Hafði ekki þorað að vera mjög bjartsýnn og það er kannski bara eins gott. Röntgenmyndataka sýndi ógróin bein. Þetta er því alls ekki komið hjá mér þrátt fyrir allar þessar vikur. Mölbrotið var annars þannig að það þurfti margar röntgenmyndir til að ná öllum skrúfunum með á mynd - þær náðust ekki allar saman á eina mynd. Hef ekki hugmynd um hvað þær eru margar.
En skrúfufjöldinn er víst ekki aðal málið heldur frekar hvernig þetta er að gróa og það var alveg ljóst að þetta er alls ekki almennilega gróið ennþá hjá mér. Fór samt ekki aftur í gifs og á að fara að reyna að stíga eitthvað örlíið í fótinn en ég er ekkert á leiðinni að fara að sleppa hækjunum alveg strax. Það verða einhverjar vikur hjá mér ennþá þannig. Á tíma í röntgen aftur í lok apríl og þá ætti ég að vera farinn að ganga án þess að vera á hækjum.
Fóturinn leit annars vel út að sögn fólks á spítalanum sem sá fótinn en innaníið var sem sagt ekki alveg að gera sig. Ökklinn er síðan stokkbólginn og það sem mér fannst vera skrúfa að þrýsta á gifsið var líklega bara bólgan. Fóturinn síðan samsvarar sér eiginlega alveg hroðalega þar sem í kringum ökklann er hann í sverara lagi vegna bólgunnar en ofar þar sem ég átti einu sinni kálfavöðva er núna bara spóaleggur. Frá hné og fram á táberg er sem sagt svipað ummál á fætinum!
En ég má fara að byrja sjúkraþjálfun og er með pantaðan tíma þar á morgun. Það fer vonandi samt eitthvað að gerast þó hægt og rólega verði.
No comments:
Post a Comment