Tuesday, April 23, 2013
Að klúðra fyrirlestri
Þetta var eignlega alveg grá-andskoti bölvað. Það er langt síðan ég var síðast búinn að undirbúa mig svona mikið, skrifaði meira að segja nótur inn í ppt skjalið og var alveg búinn að setja niður fyrir mér hvað ég ætlaði að segja. Svo stóð ég eins og auli þarna eða það fannst mér í öllu falli og gat eiginlega ekki sagt neitt af því sem ég hafði ætlað mér að segja frá. Gleymdi öllu og held að ég hafi virkað eiginlega algjörlega eins og auli. Eiginlega það eina sem ég gerði svona næstum því skammlaust var að lesa glærurnar.
Fyrirlesturinn er annars hér. Það var einnig búinn til vefur um þetta og minn hluti er hér.
Á fjöllum með nýliðum HSSR í jómfrúarferð
Séð yfir hólinn þar sem föndurhofnið og fólkið sem fékk að vera með þeim var að stjórna sigi og línugöngu
Það var farið á fjöll og ekki í fyrsta skipti. Núna var skipulögð jómfrúarferð nýliða 1 í HSSR. Ferðin gekk að mörgum leiti rosalega vel og mikið gengið í djúpum snjó. Ég var lausríðandi um svæðið á meðan leiðbeinendur vor með fasta pósta til að sjá um og svo voru nýliðarnir að ganga þar á milli. Snjórinn kom mér ofboðslega á óvart. Tinni og Magnús Hlinur höfðu farið könnunarleiðangur helgina áður og þá var enginn samfelldur snjór á svæðinu. Núna var hann hins vegar að lágmarki í hné og sums staðar sökk ég upp að mitti. Held ég hafi nær aldrei gengið jafn mikið í jafn erfiðri færð... nema kannski á Fimmvörðhálsi í froststillu snemma árs 2005.Alls konar púsl fór þess vegna af stað til að stytta leiðirnar og tókst það þannig séð ágætlega og allir fóri í alla pósta sem höfðu verið settir upp.
Svo var skemmtilegur metnaðurinn hjá sumum þarna að það var stanslaust veisluborð i föndurhorninu. Þegar ég kom þangað fyrst var mér boðið upp á jarðarber - eða kannski frekar að ég stalst í þau hjá þeim þar sem þau áttu víst að vera partur af eftirrétinum. Svo þegar ég kom til þeirra seinna sinnið þá var boðið upp á pulsur með sinnepi og ég fékk meira að segja rjóma með! Takk fyrir mig strákar ef þið villist inná að lesa bloggið mitt einhvern tíman.
Það sem mér er samt kannski eftirminnilegast er snjóflóðaatvkið. Við voum eitthvað frekar kærulaus og höfðum æfingar í ísaxarbremsu í brattri brekku með snjó og í slíkum brekkum er oftar en ekki einhver hætta á snjóflóðum, sérstaklega ef það hefur verið að snjóa. Eftir að hafa verið í brattri brekkunni góða stund kvað við brestur og við fundum hvernig flekinn sem við vorum á haggaðist. Hann fór nú samt ekki lengra en svo a það var ekki neinn sæens að sjá hvar hann hafði hreyfst, engin misfella sást eftir á. Mér finnst líklegast reyndar að eitthvað millilag hafi gefið sig og flekinn hafi farið lóðrétt niður á það en samt erfitt að segja. En við vorum frekar fljót að koma okkur á öruggara svæði. En núna veit ég hvað gerist á fyrstu sekúndunni sem líklega flekaflóð fer af stað.
Svæðið þar sem snjóflóðabresturinn hafði átt sér stað. Við höfðum verið þar sem mestu förin eru. Áður hafði einn nýliðahópurinn þverað alla hlíðina.
En núna á ég víst að vera að undirbúa fyrirlestur um árstíðabundanar jarðskorpuhreyfingar þannig að það er best að hætta þessu skrifelsi og snúa sér að öðru.
Sunday, April 14, 2013
Hér um bil próflestur með ólíkindum
Það er með ólíkindum hvað maður getur farið að gera þegar maður á að vera að gera eitthvað allt annað. Núna þessa helgina þá hef ég þurft að vinna og eiginlega klára tvö skólaverkefni. Eitt kortagerðarverkefni sem á víst að gilda helming af einkunninni í námskeiðinu og á því er ég eiginlega ekki byrjaður. Hef morgundaginn. Hitt verkefnið er að fjalla af einhverri vitrænu um hvernig jörðin beyglast upp og niður eftir því hvort þða er snjór á henni eða ekki. Eiginlega bara heilmikið áhugavert en einhvern veginn þannig að ég hef ekki almennilega haft mig í þetta verkefni. Er reyndar ekkert alveg það einfaldasta öll líkön sem eru notuð til að reikna þessar hreyfingar á henni jarðskorpu. Svo ef ég hefði ekki verið að gera þetta þá hefði ég farið á fjöll í dag, verið á árshátíð Skipta-Staka-Símans í gærkvöldi (sem ég bara skrópaði á) og verið að leita að týndri konu allan þann tíma sem eftir var. En nei, ég er búinn að vera að þykjast gera þessi verkefni. Er reyndar búinn að gera eitthvað með jarðskorpuhreyfingarnar en þess utan þá er ég búinn að hengja upp myndir, koma aftur upp Íslandskorti í 1:300 þúsund kvarða upp á vegg, saga niður brotin tré úti í garði og fór svo bara að teikna myndir og eins og kemur fram á myndinni að ofan ef vel er að gáð þá er líka eitthvað komið á prjónana!
En köttur úti í mýri, setti upp á sér stýri, úti er æfintýri. Á morgun mun ég hitta MTG og þarf að ákveða eitthvað hvernig ég ætla að hafa þetta!
Monday, April 08, 2013
Fellsmörk, tvær helgar í röð
Snilldin eina... það var kalt og þá er bara að setja arininn upp á borð til að hlýja sér!
Kemur reyndar ekkert til af góðu því síðast þá gleymdist þar linsuhlunkur sem kostar parhundruð þúsund og ekki gott að hafa slíkt í kofa einhver staðar úti í sveit. Svo myndi ég væntanlega líka vilja nota linsuna eitthvað. Annars helst það í frásögur færandi úr Fellsmerkurbúskap oss að kamargeymslukofinn er núna kominn með bárujárnsþak og þar er búið að tjóðra fyrir einnig Nikulásarhurð eina úr krossviði - ódrepandi með öllu.Kíktum svo á vegastand á vesturhluta Fellsmerkur og það eru engar ýkjur að þar er allt ófært og í vitleysu. Klifandi rennur þar sem vegarslóðinn á að vera og verður þar væntanlega næsta árið eða árin ef ekkert verður að gert. Eins og sést á myndinni að neðan þá er þetta ekki mikilúðlegt vatnsfall en eða kannski frekar þegar eitthvað vex í ánni þá er eiginlega voðinn vís.
Þar sem Klifandi nú fellur þar á að vera vegarslóði.
Saturday, April 06, 2013
Æfing í fjallabjörgun en bara ljósmyndun hjá sumum
Örlítið mismunandi faglega útfærð björgun. Örn á myndinn lengst til hægr hangir bara rænulítill við hliðina á björgunarmanninum... ekki alveg viss um hversu gæfulegt það er á meðan Brynjar lengst til vinstri er alveg með þetta þar sem hann bjargar Bjarka.
Það var æfing í fallabjörgun í vikunni þar sem þremur nýliðum sem héngu uppi í klettum í Stardal var bjargað niður. Ég reyndar bara á myndavélinni og æfði mig ekki mikið. Hefði nú eiginlega haft betra af því að æfa mig almennilega þarna. Þetta var gaman á sinn hátt en alveg kristaltært að ef ég ætla eitthvað að gera með fjallabjörgun þá þarf ég að fara að læra eitthvað af viti um þessa endalausu línuvinnu. Veit ekki hvað ég ætla að gera með það. Var eiginlega alveg hræðilega mikið úti á þekju þarna og tókst að fara í klifurbeltið á röngunni. En myndirnar mínar voru held ég ásættanlegar og eru hér.
Annars dálítið sérstakt hvað þeir sem sem sigu niður náðu misjöfnum tökum á björguninni. Á meðan Bjarki er í fanginu á Brynjari lengst til vinstri þá er Örn hangandi eins og illa gerður hlutur fyrir neðan Magnús sem er að bjarga honum. En í öllu falli þá komust allir niður lifandi!
Er annars að reyna að lesa greinar um árstíðabundnar jarðskorpuhreyfingar vegna snjóálags. Dálítið vel athyglisvert sem er þar á ferð en hef einhverja 10 daga eða svo til að klára fyrirlestur og fleira um það. Svo á eftir væntanlega er Fellsmörk á dagskrá þar sem verkefnið er meðal annars að sækja linsu sem gleymdist þar síðast!
Brynjar sígur fram af þrítugum hamrinum undir vökulu auga Danna til bjargar Bjarka.
Monday, April 01, 2013
Og stutt páskaferð í Fellsmörk
Einhver páskablómstur frá Gunna í Fellsmörk... eiga þau annars ekki að vera gul páskablómstrin... einhvern tíman skildist mér að páskaliljur væru gular en hvítasunnuliljur væru hvítar.
En það var þessi snilldarhugmynd að fara í Fellsmörk úr því að ekkert varð úr HSSR skiðaferð. Fyrst var hjólað á racer einhverja 35km eða svo og svo var ferðbúist. Alls konar dót sett niður því margt átti að gera en ekki var mikið hirt um að skoða veðurspá. Kannski maður hefði betur gert það og þá e.t.v. bara verið heima. Því í henni Fellsmörk kom regn úr heiðskírum himni um kvöldið á lauagardegi og svo á sunnudagsmorgni - páskadagsmorgni - var okkur svo fagnað með roki og rigningu. Ekki alveg eing og það átti að vera. Kannski dálítið kjánalegt að ákveða að gott veður á laugardegi í Reykjavík tryggi gott veður í Fellsmörk á sunnudegi.Það rættist samt eilítið úr veðriinu og varð svona slarkfært eftir hádegið. Ætlun Gunnans hafði verið að setja járn á þak en það var ekki alveg veðrið til þess þannig að því var frestað. Ég hafði helst ætlað að fara í jarðfræðilegan göngutúr eitthvað um heiðarnar en það varð svo heldur ekkert úr því enda alls ekki veðrið til slíkrar skemmtigöngu. Skoðaði samt aðeins kantinn á mýrinni og sá fullt af alls konar öskulögum sem kannski verða skoðuð betur seinna. Kom reyndar helst á óvart að það var ekkert fyrirferðarmikið lagið úr Kötlu frá 1918. eina lagið sem var almennilega þykkt (tugir cm) var á meira en meters dýpi og líkelga um 10 lög fyrir ofan það. En má skoða betur seinna og þá kannski komast að því hvaða lag það er.
En svo verður að geta þess hvað húsið hjá okkur er orðið alveg edilonsfínt, klætt í hólf og gólf og barsta alveg edilonsfínt!
Inni í Músahúsinu og athygli má vekja á ekki bara veggja, loft og gólfklæðningu heldur líka nýju landakorti sem var teiknibólað við vegginn.
Svo var bjótt upp á læri á Urðarstekk og við rétt náðum í skottið á frænkunum sem voru bara svona frekar óðamála og kátar eftir súkkulaðiát páskadagsins.