Wednesday, February 11, 2004

Afskaplega er þetta heimskt


Einu sinni var til Fjalaköttur. Hann var elsta bíó í Evrópu heyrði ég einhvern tímann. Hann var rifinn af því að það þurfti að byggja einhverja blokk í staðinn.

Einhvern tíman var lika til Hafnarbíó. Þar sá ég gjarnan Chaplin myndir og fór reglulega í blaðberabíó í boði einhverra kommúnista, krata og framsóknarblaða. Þar eru núna komnar ljótar úthverfablokkir svona svipaðar og eru byggðar í efri byggðum Kópavogs. Kannski samt aðeins þéttar þarna í miðbænum.

Síðan var til Nýja bíó. Það reyndar hafði frumkvæði af því að brenna [eða einhver hjálpaði því, hvað veit ég] og það var rifið því það var svo afskaplega mikilvægt að byggja töff nýtísku verslunarhúsnæði sem enginn virðist geta notað nema til að tapa peningum eða atkvæðum.

Og Stjörnubíó. Þetta er það sem er eftir af því núna. Það lá víst alveg rosalega á að rífa það líklega til að búa til þetta rosalega fína bílastæði.

Núna á að fara að rífa Austurbæjarbíó líka. Það er nefnilega alveg rosalega mikilvægt að byggja fleiri svona úthverfablokkir í miðbænum. Er þetta einhver hemja. Eina bíóið sem er er ennþá í notkun í miðbænum er Regnboginn með sínum löngu lélegu sölum skreyttum súlum á ólíklegustu stöðum og kvikmyndasýningarvélum sem halda ekki fókus.
´
Ef ég ætla í bíó þá liggur við að það kalli á meiriháttar ferðalag út í sveit.

Síðan er verið að myndast við að ákveða að rífa svo til öll timburhús við Laugaveginn til að koma upp almennilegu verslunarhúsnæði. Svona eins og þetta flotta tóma þar sem Nýja bíó var.

Nei mér finnst þetta bara vera svo afskaplega heimskt. Það er unnið að því hörðum höndum að breyta skipulagi miðbæjarins í einhvers konar blokkar úthverfi með íbúðum fyrir efnað fólk sem komið er yfir miðjan aldur og vill hafa húsvörð. Síðan er endalaust verið að röfla um hvað þurfi að gera til að bjarga miðbænum því þangað komi enginn lengur. Þar er nú samt einhvern veginn eini staðurin á Íslandi sem ég veit um sem maður getur treyst því að einhver er. Meira að segja oft einatt svo margir að það er varla hægt að keyra þar um!

Það er eitthvað að þessu öllu saman....... nema það sé eitthvað að mér.

No comments: