Thursday, March 03, 2005

Undarleg hegðun hreinsunardeildar um miðja nótt

Ég veit ekki alveg af hverju ég vaknaði núna um miðja nótt. Líklegasta ástæðan er nú sú að þessa tvo eða þrjá daga sem ég er búinn að liggja veikur hef ég sofið á undarlegum tímum um miðjan dag og það eru líklega takmörk fyrir því hvað er hægt að sofa mikið.

En ég veit af hverju ég get ekki sofnað aftur.

Eftir að hafa lesið einhverja kafla í bók um afrískan kvenspæjara þá er ég farinn að venjast suðinu sem berst inn um gluggann hjá mér. En ég held að núna í tvo klukkutíma séu háæruverðugir starfsmenn Reykjavíkurborgar búnir að vera að leika sér á götusópara hér fyrir utan og núna eru tveir í appelsínugulum samfestingum að leika sér að því að spúla gangstéttarnar. Já það er ekki ofsögum sagt að við búum í hreinni borg.

En Borgarstjóri góður, er ekki hægt að gera þetta á einhverjum öðrum tímum en um miðja nótt. Það vill nefnilega til að við Laugaveg á líka heima fólk. Og það er ekkert krökkt af fólki á gangstéttinni hér fyrir utan allan daginn.



....

No comments: