Saturday, February 25, 2012

Grímarsfell með Ferðafélagi Íslands

VMM_5265

Það var aftur gengið á fjall í dag. Fór reyndar á Dýjadalshnúk Esjunnar á þriðjudaginn með HSSR liðum, aðallega nýliðum. En núna var farið á Grímarsfell með Ferðafélaginu hvar ég er að leiðsegja. Skemmtilegt verkefni og til að gleðja mitt geð þá fékk ég nýtt dót frá FÍ, forláta talstöð til að rabba í við hitt fólkið. Er sem sagt orðinn vörslumaður talstöðvar frá Ferðafélaginu.

Ferðin var fín, ennþá fleiri en á Helgafelli síðasta mánuði en alls taldist hópurinn núna vera 138 manns. Dágóður slatti þar á ferð!

Dálítið skondið að þetta er síðan eitt af þeim fjöllum sem ég veit ekki hvað eiga að heita. Ég kalla það yfirleitt Grímarsfell en á kortum stendur ýmist Grímansfell, Grímarsfell, Grimmannsfell, Grímannsfell,

En þar uppi er hins vegar Flatafell, Háihnúkur (eða stórhóll) og Hjálmur (Kollhóll). Er það von að leiðsögumanninum geti vafist tunga um tönn.

Myndír úr ferðinni er með smellingu að neðan:

VMM_5243

Aðeins um jarðfræði Grímarsfells


Stardalseldstöðin og Grímarsfell - jarðfræðikort
Kortið að ofan fæst stórt ef smellt er á það. Er af Jarðfræðikorti Suðvesturlands, gefið út af Ísor 2010.
On the map you can see Grimarsfell, the mountain we were climbing. You can also see the black triangle line on the upper part of the map. That line is marking the edge of the caldera of Stardalur cerntral volcano. One could quite easily imagine the other edge of the caldera be very close to the mt. Grimarsfell. And also the yellow spot in Grimarsfell is Rhyolite rocks and is most likely originated from partial crystallization or melting in the central volcano… but at the moment, just my suggestion.

Í ágætum jarðfræðipistli þeirra bræðra Örvars og Ævars kom fram að Grímarsfell sé tengt Stardalsmegineldstöðinni en miðað við jarðfræðikort Ísor að ofan þá sjást öskjubarmar þeirrar megineldstöðvar við Móskarðahnúka handan Mosfellsdalsins. Miðað við sveigjuna á öskjubarminum þá má ætla að Grímarsfellið hafi verið nálægt öskjubarminum hinum megin.

Í hlíðum fjallsins eru hraunlög, merkt með grænum lit á kortinu og eru þau hraunlög eldri en efsti hluti fjallsins þar sem er móberg. Samkvæmt jarðfræðikortinu er móbergið eldra en 700 þúsund ára sem passar ef miðað er við að Stardalseldstöðin hafi verið virk fyrir 1-2 milljón árum síðan. Grímarsfellið er því í raun sambland af því að vera móbergsfjall og rofinn jarðlagastafli.

Mosfellið sem er yngra er hins vegar móbergsfjall í heild sinni, ólíkt öðrum fjöllum á svæðinu.
Here is some information about the geology of Grimarsfell.
First I must give some explanation in English, what this is all about. Above is an explanation of a hiking tour where I was one of the guides to a small mountain called Grimarsfell, close to Reykjavik. It is a part of a one year long project from The Icelandic travelling club, “Ferðafélag Íslands” were people climb one mountain each month. And now I will give you some geology information about that mountain.

First, the mountain is related to the Stardalur central volcano and the mountain itself is a small volcano. The twins who are among other people guiding with me found somewhere the Stardalur central volcano was active one and two million years ago and from the geology map above one can see the volcanic tuff on the top of the mountain is older than 700ka (ka=thousands of years) that is from before the brunhes (paleomagnetism) epoch. But the lower part of the mountain is made of basaltic lavas but eroded by the ice age glaciers. I do not have exact information about when this area was covered by ice for the first time but Hvalfjordur, the next fjord that is very close was covered by ice more than two million years ago.

So I would say this mountain is a combination of a hyaloclastite mountain and eroded basaltic lava stack.

PS
I’ writing this English both to be informative for people reading the blog but also for practicing my English – so feel free to comment about geology, use of English and everything!

Friday, February 24, 2012

Erfitt að vera fatlaður


Mynd tekin á símann minn, þegar hann fór að virka.

Dálítið undarlegt hvernig á að skilja þetta skilti. Í fyrsta lagi er greinilegt að ekki er gert ráð fyrir að stúdentar geti verið í hjólastól. Það er eitthvað öðruvísi fólk. Síðan er best fyrir stútenda að láta þessar dyr vera því þar er bara kuldi og trekkur sem er best að láta bara eitthvert hjólastóla lið eitt um að þjást í.

Held að þessi orðsendign sé áfellisdómur yfir annars vegar verkfræðingunum sem hönnuðu þessar dyr og hins vegar yfir þeim miður góða hagyrðingi sem orti skilaboðin!

Wednesday, February 22, 2012

Símaraunir

VMM_5198


Fórnarlambið og sökudólgurinn - Samsung og Verbatim minniskort

Ég veit ekki hvenær símaraunir mínar hófust. E.t.v einhvern tíman á að giska árið 2008 eða 2009 þegar ég fékk nýjan síma frá Skýrr og með þeirri ábendingu frá einhverri sem sá um símana að ég ætti ekki að gera ráð fyrir því að þessi sími myndi endast eins og fyrri símar mínir. Núna væru símar almennt orðnir drasl sem entist ekki neitt. Dálítið eins og ískápar sem voru sterkir fyrir áratugum en eru drasl núna í dag.

Síminn sem ég fékk þarna entist enda ekki nema í nokkra mánuði. Var þá hálfpartinn brotinn í tvennt. Fékk nýjan megaflottan Samsung síma, sem ég sumarið 2010 tapaði úti í Evrópu í eðalgóðri hjólaferð. Það var svo sem ekki símanum að kenna þar sem ég tapaði líka veski með einhverjum smáurum og eins vegabréfinu mínu.

Svo þegar ég kom til baka var ég útbúinn með nýjan síma, fyrst einhverjum Nokia sem ég nennti ekki að nota og síðan Blackberry eitthvað. Var þá orðinn alveg megakúl töffari með sólid uppasíma sem hæfði stöðunni!

Einhverjum mánuðum seinna, fyrir síðan svona ári síðan þegar ég var ekki lengur einn af stjórnendum stærsta upplýsingatæknifyrirtækis landsins heldur bara aumur háskókalanemi þá gafst þessi Blackberry sími upp á þessum heimi vegna smávægilegrar bleytu í gönguferð með FÍ.

Eftir miklar vangaveltur varð fyrir valinu vatnsheldur Samsung sími. Fyrsti GSM síminn sem ég eignaðist sjálfur frá árinu 1995 held ég og bara í annað sinn sem ég verslaði mér síma fyrir minn eigin pening. Var þetta litla ánægður með símann þannig að jafnvel annað fólk keypti sams konar síma fyrir mín orð. En tvennt fór að trufla mig. Ég setti eitthvert minniskort í símann sem virkaði aldrei þar sem síminn virtist aldrei fatta að hann væri með minniskort og svo fannst mér rafhlöðuendingin vera alveg út í hött.

Þetta varð eiginlega þannig að símafjandinn entist ekki neitt og var í hleðslu hverja nótt eða hér um bil það. Jafnvel þó ég talaði ekkert í hann. Var meira og minna sambandslaus ef ég brá mér af bæ sem var einkar óþægilegt þar sem ég á það dálítið til að bregða mér af bæ. Þetta endaði svo með því að sakir stöðugra hleðslurauna var tengið þar sem síminn átti að fá rafmagn farið að gefa sig og virkaði ekki alltaf, sem var frekar vont því síminn var meira og minna alltaf í hleðslu.

Fyrir flugeldasölu síðustu áramóta ákvað ég að fá mér nýjan síma þannig að ég gæti verið í einhverju sambandi. Jæja, nýi síminn virkaði eitthvað skár fannst mér. Prófaði síðan að setja minniskortið fína í símann og það var á sömu bókina lært. Nýi síminn, af Sony-Ericson gerð virtist éta upp rafhlöðuna á einhverjum áður óþekktum mettíma.

Þetta var ekkert eðlilegt því það átti að vera hægt að tala í símann stanslaust í 7-8 klst ef ég man rétt og það var nokkurn veginn það sem síminn entist með því að tala ekki neitt í hann! Ég var augljóslega búinn að afgreiða hann sem ónýtt drasl. Dálítið dapurt að ef maður tekur símann úr hleðlsu fyrur hádegi þá sé hann búinn að vera fyrir kvöldmat!

Var búinn að draga fram gamla brotna símann sem ég lumaði ennþá á frá því símar voru ekki orðnir drasl. Rafhlaðan þar entist í nokkra daga þrátt fyrir að vera frá árinu 2005 og mikið notuð. Ég hafði farið með Samsung skrapatólið í búðina en ekki fengið neina aðstoð aðra en að einhver auli þar þóttist stilla eitthvað sem virkaði ekki neitt.

Ég var alltaf á leiðinni með hann í Elkó en hafði ekki farið enn þegar undrin fóru að gerast í gærkvöldi. Mér tókst að hlaða Samsung símann og ákvað að nota hann núna næstu klukkutímana þá þar sem Sony-Ericson síminn var alveg rafmagnslaus í augnablikinu og mig vantaði síma til að geta talað við einhvern. Gerði ráð fyrir að þurfa að hlaða Samsung aumingjann aftur um kvöldið. En viti menn, Samsunginn hélt áfram að vera fullhlaðinn fram á kvöld, og alla nótt og er líklegast enn fullhlaðinn, þó það sé búið að tala í hann, senda tölvupóst og brávsa net.

Og dinnnng hvað gat verið málið? Ég hafði alltaf haft grun um að það væri símakortið mitt sem væri að valda vandanum þannig að ég var búinn fyrir langalöngu að fá mér nýtt símakort frá öðru fyrirtæki sem virtist ekki skipta neinu máli en núna var eitt öðru vísi við Samsung símann en áður. Hann var ekki með neitt auka minniskort sem virkaði ekki.

Já og til að gera langa sögu stutta þá er ég núna með tvo síma með alveg þokkalega rafhlöðuendingu en á ónýtt minniskort sem virðist ekki gera neitt annað en að éta rafmagn í massavís.

Eftir stendur tvennt. Ég er auli og þeir í Samsungsetrinu sem seldu mér þetta minniskort með Samsung símanum eru ekki starfi sínu vaxnir og í þá veiðistöð mun ég aldreigi stíga fæti mínum framar.


Síaðn þá til viðbótar má geta að Sony-Ericson síminn virtist ekki skilja internetið alennilega eða átta sig á því hvert hann ætti að sækja upplýsinar um tengingar sem Samsung síminn gerir. Það gæti því verið að ég yrði eitthvað iðnari við að nota svona netmöguleika þessara síma minna í framtíðinni.

En fúlast fyrir utan að hafa þurft að kaupa þennan Sony síma er að Samsung síminn virðist ekki vilja hlaðast lengur, tengið eitthvað orðið sambandslaust, enda er ég búinn að eiga símann í um eitt ár og á þeim tíma hefur hann e.t.v. verið hlaðinn svona 300 sinnum!

Monday, February 20, 2012

Bolludagur

VMM_5152
Rjómabollur eru góðar

Það er víst komið fram yfir miðnætti, þrjár mínútur eða svo og þá er kominn bolludagur. Þrátt fyrir alla vísindahyggju þá finnst mér nú samt ekki koma neinn morgundagur fyrr en ég druslast á fætur einvhern tíman í fyrramálið. En í dag, sunnudag semsagt var bolluát. Mamman manns bauð til bolluáts til Ragnhildar sem var svo ekki heima þegar ég kom kom þangað. Frekjaðista að leggja Ventónum í þeirra eðla bílastæði, sem var auðvitað óttaleg frekja en það er ekkert af bílastæðum í Kópavoginum þarna.

Það var ágætt að borða bollur og allir urðu að lokum kátir en ein ekki fyrr en eftir að hafa fengið bollu með súkkulaði og sultu en alls engum rjóma. Sú yngsta vildi hins vegar rjómann með. Ég át þetta síðan allt saman!

VMM_5174
Með sultu á!

Sunday, February 19, 2012

Stóri-Dagur HSSR

VMM_5007

Séð yfir krókódílavatnið en þarna yfir þurftu þátttakendur að koma gínu á sjúkrabörum með línubrú.

Það er víst alltaf eitthvað að gerast. Í gær var Stór-Dagur HSSR - sá fyrsti hugsanlega í röð margra slíkra árlegra daga. Reyndar núna í tilefni 80 ára afmælis hjálparsveitarinnar en þá bara á næsta ári í tilefni 81 árs afmælis sveitarinnar. Hún á jú afmæli á hverju ári. Og hugsanlega verður hefð að það verði seinna árs nýliðar sem sjá um þennan atburð. Núna kom ég því í öllu falli til leiðar að það voru mínir annars árs nýliðar sem sáu um þetta og gerðu það af miklum myndarskap eins og reyndar var búist við. Held ég sé dálítið montinn af nýliðuinum mínum. Þó efniviðurinn fyrirfram segi kannski hvað mest þá í öllu falli þá sýnist mér að okkur Ásgeiri hafi ekki tekiðst að klúðra þessum ágæta efniviði.

VMM_4963

Einn hópurinn tekur á því, í böruburði

Friday, February 10, 2012

Að hafa helst til of mikið að gera

Þessi vika sem er að klárast er annars búin að vera hin uppteknasta. Ekki endilega viðburðaríkasta en hins vegar hef ég haft helst til of mikið að gera. Við bættist svo að tvö fyrirtæki vilja fá mig í einhverja vinnu fyrir utan það sem var áður komið. Annað fyrirtækið vill mikla vinnu í stuttan tímka en hitt fyrirtækið vill litla vinnu í langan tíma. Þetta endaði svo með þeim ósköpum að ég ákvað að slaufa einu faginu. Það varð Eldfjallafræðin hennar Gro sem mundi merkilegt nokk eftir mér úr JÖRFÍ ferð þar sem ég mætti í Jökulheimapartýið en ekkert meir. Ekki mundi ég nú eftir henni. Það fag gengur annars vel eins og blómstrið eina. Ég var ekki alveg að finna mig í almennri jarðeðlisfræði en held ég sé búinn að finna mína spýtu þar og Bergfræðin og ég erum helst til of close! Það er kannski helst í rofi og seti sem eitthvað er ekki að virka. Fékk skítlágt á einhverju asnalegu prófi en reyndr fengu allir aðrir sem ég hef hitt líka lágt og lægra en ég þannig að kannski er ég ekkert að klúðra þessu neitt meira en aðrir. Er svo í hópverkefni og varð pínulitið úti á þekju en það var líklegast mest því ég hafði ekki þann tíma sem ég hefði átt að hafa í verkefnið. Er ekki alveg nógu viss um gæði vinnunnar hjá okkur en verður vonandi samt í einhverju lagi.

En fúlt að þurfa að hætta í skemmtilegum kúrs. Þarf e.t.v. að hætta líka í rof- og set kúrsnum. En sjáum til.

Að vera frekar óduglegur að blogga

Það hafði nú staðið til að bretta upp bloggermar en eitthvað virðist vera djúpt á þeim ermum. Ætla samt svona í hálfgerðri afslöppun með rauðvínsglas á föstudagskvöldi að blogga smá. Kannski eins og mig minnir að seinasta blogg Helenu hafi verið... lúðar á laugardegi þegar hún bloggaði eitthvað bara svona á laugardagskvöldi. En ég er og verð lúði, hvort sem það er föstudagur eða laugardagur. Jæja, þetta skilur enginn og skiptir ekki máli en svona frá því síðast eitthvað var bloggað...

Fjallamennskunámskeið HSSR


IMG_5592
Nýliðarnir að æfa broddagöngu í góðri brekku

Ég fór sumsé helgina 14. til 15. janúar með undraförunum sem aukaleiðbeinandi að kenna nýjustu nýliðunum eitthvað gagnlegt í fjallamennsku. Þetta var annars óttalegt slark að hluta þar sem rigndi eldi og brennisteini (líklega í orðsins fyllstu merkingu þar sem þetta var í Henglinum hvar brennisteinsgufur læðast um) eins og sést á a.m.k. annarri myndinni að neðan. En annars bara fín ferð þó hún hafi nú gengið þannig að ein stelpa úr hópnum sem ég var í gafst bara upp og fór heim eftur fyrri daginn. Samt bara ágætt að þeir sem sjá sig ekki passa inn í þetta átti sig á því sem fyrst og séu þá ekki að eyða sínum tíma eða annarra í þjálfun sem þá skilar ekki neinu þegar upp er staðið.

IMG_5561 IMG_5559

Ásinn kominn í taum í ausandi slagviðri og allt að gerast. Danni svo ekkert of ósáttur með þetta allt á seinni myndinni!



Fleiri myndir úr þessu fjallamennskunámskeiði eru á FLickr í sér setti.
    IMG_5610


Fellsmörk 20. til 22. janúar


VMM_4720

Það var farið til fellsmerkur eina helgina. Raunar afmælishelgi mömmunar þegar hún varð heilla 75 ára. Hún hélt nú samt ekki upp á afmælið fyrr en á sunnideginum og náði maður að komast í sturtu heima hjá sér áður en í afmælið var komið. En af Fellsmerkuferðinni fyrst.

Ég verð eiginlega að játa að Fellsmörk er einhver mesta snilld sem hefur hent mig í lífinu. Svona eiginlega af því sem ég hef frá mínu lífi er Fellsmörk það sem ég myndi hvað síst vilja vera án. En við bræður ókum þangað austur á Gunnans eðalfína bíl. Ekki mikið hægt að púkka upp á mín bílamál þar sem Ventó er ekki það merkilegur snjóbíll og svo er hann aukin heldur með bilaðar bremsur og ekki til neinna stórræða veslingurinn.

VMM_4619-stjornumerkingar

Stjörnumerkin yfir Fellsmörkinni: Síríus í litla hundi, Oríon og Nautið líka



Það var komið grenjandi myrkur þegar við komum austur en ekki nein grenjandi rigning heldur bara vel stjörnubjart og á myndinni að ofan sjást nafntoguð stjörnumerki. Þarna má sjá Síríus lágt á himni og svo Oríon. Það er þarna stjörnumerki sem ég þekki ekki alveg sem er Héramerkið held ég. Líklega á þetta að vera þannig að Óríon er þarna með bogann sinn og sverðið á veiðum, veiðir héraskinnið og er með hundana sína með sér. Jájá... frekar mikill viðbúnaður fyrir einn lítinn héra. En ég held að hann hafi ekkert verið að skipta sér af nautinu sem er þarna og ég sá í fyrsa sinni þetta kvöld. Lærði sem sagt að þekkja eitt nýtt stjörnumerki. Ekki svo lítil viðbót þar hjá manni!

Á laugardegi var rumskað eitthvað um sólarupprás. Birtan var auðvitað eitt æfintýri og teknar myndir til gleðiauka.

VMM_4744 VMM_4693

Skógurinn og kofinn hans Albrects í bleikri morgunbirtunni áður en sólin kom upp



Það var eitt æfintýri að ganga um skóginn í bleikri morgunbirtunni. Sólin var farin að lýsa upp skýin einhvers staðar og þau vörpuðu bleikri birtu til baka og ég hélt að ég væri að horfa á kraftlyftingamótið [þetta með kraflyftingamótið skilur held ég enginn nema ég og hann brójinn minn sem var þarna með mér] en þá allt í einu kom sólin upp og það þurfti að taka alveg nýjar myndir því það breytti allt um ham, allir litir sprungu út í blátt og gult á hinn dularfyllsta máta!

VMM_4738 VMM_4732

Hin dularfullu dýraspor


VMM_4749

Refaspor í snjónum liggja til fjalla



Í Fellsmörk er maður aldrei alveg einn - það er alltaf eitthvað með manni. Og ekki hafa áhyggjur því það er yfirleitt líka þessa heims en dýraættar. Þennan dag sáum við spor í snjónum hvað víðast. Áberandi refaspor sem okkur bræðrum finnst við ekki hafa séð svo oft áður voru í skóginum hér og þar. Lágu meðal annars upp allt alla landspilduna okkar og sjást á myndinni að ofan. Við sáum líka greinileg refaspór í snjónum fyrir áramót en í okkar minni er ekki mikið af refasporum í Fellsmörk áður fyrr. Það kann þó frekar að stafa af því að við höfum ekki verið í jafn miklu vetrarríkí í Fellsmörk áður. Ef lítill er snjórinn þá má líklegast búast við að refurinn sé ekkert sérstaklega að þræða snjóskaflana.

VMM_4723 VMM_4727

Spor eftir rjúpu í snjónum


Það voru dálítið fyndin spor eftir rjúpuna vildum við meina. Á myndunum að ofan er fyrri myndin þá af lendingarstað rjúpunnar og sést hvernig hún hefur runnið inn í snjóinn og svo steitt stömpum (eða segir maður ekki þannig?). Á seinni myndinni í bara einhverra metra fjarlægð er hinn endi sporanna ef ég man þetta rétt og þar vildum við meina að rjúpan hefði hafið sig aftur til lofts.

Í gönguskíðaferðinni sáum við svo nokkuð merkileg ummerki um salernisferðir rjúpunnar. Erum ekki vissir um hvort það var ein rjúpa sem var þar að verki eða margar en á nokkrum stöðum sáum við spor eftir rjúpu, holur svona 10-15cm í þvermál og á botninum á hverri holu var skítur sem við vildum meina að væri frá rjúpum. Reyndar héldum við fyrst að þetta væri refaskítur hugsanlega þar sem refaspor voru þarna i kring og að refurinn hefði étið rjúpurnar en eftir meiri umhugsun þá kom þetta betur heim og saman miðað við að rjúpurnar hefðu komið fyrst og svo hefði rebbi runnið á lyktina og komið seinna en gripið í tómt!

Svo sáum við að öllum kíkindum músaspor. Lítil spor, eftir tvo litla fætur hlið við hlið og svo eftir tvo aðra fætur fyrir framan í línu ská fram á við. Í Heiðmörk nokkrum dögum seinna sáum við mjög lík spor eftir kanínur en hins vegar svona 10 sinnumn stærri. En nóg um það því við fórum á skíði!

Skíðaferðin


VMM_4798

Það er alltaf jafn gaman að fara á skíði í henni Fellsmörk. Yfirleit höfum við farið upp á Heiði en núna gengum við nýja fína varnargarðinn og fórum yfir á vestursvæði Fellsmerkur. Vorum að gæla við þá hugmynd að komast upp úr Fellsmörkinni þar og fara norður fyrir Fellið og koma þannig niður aftur. Það varð þó ekkert úr því. Leiðin þar upp frekar torsótt og einnig hefði verið verulegt maus að komast niður aftur austan Fellsins. Líklega bara lán í óláni að við komumst ekki þar upp. Það var síðan í raun ekki nægur snjór til að fara hvar sem er og öxlin á Gunnanum var eitthvað í lamasessi líka!

skidatur - Fellsmörk 21.01.2012

Skíðaleiðin


Leiðin sem við gengum sést á kortinu að ofan. Punktar sem liggja upp á Fellsheiðina er leiðin sem væri vel hægt að fara með skíði í farteskinu og sést á myndinni miðri.

VMM_4819

Í Botnum ofan austursvæðis Fellsmerkur. Hugsanleg fær leið upp úr Fellsmörk þarna á skíðum hefði verið vinstra megin við klettana efst í fjallinu.


Um kvöldið var nokkuð hefðbundið að grilla en það bar kannski til tíðinda að einungis voru grillaðir hestar. Og hesturinn sem ég grillaði var af sérstakri snitsel gerð. Veit ekki gjörla hversu algengt er að slíkir hestar séu grillaðir. Það var síðan eins gott að grillið var merkt með einhverju priki því snjódýptinyfir því var á annan metra!

Annað sem kannski hvað helst bar til tíðinda að Eirasinn ákvað að sofa úti. Var með bívak með sér og bjó sér flet undir stjörnuhimninum með refum, rjúpum og músum. Varð ekki var við neitt kvikt um nóttina en heldur þótti honumkalt. Var einkar kalt á tánum. Þrátt fyrir að hafa haft bívakinn vel opinn með hausgatinu þá varð svefnpokinn allur hálf rakur og rúmlega það. Til fóta kom þetta illa út eins og kom í ljós þegar hann skreiddist inn í kofann undir morgun. En það var sum sé markmið að sofa í bívaknum um nóttina og ná að klára nótt í bívak þannig að maður gæti nú sagst hafa bívakað eitthvað. Eftir svona slitróttan svefn þá ákvað ég að um klukkan átta um morgun væri nóg komið. Var mál að losa blöðruna og þurfti hvort sem er að standa upp. Fór svo bara inn í kofa þar sem ég svaf eins og grjót heila 2 klst í viðbót. Alltaf ljúft að sofa í Músahúsinu. En af tánum og svefnpokanum til fóta var það að frétta að ofan á svefnpokanum fótatil var hann ekki bara rakur eða blautur heldur var hann frosinn. Það var sum sé klakabrynja utan á svefnpokanum innan í bívaknum. Annars staðar í bívaknum voru ískristallar á víð og dreif. Hvort ég gerði mistök með að sofa í svefnpokanum meira og minna alklæddur veit ég ekki alveg, þarf að prófa að hátta mig eitthvað næst. Eins er held ég ljóst að miðað við veðrið sem var, heiðskírt, logn en dálítið kalt að þá hefði kannski verið sniðugast að vera ekkert ofan í bívaknum heldur hafa hann bara undir mér. En þetta verður væntanlega prófað einhvern tíman aftur.

VMM_4870

Frosnir graðhvannarnjólar Fellsmerkurinnar og Búrfell í baksýn.




Eitt fjall hjá Ferðafélagi Íslands



IMG_5639

Já og svo hófst aftur eitt fjall á mánuði hjá Ferðafélaginu. Ég hafði eiginlega gert ráð fyrir að þetta yrðu eitthvað færri núna en í fyrra og jafnvel þannig að það væri ekkert þörf fyrir mig að gæda þarna lengur. En það varð ekki raunin. Það yfirfylltist allt og þegar 160 manns voru skráðir var hætt að taka við skráningum. Það voru um 130 manns sem fóru í þessa fyrstu ferð ársins sem var á Helgafell. Verður mikið gaman að fara í allar þessar ferðir á árinu!

Skemmtilegt verkefni!