Friday, February 10, 2012

Að vera frekar óduglegur að blogga

Það hafði nú staðið til að bretta upp bloggermar en eitthvað virðist vera djúpt á þeim ermum. Ætla samt svona í hálfgerðri afslöppun með rauðvínsglas á föstudagskvöldi að blogga smá. Kannski eins og mig minnir að seinasta blogg Helenu hafi verið... lúðar á laugardegi þegar hún bloggaði eitthvað bara svona á laugardagskvöldi. En ég er og verð lúði, hvort sem það er föstudagur eða laugardagur. Jæja, þetta skilur enginn og skiptir ekki máli en svona frá því síðast eitthvað var bloggað...

Fjallamennskunámskeið HSSR


IMG_5592
Nýliðarnir að æfa broddagöngu í góðri brekku

Ég fór sumsé helgina 14. til 15. janúar með undraförunum sem aukaleiðbeinandi að kenna nýjustu nýliðunum eitthvað gagnlegt í fjallamennsku. Þetta var annars óttalegt slark að hluta þar sem rigndi eldi og brennisteini (líklega í orðsins fyllstu merkingu þar sem þetta var í Henglinum hvar brennisteinsgufur læðast um) eins og sést á a.m.k. annarri myndinni að neðan. En annars bara fín ferð þó hún hafi nú gengið þannig að ein stelpa úr hópnum sem ég var í gafst bara upp og fór heim eftur fyrri daginn. Samt bara ágætt að þeir sem sjá sig ekki passa inn í þetta átti sig á því sem fyrst og séu þá ekki að eyða sínum tíma eða annarra í þjálfun sem þá skilar ekki neinu þegar upp er staðið.

IMG_5561 IMG_5559

Ásinn kominn í taum í ausandi slagviðri og allt að gerast. Danni svo ekkert of ósáttur með þetta allt á seinni myndinni!



Fleiri myndir úr þessu fjallamennskunámskeiði eru á FLickr í sér setti.
    IMG_5610


Fellsmörk 20. til 22. janúar


VMM_4720

Það var farið til fellsmerkur eina helgina. Raunar afmælishelgi mömmunar þegar hún varð heilla 75 ára. Hún hélt nú samt ekki upp á afmælið fyrr en á sunnideginum og náði maður að komast í sturtu heima hjá sér áður en í afmælið var komið. En af Fellsmerkuferðinni fyrst.

Ég verð eiginlega að játa að Fellsmörk er einhver mesta snilld sem hefur hent mig í lífinu. Svona eiginlega af því sem ég hef frá mínu lífi er Fellsmörk það sem ég myndi hvað síst vilja vera án. En við bræður ókum þangað austur á Gunnans eðalfína bíl. Ekki mikið hægt að púkka upp á mín bílamál þar sem Ventó er ekki það merkilegur snjóbíll og svo er hann aukin heldur með bilaðar bremsur og ekki til neinna stórræða veslingurinn.

VMM_4619-stjornumerkingar

Stjörnumerkin yfir Fellsmörkinni: Síríus í litla hundi, Oríon og Nautið líka



Það var komið grenjandi myrkur þegar við komum austur en ekki nein grenjandi rigning heldur bara vel stjörnubjart og á myndinni að ofan sjást nafntoguð stjörnumerki. Þarna má sjá Síríus lágt á himni og svo Oríon. Það er þarna stjörnumerki sem ég þekki ekki alveg sem er Héramerkið held ég. Líklega á þetta að vera þannig að Óríon er þarna með bogann sinn og sverðið á veiðum, veiðir héraskinnið og er með hundana sína með sér. Jájá... frekar mikill viðbúnaður fyrir einn lítinn héra. En ég held að hann hafi ekkert verið að skipta sér af nautinu sem er þarna og ég sá í fyrsa sinni þetta kvöld. Lærði sem sagt að þekkja eitt nýtt stjörnumerki. Ekki svo lítil viðbót þar hjá manni!

