Tuesday, April 19, 2011

Þriggja þátta einfaldleiki Jim Collins og Jöklunarsaga Íslands

Þetta er dálítið langt og dálítið persónulegt blogg!


Í gær og í dag og á morgun hef ég:

  • Verið í prófi
  • Klárað ritgerð
  • Farið yfir próf
  • Kannski lesið aðeins fyrir próf
  • Farið aðeins út að hjóla
  • Og bloggað meira en dæmi eru um í langan tíma
Prófið sem ég er að taka er ekki alveg farið í vaskinn en það er svona við það að fara í vaskinn nokkuð reglubundið.  Hef heila þrjá daga til að klára það og ætti ekki að vera erfitt þegar ég er með eitt dæmi til að klára á hverjum degi.  Það eru sem sagt þrjú dæmi eða verkefni á prófinu.  Reyndar má ég velja þrjú af fimm þannig að þetta getur varla verið auðveldara... eða hvað.

Nemendurinr mínir sem ég fer bráðum að skulda einkunnir fengu meðal annars það verkefni að lýsa þriggja þátta einfaldleika Jim Collins.  Jim Collins stýrði hópi stjórnunarsérfræðinga fyrir nokkrum árum sem skoðuðu fyrirtæki sem þóttu þá skara framúr.  Eitt af því sem þau komust að, að einkenndi framúrskarandi fyrirtæki var að þau höfðu öll ákveðið að einbeita sér að einhverju sem var sniðmengi þriggja hringja.  Það var eitthvað sem þau höfðu áttað sig á að þau gætu verið best í, eitthvað sem þau höfðu brennandi áhuga á að gera og eitthvað sem jafnframt gaf þeim jafnar og góðar tekjur.  Þetta var eitt af því sem nemendurnir mínur í Endurmenntun áttu að lýsa.  Þeim gekk það flestum bara ágætlega en svo fór ég allt í einu að heimfæra þetta upp á sjálfan mig og manns eigið líf.

Fyrir tæpum 20 árum lauk ég prófi í verfræði frá HÍ.  Af hverju í ósköpunum fór ég í verkfræði?  Það er til fólk sem er svo visst um að ég hafi farið að læra ljósmyndun að þegar það sá mig sem verkfræðing þá ákvað það að ég hlyti að vera einver allt annar maður!

Fyrir næstum heilum aldarfjórðungi þegar ég var að ákveða hvað ég ætlaði að gera var margt sem togaðist á.  Eitt var að læra ljósmyndun og annað var að læra eitthvað raungreinalegt og eitthvað verkfræðilegt.  Stærðfræði og eðelisfræði fram að því var eitthvað sem maður hafði rúllað upp þannig að það kom vel til greina.  Vissulega var maður að taka myndir og fannst fátt skemmtilegra en það voru jú margir aðrir að því líka og hvernig í ósköpunum átti maður að fara að því að fá vinnu við ljósmyndun.  Ljósmyndadeildin á Mogganum var eiginlega það eina sem virtist vera eitthvað vit í en húin var þéttskipuð.  Svo var Páll Stefánsson þarna einhvers staðar en þar sem hann var, var varla pláss fyrir fleiri. Það varð því einhvern veginn þannig að verkfræðin varð ofaná.

Og það sem er dálítið merkilegt er að ákvörðunin mín var tekin að mestu leyti í samræmi við stjórnunarkenningarnar hans Collins sem hann hafði þá ekki einu sinni komið fram með!  Verkfræði var eitthvað sem ég var nokkuð viss um að ég gæti orðið mjög góður í og alveg gefið að mínu mati að verkfræðin myndi gefa vel í aðra hönd.  Og jú... þetta var eitthvað sem mig langaði til að gera.  Reyndar var kannski hluti af ákvörðuninni til á Kröflusvæðinu þegar ég heillaðist af hávaðanum og látunum í hljóðdeyfunum yfir borholunum þar.  Fyrir þá sem ekki vita þá eru hljóðdeyfar stóru hólkarnir sem eru settir yfir borholur og gefa frá sér miklar drunur en eru hins vegar ekki til að auka á fyrirganginn heldur til að draga úr hávaðanum.

Síðan þróaðist námið þannig að ég hef aldrei unnið við að hanna jarðvarmavirkjanir og ég stóð mig ekkert rosalega vel í náminu en átti þó mína spretti.  Eftir að náminu lauk fann ég samt spýtu fyrir mig sem var gæðastjórnun.  Og út frá þriggja þátta einfaldleikanum þá var það eitthvað sem ég varð í raun mjög góður í held ég örugglega og eitthvað sem ég hafði mikinn áhuga á og fannst mjög skemmtilegt.  Gaf svo sem ekkert rosalega mikið í launaumslagið en þó líklega allt í lagi.  Svo þróaðist þetta eins og allt annað og þegar upp var staðið fyrir um hálfu ári síðan þá var þetta að gefa sæmilega vel af sér, áhuginn var mikið til horfinn og ég er ekki viss um að ég hafi verið neitt svo rosalega góður í þessu á þeim tíma.

Núna hins vegar er ég í frekar undarlegri stöðu.  Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi... les atvinnulaus.  En ég er líka í námi í Háskóla Íslands.  Er skráður í viðskiptafræði en tek engin fög þar.  Sótti loksins um á elleftu stundu um það sem ég ætlaði mér að fara að læra - eða reyndi að telja sjálfum mér trú um að ég ætlaði að fara að læra -  þ.e. umhverfis- og  auðlindafræði.

Kúrsarnir sem ég er að taka eru annars vegar raungreina- og þá aðallega jarðfræðikúrsar og svo einn svona alvöru umhverfis- og auðlindafræðiúrs.  Og það er sá kúrs sem ég er að taka prófið í sem gengur ekkert of vel og ég er greinlega ekkert að sinna - myndi annars ekki vera að blogga þessa langloku.  Ritgerðin sem ég var að klára var hins vegar í einum af jarðfræðikúrsunum.  Það var ritgerð um jöklunarsögu Íslands og þaðan kemur jú seinni hluti titils bloggfærslunnar.  Þar lagði ég allan minn metnað í að gera eins vel og ég lífisins mögulega gat.  Ekki af því að það væri svo mikilvægt heldur eiginlega bara út af því að mig langaði svo mikið til þess.  Á sama tíma og ég er að gera bara eitthvað í þessu umhverfis- og auðlindaprófi svona til að ég nái því þá er ég að fá 10 í einkunn á einverjum skyndiprófum í jarðfræði.  Ég er ekkert of viss um að margir hafi fengið 10 á þessum fjölkrossaprófum hans Hreggviðs í jarðfræði 2.

En það er þetta með hringina sem er enn að valda mér öllum þessum vandræðum.  Ef ég tek jarðfræði þá er hún eitthvað sem ég hef brennandi áhuga á og mér sýnist að ég geti orðið mjög góður í en ég sé ekki að jarðfræði geti gefið mér salt í grautinn.  Umhverfis- og auðlinda hélt ég að ég myndi verða góður í og hafa áhuga á en hvort tveggja hefur brugðist að einherju leyti.  En það getur jú kannski saltað grautinn eitthvað meira en hingað til en þó varla að neinu ráði.

Þessir þrír hringir þurfa að ná að skoppa einhvern veginn saman en kannski hitti einn fyrirlesarinn sem kom í vetur naglann á höfuðið með að segja að ef maður bara passar sig á því að gera það sem manni finnst skemmtilegt þá er maður í góðum málum.  Þá ætti maður að hafa áhugann og ef getan er einhver þá ætti maður að verða góður í því og ef maður er verulega góður í einhverju þá saltar það grautinn alltaf þannig að hann verður að minnsta kosti ætur.

Ég veit svei mér ekki... en fyrir þá sem vilja skoða ritgerðina mína sem ég er frekar ánægður með þá er hún hér á vef Háskóla Íslands.

Grímsfjall
Grímsfjall í Vatnajökli - úr vorferð JÖRFÍ árið 2008

2 comments:

Herdis said...

Jarðfræðingar, salt í grautinn. Á sínum tíma skráði ég mig í nám í mannfræði með jarðfræði sem aukafag, þar sem mig langaði að verða fornleifafræðingur. Inngangskúrsarnir í jarðfræðinni voru svo fáránlega skemmtilegir að ég svissaði, þrátt fyrir að heyra kórinn um að jarðfræðingar gætu engan veginn fengið vinnu við hæfi. 14 árum síðar er ég enn að og fæ bara ágætis salt í grautinn. Miðað við, a.m.k., að mér finnst vinnan mín hrikalega skemmtileg :)

Take home message: Ef þig langar í jarðfræði, drífðu þig þá í jarðfræði!

ers said...

Jám.
Ég sé til hvað ég geri.
Er núna að reyna að læra eitthvað fyrir prófið í jarðfræði 2...

Þetta verður allt einhvern veginn hjá manni