Hálendisvaktinni minni lokið að sinni
Kristjón, Lambi, óli Jón og Eirasi sjálfur í Dreka fyrir framan Reyk 2 og Hötturinn í baksýn - Mynd sem Óli Jón tók en tekin af Landsbjargarvefnum
Búinn að vera á hálendisvaktinni norðan Vatnajökuls. Verulega fróðlegt. Hef aldreigi farið þannig áður og var náttúrlega bara snilld þó það gengi á ýmsu. Flest ef ekki öll viðfangsefnin sem hægt er að tala um snérust um bilaða bíla og oftar en ekki var það okkar eigin bíll. Að einhverju leyti tengt bíltúr hópsins á undan um Gæsavatnaleið hvar vel var sprett úr spori.
En ósköpin hjá okkur hófust á malbikinu rétt austan við Kröflu þar sem dekkjaviðgerð gaf sig. Það var svo sem allt í lagi fyrir utan að dekkið var svo illa farið að við gátum ekki gert við og fyrir utan að dekkið sem við fengum að láni fyrst passaði ekki undir og fyrir utan að veggkanturinn gaf sig þannig að bíllinn rann út af fyrir utan að við þurftum kranabíl til að koma bílnum aftur inná og fyrir utan að eftirköstin urðu t.d. þau að allir felguboltarnir slitnuðu hægt og rólega dagana á eftir. Við sluppum þó við þau ósköp að missa dekkið undan inn við Öskju sem hefði getað gerst með smá meiri óheppni.
Mývetningar mættir á staðinn með kranabíl til að tjakka upp og koma bílnum inn á veginn
Það var svo sem ekkert að ástæðulausu að ég valdi hálendisvakt núna til að fara. Það var farið á hálendið norðan Vatnajökuls. Svona staður sem er og verður alltaf mér í huga. Það eru víst komin 6 ár síðan ég eyddi góðum hluta sumarsins þarna og það var einhver hellingur af minningum út um allt. Verulega gaman að sjá myndirnar mínar ennþá þarna uppi á vegg. Eins og vatnslitamyndina í Strýtu af Strýtu og Herðubreið sem ég málaði eitthvert kvöldið í Strýtu. Hildur Landvörður mundi eftir mér og svo var Hrönn þarna líka. Undarlegt hvernig lífið breytist einhvern veginn í bara einhverjar áttir án þess að maður átti sig við eða ráði við nokkuð.
Eygló landvörður hellir eðalbrugguðu te í krús handa mér og Lamba
Það var farið út um allt svona þegar við sluppum úr dekkjaviðgerðum okkar eigin og einhverra bílaleigubíla út um allt. Fórum í Kverkfjöll og í Hvannalindir. Þar gaf Eygló landvörður okkur hvítt eðalbruggað te og ekki síðra kaffi. Ég fékk te og kaffi ást á henni með það sama og Óli heillaðist upp úr skónum. Það var allt saman bara gaman. Svo hittum við líka Hönnu Kötu sem var á leiðinni í Hvannalindir með stelpunin sinni sem er alveg eins og Davíð en heitir eins og memó og pabbi HK þ.e. Þórhildur og svo Jökla til að hafa þetta almennilegt fjallkonunafn.
...