Þegar gamall hundur geltir gefur hann ráð...
Þá komu páskar eftir allt með viðeigandi óveðri. Þar sem maður á víst að vera að lesa fyrir próf þá er þetta eiginlega hið ákjósanlegasta veður. Hvorki fjallgönguferð HSSR var blásin af áður en hún hófst og jeppaferðin sneri við líklegast áður en hún var komin í Landmannalaugar.
Byrjaði páskadaginn auðvitað á því að ráðast á páskaeggið og eiginlega aðallega til að komast í málsháttinn. Málshátturinn var á einhverjum asnalegum skafmiða sem maður þarf að komast á einhverja asnalega vefsíðu til að fá að vita hvort maður vann eitthvað. Ég auðvitað svo rosalega spenntur að fá að vita um vinninginn að ég fékk að komast að því að vefsíða Freyjunammis var farin í klessu út af allt of miklu álagi. Veit ekki enn hvort ég vann eitthvað annað en málshátt og hundvont páskaegg. Málsháttur þessarra páska hjá mér er: Þegar gamall hundur geltir gefur hann ráð.
Ég veit ekki hvort óhljóðin frá honum Gelti hér á neðri hæðinni eru að verða eitthvað ráðlegri með því að hann eldist en dreg það all verulega í efa. En hvað er málið með páskaegg. Ég valdi núna egg úr dökku súkkulaði af því ég hélt að það væri eitthvað skárra en drottinn minn. Þetta ömurlegheitasúkkulaði kaupir varla nokkur nema í formi páskaeggs og þá bara til að fá páskaeggið með málshættinum. Ég er eiginlega farinn að gæla við hugmyndina um að henda leyfunum af því í ruslið barasta... ojbarasta!
Ég valdi annars egg frá Freyju því auglýsingarnar frá Nóa Síríusi voru svo yfirgengilega leiðinlegar með Arnari Jónssyni að röfla um að gaman væri að sjá alla vinna svona saman og væla svo um að láta bíða eftir sér.
Held ég fari að markaðssetja málshætti án páskaeggja fyrir næstu páska.
No comments:
Post a Comment