Það virðist vart þverfótandi fyrir fólki sem er að fara eða nýkomið í eða úr ferðum á Kilimanjaró. Í morgun fréttist af konu á námskeiði í Skýrr frá Landmælingum Íslands sem fór í ferð með nokkrum Akranesingum á Kilimanjaró síðasta sumar. Hún var auðvitað gripin glóðvolg og pumpuð um alls kyns góð ráð. Eins og margir hafa ráðlagt lagði hún mesta áherslu á að fara nógu hægt yfir. Fara bara fetið í orðsins fyllstu merkingu.
Einnig hefur heyrst um að minnsta kosti tvo leiðangra Íslendinga þarna suður eftir núna það sem af er þessu ári. Í öðrum hópnum voru 18 manns og komust allir utan einn á toppinn. Er því orðið nokkuð ljóst að við frá Skýrr náum ekki að verða stærsti hópur Íslendinga á Kilimanjaró. Ágætt að vera búinn að fá það á hreint.
Síðan hefur eitthvað heyrst af því að starfsmenn annars fyrirtækis innan Kögunarhópsins, nefnilega VKS sé á leiðinni þarna suður eftir í júní.
En um hópinn minn á Kilimanjarí þá eru allir búnir að fá mikilvægustu bólusetningarsprauturnar, þ.e. við taugaveiki, lifrarbólgu og gulu. Gert er ráð fyrir að það sem uppá vantar verði gert á mánudag en það virðist alltaf vera einhver skortur á bóluefni í landinu.
Og svo. Það verður kannski ekkert bloggað á fullu um ferðina á meðan á henni stendur eða fram að henni á þessari bloggsíðu þar sem sérstök bloggsíða er um ferðina. Það er meirasegja kominn sérstakur bloggskrifari sem mun sjá um að ef eitthvað fréttist af leiðangrinum með ótölvuvæddum leiðum þá komist það inn á síðuna.
No comments:
Post a Comment