Sem ég var að elda mér eitthvað gómsætt að borða til að öðlast aftur almennilega heilsu þá heyrði ég svona fúmm-skvúmm-búmm og síðan kannski smá læti á eftir og jafn vel hróp og köll.
Síðan heyrði ég í sírenu á löggubíl sem var í gangi svona 8,5 sekúndur eða þann tíma sem tekur að komast frá löggustöðinni við Hlemm og heim til mín. Stóðst ég ekki mátið og stakk álkunni út um gluggann og sá þá beint niður á hina spegilgljándi gangstétt. Var þá ekki búið að koma tveimur glæstum ökutækjum fyrir á gangstéttinni og svo haganleg að þær snéru sitt á hvað. Reyndar var gangstéttin eitthvað of lítil eða kannski frekar ökutækin of stór þannig að bíldrusslurnar og húsin höfðu mæst á miðri leið einhvers staðar á leið inn í stofu hjá fólkinu sem býr á neðstu hæðinni. Það er kannski samt bara allt í lagi því ég held að það búi útlendingar núna í þessari íbúð. Meira að segja hið voðalegasta fólk sem tókst að fá símann minn tengdan til sín þegar það flutti eða eitthvað þannig.
Nei ég verð stundum hugsi yfir þessari götu hér fyrir utan hjá mér. Ef ég myndi leggja bílnum mínum þarna öllum stundum þá væri líklega búið að klessukeyra hann kyrrstæðan svona tvisvar sinnum á síðustu þremur árum. Ekki mikið öryggi í því. Síðan má líka gera svona ráð fyrir því fyrir þá sem ganga mikið um þessa gangstétt að svona einn dag á ári þá komi ökumaður sem missi alla stjórn á bílnum sínum og keyri gangstéttina þvera og endilanga. Já fussumsvei.
....Síðan er mér kannski rétt og skylt að geta þess að mínum er eiginlega bara batnað. Fór út í búð áðan og var svona nokkurn veginn eins og ég á að mér að vera.
Hafði reyndar fyrr í dag arkað niður Laugaveginn og hitt þar Laufeyju sem vinnur með mér og þegar ég fékk hóstakast í annarri setningu (og hún kom fljótt) þá dæmdi hún mig samstundis sem innimat. Nei ég held að ég sé að ná mér.
No comments:
Post a Comment