Saturday, February 21, 2015

Allt að koma

Kominn á stjá

Úr því maður komst ekki á fjöll í dag í blíðunni þá var smá sárabót að fá sér parhundrað metra göngutúr út í Hæðarhólmsgarðinn. Það var reyndar frekar kalt fyrir stuttbuxnastrákinn. Var í fylgt með fullorðnum sem tók myndina!

Er annars búinn að fara í vinnu á hverjum degi seinni part vikunnar. Var sóttur af snillingi Ævari á föstudaginn. Fór í Hagkaup á leiðinni heim. Skemmtileg tilbreyting það má segja.

Thursday, February 19, 2015

Hálfnaður og fór loksins í vinnuna

Núna er ég svona nokkurn veginn hálfnaður í gifsnu eða ég vona að verða laus við það eftir 18. mars. Fór þá loksins í vinnuna í gær og gekk bara ágætlega. Var reyndar ekki mjög lengi og fór svo meira að segja á fund í Veðurstofu eftir hádegið. Verð eitthvað meira á rólinu núna en þarf samt far hvert sem ég fer. Vona svo að veðrið fari að verða umhleypingaminna.

Fór meirasegja á Urðarstekk til að gera tröppuæfingar. Það gekk ágætlega en endaði reyndar á að vera kominn með bjúg á tærnar. Þarf að taka þessu rólega.

Afmælisdagurinn í fyrradag var síðan frekar tíðindalítill. En ég fékk svínapörusteik úr Nettó til hátíðarbrigða!

Síðan dálítið skondið að þegar ég fékk skutl með Barða á Veðurstofunni til baka þá uppgötvaði ég að ég var ekki með neina húslykla. Er gjörsamlega buinn að missa tökin. Ræð ekki lengur yfir mínu eigin eldhúsi og hef ekki einu sinni lyklavöld. Það vildi til happs að Gunninn var á Veðurstofunni og var hann með lykil!

Sunday, February 15, 2015

Það var loksins kláruð bók: Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson

Einhvern tímann snemma í desember heyrði ég lesið upphafið á þessari bók og með það sama ákvað ég að þessa bók yrði ég að lesa. Sá svo á Fesbók að vinur minn Páll Ásgeir lofaði bókina í hástert. Það tók ég líka sem meðmæli og keypti því þessa bók þegar ég sá hana á góðu verði í einhverjum stórmarkaði. Það ætti maður aldrei að gera.

Öðrum hvorum meginn við áramótin fór ég svo að reyna að lesa bókina. Áttaði mig fljótlega á því af hverju Páli Ásgeiri hafði fundist bókin svo góð. Hún er skrifuð meira og minna eins og hann hefði skrifað hana sjálfur. Svona eiginlega eins og slitin út úr munninum á honum. Það er gaman að hlusta á Pál en ég játa að ég hefi ekki mikla nennu að lesa tuga blaðsíðna lýsingar á einhverju úr sögu Íslands í skáldsöguformi. Án þess að ég gæti séð að það tengdist neitt söguþræði bókarinnar. Reyndar áttaði ég mig ekkert almennilega á því hver söguþráðurinn í bókinni ætti að vera því bókin fannst mér eiginlega bara vera endalaus romsa atburða sem hafa átt sér stað eða ekki átt sér stað á hinum óaðskiljanlegustu tímabilum íslenskrar sögu.

Snemma í vaðlinum í bókinni tók ég eftir einherju sem ég taldi ekki vera rétt sagnfræðilega. Það er þar sem fram kom að allt fólk í Öræfum hefði látið lífið samstundis þegar eldský og gjóskuflóð æddu niður Öræfafjökul í gosinu 1362. Hið rétta er þar að minnsta kosti að á Bæ sem hefur verið grafinn upp fundust leyfar af fólki sem hefðu þó átt að vera þar. Ljóst var því að þar náði fólkið að flýja. Þessi kannski ekki svo mikla ónákvæmni varð til þess að ég áleit sagnfræðilegan texta bókarinnar bara vera skemmtilega fram settan kjaftavaðal en ekki neitt til að byggja einhverja skoðun á. Las ég því hratt í gegnum hverja blaðsíðuna á fætur annarri þangað til lokið var við tvo þriðju bókarinnar. Var henni þá bar ahent út í horn.

Þegar ég var svo orðinn rúmliggjandi fótbrotinn heima hjá mér þá sneiptist ég til þess að klára bókina eftir að hún hafði fengið bókmenntaverðlaunin. Áfram las ég bókina á sama hundavaðinu. Á einhverjum köflum kom fram einhver söguþráður og eitthvað til að tengja við en það var svo ekki fyrr en á síðustu 20 síðunum eða svo sem að hringurinn sem bókin lýsir náði saman. Þá small allt og bókin ekki svo slæm en eftir situr það að fyrir minn smekk hefði þessi bók verið mun betri sem smásaga en ekki mörg hundruð blaðsíðna skáldsaga.

Í það heila þá er þetta með undarlegri bókum sem ég hef lesið. Bókin varð mestölubók fyrir jólin og eitthvað segir mér að það hafi verið sett íslandsmet í fjölda bóka sem verða aldrei lesnar.
Frá uppgröfnum rústum á Bæ undir Öræfajökli en þar fundist engin ummerki um að fólk hefði grafist undir ofanflóðum frá Öræfajökli - öfugt við það sem Ófeigur hefur í Öræfabókinni og varð til þess að ég lagði ekki mikið uppúr annarri sagnfræði bókarinnar hans.

það var lesin bók: Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Fékk þessa lánaða frá bróðurnum mínum þegar ég lá fótbrotinn á Borgarspítalanum. Hef lesið eina bók áður eftir Vilborgu, Hrafninn og þessi er eins og su bók, alveg glettilega góð.

Það eru reyndar komnir einhverjir dagar síðan ég lauk við bókina og eitthvað byrjað að skolast til en svona í upphafi þá var hún dálítið eins og að lesa Íslendingasögurnar að ég ruglaði öllum persónunum saman og náði ekki neitt allt of miklu sambandi við hana. Átti ruglið reyndar helst við um tengsl persónanna. Þ.e. hver var systir eða bróðir hvers, frænka eða forfaðir. Persónusköpun aðalpersónanna og þá sérstaklega Auðar hins vegar með eindæmum góð. Alveg frá fyrstu síðu var verið að sníða til áhugaverða persónu fyrir mann til að kynnast nánar.

Söguþráðurinn einnig alveg ágætur þar sem sagan hélt alltaf áfram með ágætu tempói þannig að alltaf eitthvað nýtt kom í ljós sem hægt var að velta fyrir sér. Fáir dauðir punktar í bókinni. Svo skemmdi ekkert fyrir að prsónurnar eru til í Íslendingasögum og hægt er að fletta þeim upp á Íslendingabók Friðriks Skúlasonar til að velta fyrir sér hvar um skáldskap er að ræða og hvar byggt er á raunverulegum heimildum.

Eftir lesturinn er nokkuð ljóst að það þarf að lesa framhaldið einhvern tímann sem fyrst og eins þá má vel glugga aftur í framhald framhaldsins, Laxdæla sögu sem ég las líklega fyrir svona 30 árum síðan. Mikið skelfilega er maður orðinn aldraður!

Að sækja þann norðlenska Nissan... eða bara Datsúninn

Einum kennt, öðrum bent. Var eitthvað potandi út í loftið til að heimta að Gunninn bæri sig að á einhvern sérhannaðan hátt við myndatökuna.

Varð eiginlega að pósta aftur til að koma þessari mynd líka inn. Fór með Gunnanum í skondinn leiðangur að sækja bílinn minn en hann var yfirgefinn á bílastæðinu við Ferðafélagið. Það hafði gengið eitthvað erfiðlega að koma honum í gang því hann er með þeirri sérkennilegu þjófavörn að beita þarf lyklinum á sérstakan hátt til að startarinn vilji eitthvað fyrir mann gera. Með réttri fyngrasetningu tókst að koma honum nokkuð fljótt í gang og er hann kominn núna heim til sín. Var líka ágætt að sitja í aftursætinu.

Svo var farin hressingarganga númer 2 í dag yfir í Hæðarhólmgarðinn þar sem var sest á bekk eins og hvert annað gamalmenni.

Ekki varð hvað síst að mamman manns kom með bollur klárar fyrir rjóma og súkkulaði sem í sig voru góflaðar af henni sjálfri, mér og Gunnanum. Ragnhildur &Co með hálsbólgu eða eitthvað heima hjá sér fékk líka sinn skerf. Pabbinn var hins vegar heima með sitt fótarmein sem er í sjálfu sér sínu verra en mitt. Ævar svo kominn með flensu þannig að fararstjórakvöldi eins fjalls mánaðar var frestað... líklega til næstu helgar.

Á morgun er svo stefnt að því að komast i vinnuna!
Þar fæ ég að öllum líkindum meiri bollur. Já er ekki lífið bara alveg hreint ágætt.

Fyrsta útiveran í þrjár vikur

Sprellað smávegis á hækjunum í Hæðarhólmsgarðinum

það eru víst komnar heilar þrjár vikur síðan ég braut mig. Í dag er sunnudagur en það gerðist á laugardegi fyrir þremur vikum. Sunnudagurinn daginn eftir brotið var ég á deild B5 á Borgarspítalanum. Alveg sérdeilis gott að vera þar, fræbært fólk sem sá um mig frá A til Ö. Gekk þá reyndar ekki vel að skrölta um á hækjunum og ekki inni í myndinni að sprella eins og á myndinni að ofan. Ætli það hafi ekki veirð um svipað leyti dagsins sem ég fór fyrst út úr rúminu. Það var eins og fóturinn ætlaði að detta aftur í sundur og þrýstingurinn á fætinum varð frekar mjög vondur. Ég varð að láta sjúkraþjálfann halda undir fótinn því ég hélt honum varla sjálfur. Svo fór þetta að lagast. Seinna sama dag eða daginn eftir þá þurfti sá sem hjálpaði mér, bara að þykjast vera að halda undir fótinn. Núna get ég hérubil sveiflaði gifsfætinum.

Hef enn ekkert farið í vinnuna og að mestu leyti haft hægt um mig. Ætla á morgun hins vegar að skrönglast í Staka og fara að gera eitthvað. Af nógu að taka þar eftir fjarveruna. Vona bara að veðrið haldist sæmilegt því það er ekkert of gott að vera að skrölta á hækjum í snjó, slabbi og hálku. Raunar er það ófærðin sem hefur dálítið komið í veg fyrir að ég hafi verið á einhverjum utandyraþvælingi.

En núna í morgun þá kom ég múttunni sem sagt á óvart þegar ég lýsti því yfir að ég ætlaði að fara í göngutúr. Hún hélt að ég væri bara að fíflast en vissi svo ekki hvaðan á hana stóð veðrið þegar hún áttaði sig á því að mér var fúlasta alvara. Gifsfóturinn var klæddur í ullarsokk sem ég átti alveg óvart eitt eintak af, sokk sem lítur út fyrir að vera sérhannaður fyrir gifsfætur. Notað var sérhannaður skemillinn sem Gunninn betrumbætti til að komast á rassinn og svo var skoppað á rassinum niður stigann. Arkað út í Hæðarhólmsgarðinn, sest á bekk, staðið upp og múttan tók mynd. Skrölt til baka og skreiðst upp stigann aftur. Var helvíti fínn göngutúr má segja þó ekki hafi hann nú verið sérlega langur!

Monday, February 09, 2015

Nýtt gifs... úr plasti samt... á mánudagsmorgni

Nýtt og fínt gifs hægrifótar á mánudagsmorgni en vinstri fóturinn eitthvað að misskilja þetta þar sem hann ætlaði sér greinilega á fjöll.

Það eru víst komnar 2 vikur núna frá því aðfóturinn brotnaði. Í morgun var farið á göngugeild G3 til að taka saumana úr skurðunum á fætinum og svo fékk ég þetta fína nýja gifs. Reyndar er gifsið núna úr plasti, ekki þykir víst móðins lengur að hafa gifs úr gifsi. Þetta lítur allt saman alveg ágætlega út en gekk reyndar eitthvað illa að fá 90°horn á ökklann. Held reyndar að pínu ergileg önnur hjúkkan hafi frekar klúðrað því. Þær voru tvær. Önnur fín en hin ekki alveg jafn fín.

Sunday, February 08, 2015

Afmæli systur sinnar heima hjá manni

Þegar systir manns á afmæli og engin afmælisveislan hefur verið í langan tíma en samt grunur um að afmælisgjöf bíði þá er eðalsnjallt að láta fótbrotna bróðurinn sinn halda afmælisveisluna. Var ekki alveg þannig þar sem hún hélt afmælisveisluna en það var hins vegar bara svo skemmtilegt að afmælisveislan var haldin heima hjá mér sjálfum!


Tommi trúður, systur tvær og jöklafræðibók hvar systurnar voru í afmæli mömmu sinnar heima hjá fótbrotna frændanum. Og svo, það er líklega ekkert svo slæmt að geta tekið svona mynd á símann sinn

----
Skráð inn 15.2.2015

Wednesday, February 04, 2015

Brotinn fótur

Lambafell Í Þrengslum með FÍ
Á leið niður af Lambafelli. Slysið átti sér stað á svipuðum slóðum og fremsta fólk halarófunnar er á þessari mynd

Það gerðist á laugardegi 24. janúar 2015 rétt upp úr hádegi

Gera slysin boð á undan sér? Stundum en ekki alltaf. Þetta slys gerði lítil boð á undan sér. Var í frekar auðveldri göngu á Lambafell í Þrengslum og eiginlega kominn niður af fjallinu þegar snjóhengja gaf sig eða hægri fóturinn og jafnvel ég allur var allt í einu í frjálsu falli, fótur kom niður ofan í holu eða festist af einhverjum ástæðum. Fann að það gaf sig eitthvað inni í fætinum, eitthvað sem ég vissi ekki að gæti gerst á svo auðveldan hátt og ég lá óvígur eftir.

Það var dálítið fum á fólkinu fyrst í kringum mig. Kannski ekki alveg gert ráð fyrir því að einn af leiðsögumönnunum færi að slasa sig. En hér kom í ljós að allt getur gerst. Tókst að komast í talstöðina og kalla til bræður Örvar og Ævar sem komu fljótt. Dálítið kraðak var á tíma í kringum mig en annars gengu björgunaragerðir rosalega vel. Það var hlúð að mér, sett eitthvað dót undir mig og mér troðið í úlpu líklega af öðrum hvorum bræðranna. Slysið var tilkynnt á 112 og óskað eftir flutningi. Það var eitthvað minnst á að þyrla væri í athugun en ekkert í hendi með það. Það voru einhverjir læknismenntaðir með í för og ég held að eitthvað sem þeir sögðu um 90°rótasjón á fætinum hafi haft úrslitaþýðingu með að þyrluflutningur var skoðaður af alvöru.

Eftir einhverar spekúlasjónir um spelkun eða ekki spelkun var niðurstaðan að hafa mig í skónum og spelka hann ekki en hins vegar settur stuðningur með fætinum til að hann lægi ekki alveg út á hlið. Bræður Örvar og Ævar ásamt læknum sem voru með voru búnir að sjá aðeins hvar fóturinn var brotinn. Ég var alveg sæmilega bjartsýnn þar sem brotið var bara einhvers staðar á sköflunginum en ökklinn ætti þá ekki að vera í svo mikilli hættu. Annað átti eftir að koma í ljós :-(

Það var eiginlega mitt lán að nokkrir undanfarar höfðu verið að æfa sig með þyrlu á Sandskeiði og æfingin þeirra búin rétt mátulega og komu og sóttu mig. Voru eitthvað úr Garðabæjarsveitinni og Hafnarfjarðar skildist mér og svo var þar Maggi Blöndal, mér til mikillar ánægu. Hann var auðvitað með myndavélina sína og tók nokkrar myndir. Sótti þessa hér að neðan á FB sem hann setti inn á lokaða hjálparsveitarsíðuna.



Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli þannig að ég fékk líka far með sjúkrabíl. Greinilega ekki lent beint við spítalann nema hraði skipti öllu máli. Það var svo sem ekki raunin hjá mér en ég verð að segja að mikið ofboðslega var ég þakklátur fyrir að fá þyrluna til að flytja mig. Annars hefði þurft að koma á breyttum jeppa yfir óslétt Kristnitökuhraunið við Lambafellið. Bæði hefði ég þurft að bíða mikið lengur eftir flutningnum og eins þá hefði flutningurinn tekið mun lengri tíma og verið sínu óþægilegri. Þyrlan var afar fljót að komast á sinn leiðarenda.

Á slysamóttöku Borgarspítalans tókst að koma mér úr skóm og buxum og þá var hægt að senda mig í röntgen með fótinn rammskakkann og röntgenmyndin sýndi nokkuð greinilegt fótbrot. Ég hafði annars sagt við fólkið á slysó að áður en ég fór í myndatökuna að kannski væri ég ekkert brotinn. Það var bara hlegið að þeim ágæta brandara - enda datt mér ekki í hug annað en að fóturinn væri brotinn. Neðri hluti sköflungs reyndist vera mölbrotinn og að sem verst var að neðst var hann brotinn ofan í ökklaliðinn þannig að hann var sem sagt illa laskaður. Sprunga hélt þar áfram ofan í ökklann en var ekki brotið. Svo brotinn líka sperrileggur ofarlega.

Bræður Örvar og Ævar komu til mín, fengu allar fréttir. Komu með dót og tóku dót sem ég hafði verið með og aðrir höfðu látið mig fá. Búið að láta Pál framkvæmdastjóra FÍ vita þá strax held ég og hann myndi sjá um slysatryggingarpartinn.

Ég var settur á bæklunardeild B5, Gunni kom til mín með tölvu og eitthvað annað dót. Það var búið að segja mér að ég yrði jafnvel fram á miðvikudag á spítalanum. Vissi ekki alveg af hverju en átti svo sem eftir að komast að því hvernig myndi standa á því. Komst í aðgerð einhvern tímann um klukkan 9 um kvöldið. Aðgerðin tók eitthvað vel á annan tíma og þegar ég vaknaði á skurðarborðinu eftir aðgerðina var mig bara að dreyma eitthvað í rólegheitunum. Þreifaði eftir fætinum og varð dálítið hissa á að gipsið næði ekki upp á nára því það var búið að hræða mig með því að það væri nauðsynlegt út af efra brotinu á sperrileggnum. Það var víst ekki nein þörf á að gera nokkurn skapaðan hlut með efri hluta sperrileggs og raunar bein sem ku mega bara nota í viðgerðir á öðrum beinum! Eitthvað heyrði ég sagt um að ég hefði verið mikið brotinn en síðan ekkert meira því ég var settur inn á gjörgæslu þar sem ég fékk að vakna í rólegheitum. Ekki af því að ég væri í sérstakri lífshættu heldur bara út af því að ég var að vakna úr svæfingu. Sérkennilegt að liggja þar innan um fárveikt fólk og finna að blóðþrýstingur var tekinn reglubundið á svona korters fresti sjálfvirkt. Svo var mér ekið til baka á bæklunardeild B5. Hringi í Gunnann sem hafði farið heim áður en aðgerðin hófst til að tilkynna að ég væri lífs.

Fóturinn samsettur. Vinstra megin sést framan á fótinn og fullt af skrúfum. Á myndinn hægra megin sést staka skrúfan sem heldur sköflungnum saman að neðan.

Á sunnudagsmorgninum kom skurðlæknirinn Ríkharður Sigfússon til mín og jú sagði að þetta hefði verið mikið brotið en nú ekki mikinn áhuga á að spjalla mikið en vildi helst að ég færi af spítalanum sem fyrst þar sem veikara fólk þyrfti að komast að. Eða það voru í öllu falli skilaboðin sem ég meðtók. Mér tokst nú samt að teygja lopann fram á þriðjudaginn þegar skipt var um umbúðir á fætinum. Var þá orðinn alveg sæmilegur af verkjum í fætinum og farinn að geta hreyft mig sjálfan án þess að finna mikið til.

Hægt og rólega þarna á spítalanum áttaði ég mig á því að fóturinn hafði verið mölbrotinn og það sem var verst er brotið neðst í sköflungi sem náði niður í ökklaliðinn. Það var fest saman með stöku skrúfunni. Læknirinn sem var með til aðstoðar í aðgerðinni sagði mér í umbúðasiptinum hins vegar að mjög vel hefði tekist til varðandi þetta í aðgerðinni. Svo var sprunga ofan í ökklaliðinn.



Það var svo á þriðjudegi að skipt var um umbúðir á fætinum og upp úr hádeginu fór ég heim. Það var mamman mín og Gunninn sem komu mér heim. Gunninn búinn að heimsækja mig margoft en líka bræður Örvar og Ævar sem næstum því vöktuðu mig. Ragnhildur með sitt slekti kom líka alveg einu sinni ef ekki tvisvar. Kominn heim með tvö sett af hækjum. Þær löngu sem ég keypti sjálfur og svo mannbroddahlkjurnar frá Önnu Maríu.