Á laugardegi var rumskað eitthvað um sólarupprás. Birtan var auðvitað eitt æfintýri og teknar myndir til gleðiauka.

VMM_4744 VMM_4693

Skógurinn og kofinn hans Albrects í bleikri morgunbirtunni áður en sólin kom upp



Það var eitt æfintýri að ganga um skóginn í bleikri morgunbirtunni. Sólin var farin að lýsa upp skýin einhvers staðar og þau vörpuðu bleikri birtu til baka og ég hélt að ég væri að horfa á kraftlyftingamótið [þetta með kraflyftingamótið skilur held ég enginn nema ég og hann brójinn minn sem var þarna með mér] en þá allt í einu kom sólin upp og það þurfti að taka alveg nýjar myndir því það breytti allt um ham, allir litir sprungu út í blátt og gult á hinn dularfyllsta máta!

VMM_4738 VMM_4732

Hin dularfullu dýraspor


VMM_4749

Refaspor í snjónum liggja til fjalla



Í Fellsmörk er maður aldrei alveg einn - það er alltaf eitthvað með manni. Og ekki hafa áhyggjur því það er yfirleitt líka þessa heims en dýraættar. Þennan dag sáum við spor í snjónum hvað víðast. Áberandi refaspor sem okkur bræðrum finnst við ekki hafa séð svo oft áður voru í skóginum hér og þar. Lágu meðal annars upp allt alla landspilduna okkar og sjást á myndinni að ofan. Við sáum líka greinileg refaspór í snjónum fyrir áramót en í okkar minni er ekki mikið af refasporum í Fellsmörk áður fyrr. Það kann þó frekar að stafa af því að við höfum ekki verið í jafn miklu vetrarríkí í Fellsmörk áður. Ef lítill er snjórinn þá má líklegast búast við að refurinn sé ekkert sérstaklega að þræða snjóskaflana.

VMM_4723 VMM_4727

Spor eftir rjúpu í snjónum


Það voru dálítið fyndin spor eftir rjúpuna vildum við meina. Á myndunum að ofan er fyrri myndin þá af lendingarstað rjúpunnar og sést hvernig hún hefur runnið inn í snjóinn og svo steitt stömpum (eða segir maður ekki þannig?). Á seinni myndinni í bara einhverra metra fjarlægð er hinn endi sporanna ef ég man þetta rétt og þar vildum við meina að rjúpan hefði hafið sig aftur til lofts.

Í gönguskíðaferðinni sáum við svo nokkuð merkileg ummerki um salernisferðir rjúpunnar. Erum ekki vissir um hvort það var ein rjúpa sem var þar að verki eða margar en á nokkrum stöðum sáum við spor eftir rjúpu, holur svona 10-15cm í þvermál og á botninum á hverri holu var skítur sem við vildum meina að væri frá rjúpum. Reyndar héldum við fyrst að þetta væri refaskítur hugsanlega þar sem refaspor voru þarna i kring og að refurinn hefði étið rjúpurnar en eftir meiri umhugsun þá kom þetta betur heim og saman miðað við að rjúpurnar hefðu komið fyrst og svo hefði rebbi runnið á lyktina og komið seinna en gripið í tómt!

Svo sáum við að öllum kíkindum músaspor. Lítil spor, eftir tvo litla fætur hlið við hlið og svo eftir tvo aðra fætur fyrir framan í línu ská fram á við. Í Heiðmörk nokkrum dögum seinna sáum við mjög lík spor eftir kanínur en hins vegar svona 10 sinnumn stærri. En nóg um það því við fórum á skíði!

Skíðaferðin


VMM_4798

Það er alltaf jafn gaman að fara á skíði í henni Fellsmörk. Yfirleit höfum við farið upp á Heiði en núna gengum við nýja fína varnargarðinn og fórum yfir á vestursvæði Fellsmerkur. Vorum að gæla við þá hugmynd að komast upp úr Fellsmörkinni þar og fara norður fyrir Fellið og koma þannig niður aftur. Það varð þó ekkert úr því. Leiðin þar upp frekar torsótt og einnig hefði verið verulegt maus að komast niður aftur austan Fellsins. Líklega bara lán í óláni að við komumst ekki þar upp. Það var síðan í raun ekki nægur snjór til að fara hvar sem er og öxlin á Gunnanum var eitthvað í lamasessi líka!

skidatur - Fellsmörk 21.01.2012

Skíðaleiðin


Leiðin sem við gengum sést á kortinu að ofan. Punktar sem liggja upp á Fellsheiðina er leiðin sem væri vel hægt að fara með skíði í farteskinu og sést á myndinni miðri.

VMM_4819

Í Botnum ofan austursvæðis Fellsmerkur. Hugsanleg fær leið upp úr Fellsmörk þarna á skíðum hefði verið vinstra megin við klettana efst í fjallinu.


Um kvöldið var nokkuð hefðbundið að grilla en það bar kannski til tíðinda að einungis voru grillaðir hestar. Og hesturinn sem ég grillaði var af sérstakri snitsel gerð. Veit ekki gjörla hversu algengt er að slíkir hestar séu grillaðir. Það var síðan eins gott að grillið var merkt með einhverju priki því snjódýptinyfir því var á annan metra!

Annað sem kannski hvað helst bar til tíðinda að Eirasinn ákvað að sofa úti. Var með bívak með sér og bjó sér flet undir stjörnuhimninum með refum, rjúpum og músum. Varð ekki var við neitt kvikt um nóttina en heldur þótti honumkalt. Var einkar kalt á tánum. Þrátt fyrir að hafa haft bívakinn vel opinn með hausgatinu þá varð svefnpokinn allur hálf rakur og rúmlega það. Til fóta kom þetta illa út eins og kom í ljós þegar hann skreiddist inn í kofann undir morgun. En það var sum sé markmið að sofa í bívaknum um nóttina og ná að klára nótt í bívak þannig að maður gæti nú sagst hafa bívakað eitthvað. Eftir svona slitróttan svefn þá ákvað ég að um klukkan átta um morgun væri nóg komið. Var mál að losa blöðruna og þurfti hvort sem er að standa upp. Fór svo bara inn í kofa þar sem ég svaf eins og grjót heila 2 klst í viðbót. Alltaf ljúft að sofa í Músahúsinu. En af tánum og svefnpokanum til fóta var það að frétta að ofan á svefnpokanum fótatil var hann ekki bara rakur eða blautur heldur var hann frosinn. Það var sum sé klakabrynja utan á svefnpokanum innan í bívaknum. Annars staðar í bívaknum voru ískristallar á víð og dreif. Hvort ég gerði mistök með að sofa í svefnpokanum meira og minna alklæddur veit ég ekki alveg, þarf að prófa að hátta mig eitthvað næst. Eins er held ég ljóst að miðað við veðrið sem var, heiðskírt, logn en dálítið kalt að þá hefði kannski verið sniðugast að vera ekkert ofan í bívaknum heldur hafa hann bara undir mér. En þetta verður væntanlega prófað einhvern tíman aftur.

VMM_4870

Frosnir graðhvannarnjólar Fellsmerkurinnar og Búrfell í baksýn.




Eitt fjall hjá Ferðafélagi Íslands



IMG_5639

Já og svo hófst aftur eitt fjall á mánuði hjá Ferðafélaginu. Ég hafði eiginlega gert ráð fyrir að þetta yrðu eitthvað færri núna en í fyrra og jafnvel þannig að það væri ekkert þörf fyrir mig að gæda þarna lengur. En það varð ekki raunin. Það yfirfylltist allt og þegar 160 manns voru skráðir var hætt að taka við skráningum. Það voru um 130 manns sem fóru í þessa fyrstu ferð ársins sem var á Helgafell. Verður mikið gaman að fara í allar þessar ferðir á árinu!

Skemmtilegt verkefni!

No comments: