Monday, October 27, 2008

Esjuganga, heilsuefling, úldin svið og ljótubindadagurinn


Anna María lítur niður til mín

Í Esjuhlðíðum

Það var farið í fjallgöngu í gær. Ég hafði reyndar ekkert ætlað heldur bara ætlað að vera duglegur og fara í vinnuna en spontant ákvarðanir eru oft bestar hafði ég heyrt einhvers staðar þannig að ég fór að taka mig til tíu mínútur fyrir 10 en gangan átti að byrja klukkan 10. Ég náttúrlega því eins og venjulega ekki mættur fyrr en allir aðrir farnir af stað. Eina huggunin að forstjórinn minn var ekki til að hneikslast á mér eina ferðina enn en nægir samt til þess. Og svo æddi maður af stað.

Hvort það var æðibunugangurinn þegar ég var að leggja af stað sem gerði út af við mig eða hvort það var það að ég var þyrstur og orkulaus eða hvort ég er bara almennt að verða að aumingja en þá varð þessi ganga þannig að ég varla náði að halda í við hópinn. Var bara alveg að gefast upp en náði nú samt upp að Steininum ekki áberandi síðastur.

Ég dæmdi sjálfan mig úr leik við að fara alveg upp en þeir reyndu tveir við það en frétti að þeir hefðu frá horfið sakir mannbroddaleysis.

Á niðurleiðinni hélt ég uppteknum hætti og var síðastur en það var nú kannski bara líka fyrir notalegheitin en ekki bara aumingjaganginn. Það er nú oft bara skemmtilegast að rölta í rólegheitunum síðastur niður.

Snillingar

Hópurinn á bílastæðinu, sá hluti hans sem var ekki bara farinn heim þegar ég kom niður



Nú, svo ætlaði ég að bulla eitthvað meira. Það var ljótubindadagur í vinnunni á föstudag. Kannski eitthvað meira um það seinna.

Allir með þokkalega ljót bindi



Æ, og svo bauð mamman í mat í gærkveldi. Sviðaveisla ein mikil en það var eitthvað undarlegur þefur af sviðunum og engum leist of vel á þau og það endaði með að pantaðar voru pizzur til að koma í veg fyrir yfirvofandi matareitrun.

En það var allt í lagi því litla frænkan mín var á svæðinu alveg sérstaklega til að sitja fyrir á ljósmyndum.
hello


....

Saturday, October 25, 2008

Hólmsárlón

Hólmsárlón

Í Hólmsárbotnun sumarið 2007


Óláni Íslendinga verður allt að vopni. Núna eru einhverjir sem vilja fara að eyðileggja Hólmsárbotna. Orðið Hólmsárbotnar kveikir líklega ekki viðvörunarbjöllum hjá mjög mörgum. Rauðabotn þekkja ekki margir en einhverjir hafa jú heyrt um Strútslaug. Þar er heitt vatn en núna rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds.


Það var líklega sumarið 1995 sem ég heyrði fyrst talað um einhvern undrastað sem hét Strútslaug og þangað langaði mig strax til að komast. Það gerðist þó ekki alveg strax. Reyndar komst ég langleiðina þangað á gönguskíðum um páska 1998 en það var ekki fyrr en sumarið 2000 sem ég kom þangað fyrst. Gekk þá af Laugaveginum yfir jaðar Torfajökuls og ofaní Hólmsárbotna þar sem Strútslaug er.

Sumarið eftir fór ég aftur og kom þá úr hinni áttinni með hóp af fólki með mér. Gengum þá upp á Torfajökul þrír saman í brjáluðu veðri og fórum í Hrafntinnusker. Það var gaman.

Besta ferðin var samt kannski þegar ég og HK fórum gangandi úr Landmannalaugum í Hattver, upp úr því og yfir Torfajökul miðjan og ofan í Strútslaug í Hólmsárbotnum. Gengum síðan daginn eftir yfir Hólmsárbotnana í sandölunum og meðfram náttúrulegu lóninu sem Hólmsá kemur úr. Áttum þarna dag í okkar æfintýraveröld.

Það voru settir upp sandalar og arkað beint áfram yfir það sem fyrir varð.

Það er nefnilega þannig þó það minnist ekki margir á það að plamp um hinn svo kallaða Laugaveg er alls ekki í ósnortinni náttúru lengur. Þar eru ferðamenn svo margir að maður fær ekki fyllilega á tilfinninguna að maður sé annað en einn af túristunum. Vilji maður breyta því hefur verið þjóðráð að arka austur fyrir Torfajökul og koma þar í ónumið land Hólmsárbotna en kannski ekki mikið lengur.

Rarik og kannski Landsvirkjun ætla að fá rannsóknarleyfi til að fara að setja lón sem nær meira og minna yfir allt svæðið og eyðileggur það nær algjörlega. Verri virkjunaráform hef ég líklega aldrei heyrt. Þetta slær við hugmyndinni um Bjallalónið sem var talað um í vor og er á vissan hátt verra en Hálslón við Kárahnjúka.

holmsarlon-kort-krop

Kort sem sýnir hluta gönguleiðarinnar og hvernig lónið kæmi til með að dreifa úr sér



HK í Hólmsárbotnum

HK öslar áfram yfir vatnasvæðið í Hólmsárbotnum. Þetta færi allt á bólakaf í hinu fyrirhugaða lóni



holmsarbotnar-minnkad

Panorama mynd sem sýnir flatlendið sem færi á kaf. Hægt aqð smella á myndina til að fá hana stóra. Afsakið reyndar að það er einhver samlímingargalli í henni



Fossarnir þar sem vatnið gusast núna fram úr núverandi náttúrulegu lóni sem þarna er hverfa væntanlega.

Hólmsárfoss

Efsti foss Hólmsár þar sem áin rennur út úr lóninu



Og annar foss þar fyrir neðan




En einhver kynni að benda á að það sé bara verið að tala um rannsóknarleyfi en ekki neitt framkvæmdaleyfi og það geti varla verið slæmt að rannsaka svæði.

Þá er það þó því miður þannig að með rannsóknarleyfi þarf yfirleitt að leggja í alls kyns framkvæmdir til að geta stundað rannsóknirnar. Það þarf oftast veg og það þarf að bora til að vita hvernig undirlagið fyrir stífluna á að vera. Frægar eru auðvitað rannsóknarborholur sem eru gerðar eins og vinnsluborholur þegar verið er að virkja jarðhita. Síðan man ég vel eftir framkvæmdunum á Kárahnjúkasvæðinu sem voru gerðar á meðan eingöngu r var rannsóknaleyfi til staðar.

Síðan man ég varla eftir því að gefið hafi verið út rannsóknarleyfi án þess að virkjanaleyfi hafi fylgt í kjölfarið. Enda leggja virkjanaaðilar yfirleitt út í svo mikinn kostnað við rannsóknirnar að það er ekki forsvaranlegt annað en að leyfa þeim að halda áfram.

......




....

Monday, October 20, 2008

Farartæki út um allt

Mér er eiginlega hætt að lítast á dreifingu farartækjanna út um allar grundir. Á föstudaginn var farið í spurningakeppni SFS og þar sem þar skyldi sötraður áfengur drykkur til að tryggja gleði þrátt fyrir slakan áranangur var farið þangað hjólandi (nei, ég hjólaði ekki neitt fullur heim heldur skildi hjólið eftir - ég vildi hafa bílinn heima - og þess vegna er það hjól þar ennþá). Í dag fór ég svo og sótti nýja hjólfákinn. Skildi bílinn eftir þar og hjólaði heim. Þar sem nýi hjólfákurinn var eitthvað órólegur í svona nýju umhverfi leyfði ég honum að koma bara inn. Þannig að hann er hérna í andyrringu uppi á annarri hæð hjá mér og unir hag sínum hið besta. Svo er Cesar hér ennþá einhvers staðar rétt hjá á bílastæði og bíður því sem verða vill og Ventó er einhvers staðar í transporti með HK og aumingja Runi er víst kominn á haugana. Ég verð víst að fara að reyna að safna þessum farskjótum mínum eitthvað saman!

Nýr farskjóti

scott

Það var líklega kominn tími á endurnýjun þar sem sá gamli Muddi Fox, Leðjuláki eins og karl faðir minn kallaði hann einhvern tíman er líklega að komast á bílprófsaldurinn og því farinn að keyra sjálfur.

Á reyndar eftir að sækja það en maður hjólar víst heim í dag!

Er annars af gerðinni Scott Aspect 10... örugglega alveg eðalfínt!

Annars er planið að sá gamli blái verði á nöglum í vetur en sá nýi grái verði hinsegin dekkjaður.

Sunday, October 19, 2008

Raunir mælingamanna

Mælingahelgi helguð Hagafellsjökli Vestari

GönguleiðÞað er súrt að hafa tekið eitthvað að sér og ná ekkert að gera það sem ætlunin var. Eitt af því sem var að verða þannig er mælingaverkefnið okkar fyrir JÖRFÍ sem felst í að mæla Hagafellsjöklana.

Allt of seint í gær á laugardag var haldið af stað á óbreytta Patrolnum á sumardekkjunum. Undirbúningurinn eitthvað dálítið mikið svona og svona. Punktar settir í GPS tækið á leiðinni uppeftir og stefnan sett á Linuveginn (sem reyndar ku vera farinn að vera kallaður eitthvað annað sem ég man ekki). Ætlunin að mæla vestari jökulinn fyrst því hann var ekki mældur í fyrra.

Patrollinn (það verður nú að fara að finna eitthvað betra nafn á þennan bíl ef hann á að vera álitinn einn af fjölskyldunni) stóð sig vel. Svo sem ekki erfitt verkefni en smá snjóföl og hann jú bara á sumardekkjum. Enginn vegur fannst til norðurs sem brúklegur þótti enda ekki gott að reyna við slíkt þegar snjórinn lá yfir. Það var því bara arkað af stað þegar fjarlægð í fyrsta punkt var rétt rúmir 3 km. Sá göngutúr gekk bara vel.

Mæling í gangi

Gunni með GPS tækið góða við vörðuna sem heitir þv´þi frumlega nafni YJ í punktasafninu



Varðan í YJ var mæld svona meira til að sannreyna mælitækið en líka var tekin ein herjarinnar Panoramamynd sem er kannski eini vísindalegi ávinningur ferðarinnar.

Panorama - Hagafellsjökull vestari

Hagafellsjökull vestari, 18. október 2008. Ef smellt er á myndina fæst risaútgáfa af henni. Tekur smá tíma að sækja en sýnir jökulinn ágætlega



Á myndinni sést til árinnar sem við höfðum mátt vita að væri þarna. Vorum við eitthvað lítið búnir til vaðferða. Ekki einu sinni með vaðskó. Töluvert vatn var í þarna þar sem við komum að fyrst og nokkuð sjálfgefið að reyna að komast áfram án þess að þurfa að vaða.

Áin frá Hagafellsjökli Vestari...

Vatnshindranir mælingamanna



Gengum áfram til vesturs í von um að komast fyrir upptökin en það reyndist borin von. Gengum einhverja kílometra meðfram ánni og reyndar var hún mjög lítil sums staðar og svekkelsi að fara ekki yfir. En það var líka farið að ganga á birtutímann og orðið dálítið illa langt til baka því við vorum að ganga beint í burtu frá mælingarstaðnum. Ákváðum því að rölta okkur bara til baka.

One person - one world - world of ice

Á leið til baka



Gerðum svo aðra tilraun í dag á sunnudegi en veðrið var að spillast og eftir að hafa verið í hríðarmuggu á Mosfellsheiði var ferðinni bara breytt í bíltúr um Grafninginn. Jökullinn bíður því betri tíma. Vonandi gefur á hann um næstu helgi en engu er samt að treysta. Bæði þarf veðrið að vera sæmilegt og síðan tekst ekki að mæla jökuljaðarinn nema það sé svona sæmilega snjólétt á svæðinu.

A shadow and his brother

Tveir skuggalegir fyrir sunnan Hagafellsjökulinn

Sunday, October 12, 2008

Kell - kell - kellingarfjöll

Það var verið á fjöllum um helgina


gonguleid kerlingarfjollBúinn að fá nóg af bölmóði borgarlífsins og það skyldi stefnt á fjöll... Kerlingarfjöll. Áhersluferð óstofnaða áhersluhópsins hjá HSSR að verða að veruleika. Í fyrra mættu fjórir til að labba og fjórir til að aka þessum fjórum. Núna voru þetta eitthvað uppundir 40 manns. Frábær ferð. Hægt að smella á kortið til hliðar ef einhver vill sjá almennilega hvað var labbað.

Eftir að hafa fyrst farið góðan rúnt um bensínstöðvarnar í Ártúnsbrekkunni og síðan einn Hafravatnshring svona af því að Frímann var í svo miklu stuði þá var keyrt bara austur fyrir fjall og á Selfoss og eitthvað lengra áður en sami Frímanninn fattaði að hann var ekkert á leiðinni í Þórsmörk að fara að hitta einhverjar kerlingar heldur var hann að fara upp á Kjöl þar sem Kerlignarfjöll eru. Það var því bara snúið við og farið upp á Kjöl... loksins.

Eftir að ýmsir voru búnir að leika sér við ljósavélina með misgóðum árangri komust allir á það stig að geta sofnað. Það var samt skammgóður vermir því á fætur skyldum við og arka á fjöll. Einhvers staðar í morgunmuggunni voru fjöllin sem stefnt var á en þar sem morgunmuggan var eitthvað hálf ógegnsæ ákvað minn að skilja myndavélarapparatið bara eftir í skálanum.

Umrætt myndavélarleysi varð til þess að eitthvað lítið tók undurritaður af myndum í labbitúr dagsins, en GPS tækið mitt heldur því fram að við höfum í fullri alvöru komist upp á alveg heilan tind... Mæni sem hengilmænur horfa öfundaraugum á.

Að ferðbúast

Allir eitthvað að ferðbúa sig í morgunmuggunni



Um kvöld var heljarinnar grill í boði sveitarinnar sem var eldað eftir kúnstarinnar reglum að frönskum hætti af frönskum kokkum fararinnar. Svo kom dagurinn eftir og þá var hægt að leggja af stað þegar Danni og Árni voru búnir að hvíla sig nóg.

Tveir í afslöppun

Árni og Danni í fullkominni afslöppun á malarbingnum



Það var arkað niður með Hvítá frá Hvítárbrú þar sem þónokkuð brattar flúðir sem ganga undir nafninu Ábóti og PÁÁ lofaði í Hálendishandbókinni heilluðu hal og sprund.

Ábóti í Hvítá

Ábótinn í Hvítá. Bara nokkuð kröftugar flúðir



Fólk hafði verið narrað til að hafa með sér nesti og át það af bestu lyst. Þeir sem höfðu látið narra sig gófluðu á nestinu sínu á meðan unglingaadeildin stóð hjá.

Að matast við Ábótann

Esra og fleiri að borða eitthvað



Nú, svo var bara farið í bæinn eitthvað í áföngum reyndar þar sem sumir fóru að smyrjka bílvélar með gírolíu eða eitthvað sem virkaði ekki of vel.

Sjálfur gæti maður verið á leiðinni upp á Kjöl eða Hagavatni reyndar aftur um næstu helgi til að mæla útlínur jökla þar sem snjór virtist ekki vera farinn að trufla þar af nokkru marki.


....

Monday, October 06, 2008

Lýðveldið Ísland

His name was Jon

Hann heitir Jón og átt afmæli sama dag og Ísland

Tilraunin hófst 17 júní 1944 (eða kannski hófst hún 874 ég veit það ekki alveg) og henni lauk í október 2008. Mjög merkileg hagfræðitilraun sem fólst í að athuga hvort dvergþjóð gæti staðið á eigin fótum. Tilraunin gekk brösótt á köflum en þjóðin virtist endanlega vera að taka flugið í byrjun 21. aldarinnar. Þá gerðist það undarlega að þjóðin var eins og flugvél sem ofreisir sig og missir svo flugið og steypist til jarðar með braki og brestum.

Allt í einu fóru allir landsmenn að haga sér eins og nýfjárráða unglingar og eyddu öllu um efni fram og því fór sem fór.

Í flestum hagfræðibókum 21. aldarinnar er kafli um íslenska æfintýrið. Dæmi um víti til að varast.


Það eru annars mörg ár síðan ég bloggaði svona mikið síðast og líklegast er þetta meira af vilja en getu sem ég er að tjá mig hér og nú!

Að fara á hausinn

Reykjavik out of focus

gamla daga voru síldarspekúlantar út um landið sem urðu ógeðslega ríkir og svo fór síldin og þá urðu þeir ógeðslega blankir eða fóru bara á hausinn. Þetta var í sjálfu sér bara gangur lífsins. Af hverju mega síldarspekúlantar nútímans ekki líka bara fara á hausinn?

Og af hverju er þetta svona. Í fyrra voru allir ógeðslega ríkir og ekkert lát á ríkidæmi landans. Það voru peningar alls staðar sem maður skildi ekki alltaf alveg hvaðan komu. Við áttum held ég áralangt heimsmet í viðskiptahalla en vorum samt einhver ríkasta þjóð í heimi. Einhvers staðar frá kom endalaust magn af peningum og hvaðan? Jú, líklega kom það frá útlöndum.

Það voru einhverjir íslenskir nútíma síldarspekúlantar sem áttu einhver fyrirtæki sem möluðu gull og þeir áttu banka sem möluðu gull sem kom líklegast þá erlendis frá í formi lánsfjár frá einhverjum erlendum síldarspekúlöntum og allir þessir græddu að öllum líkindum alveg ógeðslega mikið… en ekki lengur.

Núna kemur enginn peningur að utan sem til dæmis birtist í því að það vilja fæstir kaupa íslenskar krónur fyrir einhvern erlendan gjaldmiðil. Það sem var kallað hard currency hér í dentíð. Og þá stoppar þessi undarlega íslenska peningahringekja. Og hvað gerist? Fara þá ekki bara síldarspekúlantarnir á hausinn?

Bankarnir og fyrirtækin sem voru með alla peningana vörðu þeim líklegast ekkert of skynsamlega. Allt of há laun og allt of háar aukasporslur fyrir hagnað sem líklega var ekki neinn alvöruhagnaður og allt of mikið af fjárfestingum sem voru rugl út í buskann og skiluðu engum hagnaði þó reyndar eflaust sumt hafi tekist ágætlega.

En af hverju mega síldarspekúlantar nútímans ekki bara fara á hausinn eins og var hér áður fyrr. Fyrirtæki sem kunna ekki fótum sínum forráð eiga bara að fara á hausinn. Bankar sem lána þeim endalaust ættu líka að fara á hausinn og er þetta eitthvað svo hroðalegt.

Sjálfur vinn ég hjá einu ágætu fyrirtæki sem er í eigu annars fyrirtækis sem er í eigu annars fyrirtækis sem heitir Stoðir eftir því sem ég best veit og þeir eru á hausnum. Þeir skulda einhverjum, líklega bönkum fullt af peningum sem þeir geta ekki borgað og þá væntanlega þá eignast bankinn bara fyrirtækið. Bankinn fær samt auðvitað ekki allt til baka. Bankinn tók áhættu og lánaði í einhvern áhættu rekstur og verður að sitja uppi með það. Bankinn (sem er íslenskur) getur þá ekki staðið í skilum því hann fékk peningana sem hann lánaði að láni hjá öðrum banka (sem er útlenskur). Útlenski bankinn eignast þá bara íslenska bankann og vonandi er sá banki það stöndugur að fara ekki á hausinn líka. Þá eru bankinn íslenski bara orðinn útlenskur banki og er það ekki allt í lagi ef hann verður með einhverja starfsemi hérlendis? Þá á erlendi bankinn í raun fyrirtækið sem ég vinn hjá og væntanlega til að erlendi bankinn fái eitthvað fyrir sinn snúð þá fær það bara að starfa áfram eins áður hver svo sem hefur átt það í gegnum tíðina (sem eru orðnir dálítið margir aðilar).

Kannski eina vandamálið er að fólkið sem átti peninga í bönkunum tapar þá hugsanlega sínu sparifé en ekki ef stjórnvöld axla sína ábyrgð vegna slíkra skuldbindinga bankans.

En … æji … þetta er orðið langt og leiðinlegt og kannski ætti maður bara að fara að sofa og sjá hvort það verði ekki bara einhver allt annar veruleiki þegar maður vaknar á morgun.



Annars þetta með að hafa fengið allar þessar aukasporslur, stjórnendur almenningshlutafélaga, fyrir milljarðahagnað sem líklega var aldrei raunverulegur hagnaður… erlendis hefur fólk hefur farið í fangelsi fyrir minna held ég. Og ef það fylgir með í kaupunum að heil þjóð verði gjaldþrota þá er þetta eitthvað sem kalla mætti landráðastarfsemi.

Þeir eru stórtækir síldarspekúlantar nútímans.


Er það ekki annars dálítið skondið að allir 300 þúsund íslendingarnir (og ég þar meðtalinn að sjálfsögðu) hafa núna á einni viku breyst í útlærða hagfræðinga sem vita allt betur en allir aðrir!

Sunday, October 05, 2008

Á kannski bara að loka sjoppunni og fara til Kanarí



Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja... mér hefur flogið svo margt í hug þessa síðustu daga. Ein setning hefur oft komið upp í hugann sem ástsæli seðlabankastjórinn þáverandi forsætisráðherrann sagði einhvern tíman að ef eitthvað væri gert eða ekki getrt sem var honum mjög á móti skapi að þá gætum við allt eins lokað sjopunni og farið til Kanarí.

Það er svo margt sem maður hefur heyrt sem vekur mann til umhugsunar. Hvers konar vit er í því að hafa gamla pólitíkusa að stjórna seðlabanka einnar þjóðar. Sama manninn og ef ég man rétt lagði niður ráðgjafastofuna sína, Þjóðhagsstofnun af því að hún sagði eitthvað sem honum mislíkaði. Annars var áðan í fréttum að einhver Ingimundur seðlabankastjóri hafi verið á fundi með ríkisstjórninni. Ég man ekki eftir ráðherra og ekki einu sinni þingmanni sem heitir Ingimundur þannig að það er kannski einhver í seðlabankanum kominn fram sem eitthvað veit og getur.

Og svo á að fara að nota lífeyrissparnaðinn minn til að bjarga þessu öllu saman. Ég ætla rétt að vona að það séu sett almennileg skilyrði áður en það verður fara að gambla kannski einu sæmilega öruggu eignina manns af því að verðum jú öll að sýna ábyrgð. Sýna ábyrgð gagnvart hverju? Gagnvart þjóð sem er á hausnum... já kannski. En ábyrgð til að bjarga bönkum... nei ég held varla eða eiginlega alls ekki.

Hvað felst í að sýna ábyrgð?

Fyrir ári síðan og meria að segja fyrir nokkrum mánuðum síðan voru bankarnir allir að sýna fínar afkomutölur og alveg ótrúlega fínar afkomutölur ef ég man rétt. Kreppan virtist þá bara vera eitthvað í fjölmiðlunum en þessir ofursnjöllu stjórnendur bankanna með milljón plús (alveg helling) í laun á mánuðu héldu áfram að standa sig.

Snillingarnir sem ráku sín fyrirtæki með margmilljarða hagnaði ár eftir ár. Fengu líka lágmark tugmilljóna bónusa fyrir að standa sig svona frábærlega. Ef þessi margmilljarða hagnaður var raunverulegur, hvernig getur það þá allt í einu gerst að bankarnir geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Ég hélt að banki væri að mestu leyti eins og hvert annað fyrirtæki ef vel gengi þá væri til aur til að standa við það standa ætti við.

Ef ég á að sýna ábyrgð með að lána þessum snillingum lífeyrissparnaðinn minn þá held ég að það sé lágmark að snillingarnir skili aftur bónusunum sem þeir fengu fyrir að setja bankana á hausinn!



Hvar er annars forsetinn núna að stappa stálinu í þjóðina - ætti hann ekki að reyna að hugga hina skefldu þjóð.

Afmælisveislur


Yngsti afmælisgesturinn að teygja sig í afmælisveislunni

Stóribróðirinn átti afmæli í gær, orðinn eitthvað heilum degi eldri en í gær og heilu ári eldri en í fyrra og eitthvað fleiri árum eldri síðan hann fæddist.

Tók afmælismyndir sem urðu reyndar meira af þeim afmælisgestinum sem hefur aldrei átt ársafmæli en það fer nú aðkoma samt. Sat eitthvað fram á kvöld og var mikið röflað um einkaþotuliðið, lélega pólitíkusa, ónýta seðlabankastjóra sem eru reyndar bara afdankaðir pólitíkusar og ríki sem hagar sér eins og nýfjárráða unglingur sem kaupir sér yfirdráttarheimildir án þess að gera sér nokkra grein fyrir að þurfa nokkurn tíman að borga eitt né nétt. Varð svo bara latur og fór ekki í seinni afmælisveisluskammtinn sem mér var boðið í. En óska þá bara Hönnu og Eiríki til hamingju með að vera að nálgast að verða hundgömul eða að minnsta kosti dálítið eins og fullorðin í árum talið.

Er núna í jóalaskapi, vaknaður bara nokkuð snemma upp liggjandi i rúminu sínu, maulandia súkkulaði, sem reyndar er ekki jólasúkkulaði heldur fríhafnargóss og einhver smá snjór úti. Getur maður farið fram á eitthvað meira?

.... Jú kannski!

Saturday, October 04, 2008

Toskana að baki og veruleikinn tekur við


Í einum af vínkjöllurunum þar sem vínið er geymt í sérvöldum eikartunnum í oftast 1-2 ár

Ég var staddur í rútu á sveitavegi í Toskana þegar það fréttist að Glitnir væri orðinn ríkisbanki og þjóðin að fara á hausinn. Ég var í góðum hópi að smakka eðalvín Toskanahéraðs á Ítalíu. Loksins kominn heim í veruleikann með moskítóbit á rassinum fullur af þekkingu á Chianto - Chianto Classico - Super Toskana og meira að segja með í farteskinu heim löglegan skammt af þvílíkum eðalvínum.




....