Tuesday, July 31, 2012

Leitin að granófírnum

Hafnarfjallshlíðar og Flyðrur

Hafnarfjallshlíðar og eiginlega örugglega Flyðra sem ber við himinn í hlíðinni


Það var fyrr í honum júlímánuði sem ég fór á Hafnarfjall með einsmánaðargönguhópi FÍ að Örvar fór að segja sögur af gabbrói í Hafnarfjalli sem ég held að eigi ekki við mikil rök að styðjast en þar er þess í stað að finna aðra bergtegund, granófír. Hvort tveggja er djúpberg en Gabbró er með efnasamsetningu eins og Basalt en granófír er með efnasamsetningu eins og líparít eða rhýolít, það er að segja súrt berg.

Í millitíðinni var Ragnhildur búin að segja mér að það væri einfalt að komast að þessum granófýr molum undir Flyðrunum og einnig truflaði það mig mikið að það sem átti að vera granófýr úr Snæfellsnesferð í vor og tekið á Skorrholtsmelum, leit ekki út eins og mér virtist að granófír ætti að líta út.

Það var því ákveðið að skoða þetta eitthvað þegar farið væri áleiðis á Snæfellsnes í gönguferð ferðafélagsins Friðriks. Já, Ragnhildur sagði að best væri að stoppa við námu þarna undir fjallinu sem við fundum en þar var allt harðlæst með keðju og við ókum aðeins áfram. Gengum svo upp snarbratta skriðuna og söfnuðum alls kyns grjóti en ekkert var eins og ég vildi hafa Granófýrinn nema kannski var eitthvað ljóst þarna innan um en held að það hafi verið holufyllingadót. Leit í öllu falli ekki út eins og neitt djúpbergsinnskot. Fórum ekki alveg upp að klettabeltinu enda orðnir seinir og þegar Sigþór hringdi og ég sagðist vera við Hafnarfjall þá fannst honum við vera komnir frekar stutt á veg. Veit ekki hvað hann ætlaði að halda þegar ég sagði honum að við værum ekkert undir Hafnarfjallinu, heldur í því!

Fórum því niður aftur en þómeð nokkur kíló af einhverju basalt grjóti. Á heimleiðinni horfðum við betur á þetta. Þar sem við fórum upp voru engin djúpbergsinnskot sýnileg heldur bara hallandi hraunlög. Það sem ber hins vegar við himinn og bent er á með pílunni á myndinni að ofan lítur meira út eins og djúpbergsinnskot og aukin heldur er dreif af ljósum grjóflögum þar fyrir neðan. Það þarf sem sagt að fara þarna einhvern tíman aftur þegar vel liggur á manni.

No comments: