Ekki fer nú allt sem ætlað er!
Það var gaman að vakna klukkan 7 í morgun og fara að taka sig til í smá ferðalag eða eiginlega ferðalög því þau áttu að vera tvö á einu bretti. Fyrst var að fara að gæta ferðafélaga Ferðafélaga Íslands á Kálfstindum hvar eitt fjall í mánuði hugðist halda. Þar sem ég ætlaði til Fellsmerkur á eftir þá fór ég á mínum "eðalfína" bíl.Bíllinn var nefnilega ekki svo eðalfínn. Einhvers staðar á Mosfellsheiðinni fóru að heyrast einhverjir skruðningar. Fjárans hugsaði ég. Með racer, Rauða Eldingu á toppnum. Er hjólið að losna. Hjólið á toppnum var nú samt bara alveg með kyrrum kjörum. Ég hefði nú reyndar átt að skoða einhver önnur hjól. Eins og t.d. annað afturhjólið því þegar ég var kominn rétt framhjá Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum þá ákvað dekkið að yfirgefa ferðalagið og skoppa út í hraun. Dekkið hefði nú átt að láta það ógert því það sprakk fyrir vikið. Skipti kannski ekki öllu máli þar sem legan var í sundur og ekkert hægt að koma dekkinu á aftur.
Það var annars bara glópalán að það fór ekki illa. Það var fólk þarna úti um allt að hita upp fyrir götuhjólakeppni á Þingvöllum og fullt af fólki þarna hjólandi út um allt sem auðvitað þusti að og þar af eitthvað fólk sem ég þekki. Hálf undarlegt að vera þarna í miðri hjólakeppni með ónýtan bíl en samt með Rauðu Eldinguna meðferðis!
En hvað um hvað. Gunninn kom og sótti mig þegar ég var hálfnaður með að skrifa þetta og það var farið til Fellsmerkur þar sem gert var allslags. Borið á tré, settir upp skakkir snagar, fært til tré og hoggnar greinar til að gera göngufært yfir á gamlalandið. Líka tekin veftumæling til skemmtunar af áreyrum Hafursár.
Og þar var allt eins og blómstrið eina!
No comments:
Post a Comment