Ég veit ekki lengur hvernig þetta fer
Hér kemur minn barlómur:Einhvern tíman í mars eða apríl var alltaf frekar risjótt tíð og ekki mikil tækifæri til hjólreiðaæfinga. Enda allt í góðu þar sem enn voru margir mánuðir til stefnu. Svo komu prófin og þá var ekki tími til neins og svo sem allt í lagi því enn var meira en einn mánuður til stefnu.
Svo voru prófin búin og þá skyldi nú heldur betur stigið á sveif. Eitthvað örlítið jú en það þurfti víst að fara bæði í Suðurlandsferð og svo Vatnajökulsferð og Vatnajökulsbíltúr til að skoða eldgos. Allt frábærar ferðir. Eftir þá fyrstu biðu mín helst til of mörg verkefni og einnig undirbúningur fyrir næstu ferð. Ekki varð mikið af hjólaafrekum þar.
Svo var komið úr Vatnajökulsferð HSSR með snúið hné og nei það var ekki farið út að hjóla þannig á sig kominn enda bara farið aftur á jökul. Svo tveir vinnudagar og þá eitthvað komið í hálsinn og núna herur maður verið að mestu innandyra í tæpa viku.
Ég veit ekki hvað barlómur er en mynd af slíku má sjá á bloggsíðu Kára Harðarsonar.
Síðustu vikuna hef ég innbirt ótæpilegt magn af náttúrlegri ólyfjan sem mín móðir hefur af góðum hug borið í mig. Kannski ekki ólfyjan en óbragðið af sumu því hefur verið all ógurlegt. Ekki hef ég heldur slegið slöku við í innbyrðslu galdraseyðanna enda hafa þau sum hver jafnt verið notuð innvortis sem útvortis. Anga ég líklega allur af hvítlauk og dularfullum olíum sem ég geri ráð fyrir að haldi öllu venjulegu fólki í góðri fjarlægð frá mér!
Í dag veit ég síðan ekki alveg hvort ég eigi frekar að skrönglast til læknis ellegar gefa frat í þessi veikindi og fara bara út að hjóla á racernum... með hóstasaftina líklegast í brúsanum!
Eftir að hafa kastað tíkalli uppá það hvað eftir annað var nokkuð ljóst að ég skyldi til læknis fara. Fór og fékk eitthvað pilludót. Vonum það besta um batann. Tel niður...
No comments:
Post a Comment