Saturday, June 04, 2011

Að leggjast í lesindi

Hann heitir Hermann og var frískur eins og fiskur en er nú samt bara strákur í bók eftir Lars Saaby-Christensen

Þegar maður heldur áfram að vera aumur í eyra eða einhvers staðar þá er hægt að leggjast í bóklestur og það var gert núna.

Fann eina á bókasafninu í bleika herberginu. Var meira að segja í plastinu ennþá. Með merki Máls og Menningar og hvort hún var keypt til lestrar eða bara kom með öðrum kiljum Máls og Menningar á meðan ég var sérlegur styrktaraðili þess félags veit ég ekki en ákvað að lesa bókina.

Sá reyndar mér til gleði að Sigrún sem var þá í Gæðastjórnuanrfélaginu þýddi bókina. Kann svo sem ekkert að dæma þýðingar en það var þó eitt ranglega beygt orð og eitt rangt forkskeyti að mér fannst en það er svo sem ekkert að marka. Man að hún var hér í dentíð að dæsa yfir einhverju þýðíngarverkefni sem hún hafði tekið að sér og það var líklegast önnur skáldsaga eftir þennan sama höfund. Hún átti reyndar að vera frekar þykk en þessi var frekar þunn... í millimetrum talið sko.

Bókin var hins vegar ekkert þunnyldi þó ég hafi ekki verið neitt sérlega lengi að lesa hana. Var létt og skemmtileg og fyndin á köflum, stundum dálítið angurvær en líka með alvarlegan undirtón. Svona ákveðið sjónarhorn á lífið og tilveruna sem gat vakið mann til umhugsunar um allt mögulegt og ómögulegt.

En svona heilt út sagt, fín bók sem var fínt að lesa.



Nafnlausir vegir eftir Einar Má Guðmundsson


Og úr því maður er byrjaður að segja hvað hefur verið lesið þá þarf líklega að játa að það var lesin önnur bók í veikindunum. Byrjaði reyndar á henni eitthvert kvöldið í Suðurlandsferðinni um daginn en las hana í raun ekki fyrr en í fyrragær eða einhvern tíman þá.

Ágæt bók en svona dálítið rann út í eitt í lýsingum á fólki síðustu aldar sem átti allt á einhver hátt pínulítið bágt eða í öllu falli stundum dálítið erfiða daga. Svona mannlífs- og atburðalýsingar sem höfðu samt fansnt mér hvorki ákveðið upphaf né ákveðinn endi. Þó það sé óréttlátur samanburður þá var þetta örlítið eins og símaskráin. Fullt af góðum persónum og áhugaverðu fólki en söguþráðurinn dálítið óljós.

No comments: