Sunday, March 01, 2015

Bók um galdur eða ekki

Það var lesin bókin "Galdur" eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Líklega skrifar Vilborg Davíðsdóttir "kvennabókmenntir" og reyndar nokkuð klassískar kvennabókmenntir þar sem aðalsögupersónan er kona með ákveðnar skoðanir sem er að berjast við karlaveldið sem hún býr í. Samkvæmt kyngreiningu minni ætti mér lítið til slíkra bókmennta koma og helst forðast að lesa þær. Það hef ég a.m.k. lesið á knús vef eða einhvers staðar annars staðar sem ég nenni ekki að muna. Bækur Vilborgar eru fínar en eftir að hafa lesið nokkrar þá verð ég dálíið þreyttur samt á því að aðalpersónan í hverri bók er dálítið eins og endurtekning á sjálfri sér. En þetta eru kannski bara höfundareinkenni.

Ef ég væri bókmenntafræðingur gæti ég eflaust útskýrt hvernig þessi bók beri þess merki að vera eitt af fyrri verkum Vilborgar. Mér fannt það a.m.k. dálítið skína í gegnum bókina en get svo sem ekkert alveg sagt af hverju. Það hins vegar skemmdi ekkert bókina sem var skemmtileg og þægileg aflestrar.

Dálítið gaman að lesa þessar sögutengdu skáldsögur Vilborgar með hliðsjón af t.d. Íslendingabókinni á vefnum. Hægt er að skoða þar hvenær hver persóna var til og þá kemur í ljós að sumar þeirra virðast bara alls ekkert hafa verið til. Það eru þá persónurnar sem Vilborg hefur fullt skáldaleyfi fyrir. Persónurnar sem eru þannig eru oftar en ekki óskilgetin ambáttar eða frillubörn og eru þess vegna ekki með i Íslendingabókinni. Eins börn sem dóu mjög ung og náðu ekki að skapa sér neina sögu. Persónur sem eru þekktar úr sögunni fá hins vegar að halda sínu æfiskeiði í stærstu dráttum eins og það á að hafa verið.

Kannski það sem mér fannst einkennilegt var nafnið á bókinni. Ég veit ekki hvað hún hefði átt að heita en mér fannst hún ekki vera um galdra nema afar takmörkuðu leyti og galdrar voru ekki að mínu mati nein þungamiðja eða driffjöður í framvindu bókarinnar.

No comments: