Friday, March 29, 2013

Helsærður eftir fjallgöngu...

... eða reyndar bara hælsærður

Snæfellsjökull, páskaferð HSSR 2013

Það sem var gengið. Rauði ferillinn er trackið sem kom úr GPS tækinu mínu en hinn ferillinn er einhver önnur slóð sem ég fann á internetinu og er líklega leiðin sem snjóbíllinn er vanur að fara þarna upp

Almenn páskaferð HSSR varð bara ein þetta árið. Það var farið á Snæfellsjökul og dagurinn vandlega valinn þannig að skyggni yrði ekkert og ekkert nema helvítis rok á fjallinu! Það var reyndar meinleysisveður þegar lagt var af stað en það hvessti eftir því sem ofar dró. Mættum vélsleðamönnum frá þeim sem eru vanir að rúnta með túrhesta þarna upp á jökulinn. Þeir sögðu aðstæður vera afleitar eða hafa verið það daginn áður. Jökullinn eitt klakastykki og erfiður yfirferðar. Ekki neitt harðfenni heldur bara klaki.

Snæfellsjökull, páskaferð HSSR 2013

Fyrsta pása eða svo á meðan veðrið var meinleysislegt

Við höfðum auðvitað ekki neinn sérstakan áhuga á því að elta snjóbílasóð og fórum okkar eigin leiðir áleiðs upp. Þar var boðið upp á góðan hliðarhalla og á köflum einhverja snjóflóðahættu en samt allt innan marka. Það hvessti alltaf meira og meira og varð svo að lokum skítkalt. Klakinn var hins vegar næstum alla leið upp hulinn góðu snjólagi sme hafði komið líklega nóttina áður. Það brást svo rétt fyrir neðan þúfurnar og varð það til þess að snúið var við. Þetta átti víst eftir allt saman mestmegnis að vera skemmtiferð en ekki bara æfing í að ganga á skíðum eða ekki skíðum upp brekku í vondu veðri án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut. En jú, þetta endaði á að vera hvort tveggja!

Snæfellsjökull, páskaferð HSSR 2013

Hressa liðið sem skildi okkur hin eftir á leiðinni niður!

Niðurferðin gekk að sjálfsögðu bara vel og var skíðað af kappi. Reyndar dálítið eftir búnaði og getu hvers og eins. Margir voru á fjallaskíðum og kunnu með þau að fara. Það var aðallega hressa liðið sem skildi okkur hin eftir. Svo voru aðrir eins og undirritaður sem hafði ekki stigið á svigskíði í heilt ár og var einhvern veginn á dularfullan hátt kominn í plógskíðabeygjustílinn! Aðrir voru á gönguskíðum og var hver með sinn stíl en skinnastíllinn var vinsæll í efri hluta fjallsins þar sem brattinn var meiri. Nú og svo mátti líka alveg vera gangandi þarna líka. Sem sagt allt leyfilegt á fjöllum!

No comments: