Tuesday, February 03, 2004

Þegar forsetinn var lagður í einelti


Einu sinni sem oftar þegar ég var lítill strákur var mér boðið í afmæli einhvers annars stráks í götunni heima hjá mér. Ég man ekki hvað það var en einhvern óskunda gerði ég af mér í afmælinu og endaði það með því að afmælisbarnið líklega ákvað að reka mig úr afmælinu. Þetta þótti þjóðráð alveg þangað til einhver benti á að ef ég yrði rekinn úr afmælinu þá ætti ég að sjálfsögðu heimtingu á því að fá afmælisgjöfina til baka aftur. Runnu þá tvær grímur á afmælisbarnið og fékk ég að vera áfram. En auðvitað var þetta einhvers konar einelti sem ég var beittur.

Einhvern veginn datt mér þetta í hug þegar maður sér, heyrir og finnur fýluna milli EFF embættanna okkar og allt finnst mér þetta vera dálítið kúnstugt.

Það er náttúrlega alveg ljóst með 100 ára fyrirvara að það verði haldið upp á 100 ára afmæli, það sér hvert mannsbarn enda sagði Halldór Blöndal hirðsmaður Davíðs okkur það. Samt segir reyndar Davíð sjálfur að það hafi ekki verið hægt að boða fundinn með neinum fyrirvara út af því að það var ekki ljóst fyrr en á síðustu stundu hvort það væri hægt að halda hann eða ekki. Undarlegt að það geti munað 99 árum og 364 dögum á því með hvaða fyrirvara þessi fundur var ákveðinn.

En auðvitað átti Ólafur Ragnar að vita af þessu öllu saman þar sem Júlíus Hafstein [eða var það einhver annar Hafstein] var búinn að boða forsetann til hátíðarinnar með formlegum hætti þegar hann minntist á þetta í framhjáhlauoi í símtali við forsetaskrifstofu þegar hann var að ræða eitthvað um einhverja sendiherra eða guð má vita hvað. Undarlegt verð ég að segja að sé hvað formlegheit geta tekið á sig óformlegar myndir á þessum síðustu og verstu dögum.

En mér er eiginlega spurn. Er þetta bara út af því að Dvíð og Ólafur blandast álíka vel saman og olía og vatn eða fór Davíð í fýlu af því að Ólafur ætlaði bara að vera í útlöndum á þessum tímamótum. Er Ólafur Ragnar kannski bara alveg úti að aka að fara til útlanda á svona tímamótum. Eða er Davíð að makka eitthvað alveg voðalegt? Hvað gerðist eiginlega á þessum dularfulla fundi? - Líklega ekki neitt sem máli skiptir fyrir utan formlegheitin.

En reyndar, þetta var afmæli ríkisstjórnarinnar, forsetaembættið átti ekkert afmæli. Ég bíð núna bara spenntur til ársins 2044 til að sjá hvort forsetinn þá muni nokkuð hafa forsætisráðherrann með, nema sendi honum kannski svona venjulegt formlegt boðskort eða boði hann formlega með framhjáhlaupi í einhverju símtali við einhvern ritara á skrifstofu forsætisráðherra.

Æji, óttalegt bull er þetta.

No comments: