Sunday, July 11, 2004

Fyndið hvað fólk er misjafnt


Það er kona sem býr í húsinu við hliðina á mér sem er búin að vera að dedúa í allt sumar við að laga til garðinn og held ég gera tjörn sem nær yfir fjórðung garðsins í stand. Það þarf reyndar ekki að þýða að tjörnin sé neitt sérlega stór því garðurinn er ekki sá stærsti á Íslandi.

Hún vandar sig þvílíkt við þetta að hún er búin að þvo alla mölina sem er í botninum á tjörninni. Um daginn var hún farin að slá grasið hjá sér með skærum. Ég er ekki að grínast, ég gat ekki betur séð en að hún væri komin út á gras með venjuleg skæri.

Hjá mér í græna húsinu hins vegar þá reyndar ofbauð okkur sumum um daginn ástandið á garðinum okkar og hún Jónína á fyrstu hæðinni tók æðiskast og réðist á óræktina sem var þar sem upphaflega átti að vera grasblettur. Daginn eftir kom ég og gekk endanlega frá bletinum með orfinu og ljánum sem var bloggað um um daginn. Blettinum sko þar sem meirihuluti gróðursins er mosi of fíflar. Gras er þar á miklu undanhaldi.

Reyndar nýtur hluti af blómabeðunum í græna húsinu sem ég er í góðs af dugnaði nágrannakonunnar því lóðamörkin eru dálítið hlykkjótt og erfitt að átta sig alveg á hvar nr 136 lýkur og nr. 138 hefst.

Á föstudaginn líklega var síðan einhver að grilla úti á stétt og núna til að undirstrika muninn á mannfólkinu eru tvö óhrjáleg einnota útigrill úti á stétt fyrir framan hjá mér og einmanna tóm bjórdós að fylgjast með. Konan við hliðina hins vegar held ég að hætti sér ekki lengur út vegna alls þessa subbuskapar. Kannski ætti ég að taka þetta saman fyrir þennan letingja sem nennir ekki að gera það sjálfur.

Ég eyddi síðan gærdeginum sjálfur í að búa til ódauðleg listaverk fyrir þessa ljósmyndakeppni á vefnum sem ég er kominn með á heilann. Eftir svona viku koma þær myndir líklegast hingað inn á bloggið. Reyndar kannski vonandi með myndum af hetjudáðum Skýrrara á Skeiðarárjökli og nágrenni. Er annars farinn að vandræðast með hvaða myndavél ég tek með mér þangað.

No comments: