Ég byrjaði reyndar á þessari bók í haust sem leið. Las einhvern þriðja part í henni í flugvél á leið til Tyrklands en svo varð bókin viðskila við mig í flugvélinni. Svo á leið í göngur seinna um haustið varð ég mér út um nýtt eintak í einhverri sjoppu Vesturlandsins. Svo las ég eitthvað frekar lítið í bókinni þangað til ég kláraði hana núna um daginn. Hvort þetta langa hlé varð til þess að eyðileggja fyrir mér bókina veit ég ekki alveg en eitthvað gerði það því mér fannst ekkert varið í hana. Það var dularfullt morð á dularfullum manni og dularfullt fólk sem tengdist manninum en það var ekkert að gerast. Þegar ég átti ekki mikið eftir af bókinni varð mér það á að lesa aftan á hana og þá sá ég að það var verið að leita að einhverri gamalli bók út um allt. Ég hafði einhvern veginn ekki fattað að það væri aðalatriði í bókinni. Svo eins og í annarri bók sem ég las eftir hana Yrsu þá kom í lkjós einvhern veginn á seinustu blaðsíðunum hver var morðinginn og jú, jæja, það var þá svona, svo sem auðvitað en mér fannst það ekkert merkilegt.
Einhvern tíman sá ég formúluna að formúluglæpasögunni hennar Agötu Christie. Þar mátti ganga út frá því sem vísu að það væri framið morð og að morðinginn kæmi fram einhvers staðar framarlega í bókinni og að ef maður væri nógu flinkur í að leggja saman tvo og tvo þá gæti maður fattað einhvers staðar í miðri bók hver væri morðinginn. Og svo í öllu falli þegar allt lægi ljóst fyrir í lok bókarinnar þá gæti maður sagt við sjálfan sig, auðvitað... þannig var það, það var auðvitað bara hann (eða hún) sem gat verið morðinginn. Hjá henni Yrsu jú, þá kemur morðinginn snemma við sögu en ég hef ekki séð eitt né neitt sem hefði átt að hjálpa manni að fatta hver var morðinginn fyrr en það bara kom allt í einu í ljós í lokin hver það var.
En ég er víst á skjön við flesta því þetta er víst eitthvað rosalega vinsælt hjá henni og það er auðvitað bara ágætt en ekki minn tebolli!
....
No comments:
Post a Comment