Ég held að það hafi verið í hádeginu í gær í vinnunni minni. Ég settist einn við borð. Fljótt kom einn og fór að tala eitthvað um starfsmannafélagið við mig. Það var ágætt. Síðan komu tveir aðrir og þögðu í svona tvær mínútur. Síðan kom einn til viðbótar og ég hætti í hálfa sekúndu að tala um starfsmannafélag eða hvern þremilinn sem ég var nú að tala um.
Sá nýkomni spurði hvort við hefðum séð leikinn. Þá þagði ég enn fastar enda vantaði mig grundvallar upplýsingar svona eins og hvort þetta hefði nú verið handbolta eða fótboltaleikur. Næsta korterið borðaði ég, þagði og hlustaði. Ég komst að því að þetta var fótboltaleikur í einhverri Evrópukeppni. Annað liðið var frá Spáni og hitt frá Englandi. Annað liðið vann en hitt tapaði en ég man ómögulega hvort vann eða tapaði en það var sitt hvort liðið geri ég ráð fyrir. Ég frétti einnig að allir pöbbar landsins sem ráða yfir sjónvarpi hafi verið yfirfullir þetta kvöld enda var þetta mikilvægur leikur og það kom líka fram að það er ekki stunduð ryksugun á þessum pöbbum þegar það er svona leikur en það er víst eitthva sem er oft gert heima hjá sumum þegar það er svona leikur í sjónvarpinu. Það er víst líka kostur við þessa pöbba að það er enginn að finna að því þó einn eða tveir öllarar renni um kverkarnar. Ég er nú reyndar svo óheppinn að það er aldrei ryksugað heima hjá mér nema ég geri það sjálfur og það er reyndar ekki neitt rosalega oft og hingað til hefur enginn fundið að bjórdrykkju heima hjá mér. Að minnsta kosti ekki minni eigin bjórdrykkkju.
En ég verð líklega að játa að fótbolti er í öllu falli frábært umræðuefni. ÉG sjálfur er líklega bara svona lélegur í samræðum.
En það undraði mig reyndar að sá sem byrjaði á að tala við mig um starfsmannafélagið og hvað hann ætaði að eyða miklum peningum í skemmtinefndinni hann þagði jafn duglega og ég yfir þessum fótboltaumræðum.
Það er annars eitt borð í mötuneytinu sem er óformlega frátekið fyrir bridds spilara. Kannski ætti að skipta borðunum eitthvað meira niður. Það mætti t.d. setja merki á borðin eins og:
- Fótbolti
- Golf
- Fjallgöngur
- Vinnan
- Survævor
- Idol
- Matreiðsla
- Barnauppeldi
- Kappakstur
- Þögn
- Frjálst....
No comments:
Post a Comment