virknitímabil var t.d. þegar kristnitökuhraunið rann en því tímabili lauk á miðöldum einhvern tíman. Það getur núna hvenær sem er farið að koma að næsta virknitímabili. Gæti gerst innan fárra ára en gæti einnig verið eftir 2-300 ár. Ósennilegt að við þurfum að bíða mikið lengur eftir því.
---------
Ég reyndar prófaði að færa upptök hraunsins að Búrfelli og lagði það örlítið eftir hæðarlínum eins og það gæti komið til með að renna. Það nær vel út í sjó. Það hefði lagst yfir núverandi Búrfells- og Gálgahraun en að einhverju leyti líklega runnið meðfram því. Þegar það hefði komið út í sjó hefði hægst verulega á því, kvikan að einhverju leyti sundrast við hraðkælingu. En þetta er áhugavert og dálítið ógnvekjandi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins því þetta getur í sjálfu sér gerst og þetta hraunrennsli er alls ekki óhugsandi.

---------
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Monday, September 01, 2014

Fréttaflutningur af eldgosum

Fréttaflutningur Gísla Einarssonar og annarra fjölmiðlamanna sem hafa fengið leyfi til þess að flytja fréttir af vettvangi eldgosa eru stundum dálítið sérkennilegar. Það koma ágætar lýsingar á því hvað þeim finnst gosið tilkomumikið, hvað það er fallegt, hvað það sé rosalega gaman að horfa á það og fylgjast með og loks kannski hvað það sé vond lykt af því.

Það er svona svipað eins og að íþróttafréttamaður talaði bara um það hvað einhver hefði hlaupið fallega, verið í flottum búningi eða hvað hefði verið gaman að sjá hvernig einhver renndi boltanum fyrir markið þegar skorað var og sérstaklega hefði verið tilkomumikið hvernig boltanum hefði verið þrykkt í netið. Eða ef einhver væri að segja fréttir úr einhverri veislu eða öðrum mannfagnaði og hann hefði ekki rænu á að segja frá öðru en að forrétturinn hefði verið rosalega góður og aðalrétturinn eiginlega samt sínu betri, sérstaklega gott eftirbragð.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.