Það vantar ekki að það er búið að lyfta Grettistaki í stígagerð í Reykjavík og eflaust má maður þakka fyrir það en samt er ég líklega öruggarí á götunni en á stígunum. Datt í dag.
Var að koma meðfram Kringlumýrarbraut frá Kópavogi og var fyrir vestan götuna, fyrst 90°beygja og svo önnur 180°beygja til að komast upp á brúna yfir Kringlumýrarbrautina. Var með hugann við seinni beygjuna og að reyna að þurfa ekki að stoppa algjörlega þegar ég áttaði mig allt í einu að einhverjum 1-2 metrum fyrir framan mig var þverslá yfir hálfan stíginn og ég átti ekki neina leið aðra en að hjóla bara á hana. Samkvæmt GPS tækinu þá hef ég verið á svona 20 km hraða þegar ég skall á handriðið, flaug áfram og lenti á aftarlegri hægri mjöðminni einhverja metra fyrir framan hjólið. Eftir að hafa kannað mjög lauslega að ég væri ekki alvarlega slasaður (sem ég vona ennþá að ég sé ekki) þá eiginlega tók ég æðiskast á staðnum út í þessa aulalegu hraðalokun sem er þarna. Öskraði og æpti og lét öllum illum látum. Sem betur fer eða því miður varð enginn mér vitanlega vitni að því.
Með þessa stíga og hjólreiðar þá ætti ég kannski að fara að stunda áhættuminna sport á meðan hönnunin á þeim miðar við að gera þá hættulega. búinn að vera að nota þennan racer síðan vorið 2009 og búinn að detta fjórum sinnum. Einu sinni þurfti ég að nauðhemla út af 30cm kanti þar sem hjólastígur byrjaði (náði að stoppa en var þá fastur í pedalanaum), fór svo fram yfir mig þar sem ég fór malarbút á milli stíga sem hafði gleymst að malbika, brákaði rifbein fyrir ári þegar ég fór fram yfir mig á kanti við stíg úti við Suðurgötu og svo þetta í dag.
Það var grínast með það á Sólheimajökli þegar við vorum að ísklifra í 20 metra djúpum svelgjum að það væri líklega hættuminna en að hjóla á stígunum í Reykjavík. Vissulega er maður í hættu á því að detta ofan í svelgina en það er alveg öruggt mál að á meðan maður er að klifra eða á meðan maður er að slakast niður í svelginn þá er maður í margfalt minni hættu á jöklinum en á þessum aulahönnuðu stígum í Reykjavík.
Einhvern tíman þegar ég er búinn í prófum og hef almennilegan tíma þá langar mann til að taka eitthvað saman og senda til borgaryfirvalda um þessa hroðalegu hönnun stíga sem boðið er uppá.
Fór svo annars á eftir í sundlaugina í Laugardal til að freista þess að mýkja eitthvað bakhlutann á mér. Það gekk svo sem ágætlega en komst þá að því að frk Halldóra Í Laugardal er sama sinnis og helvítis vogin í Mosfellsbænum. Ég er 2 kg þyngri núna en fyrir örfáum dögum. Skil ekki alveg af hverju. Er þó réttum megin við hundraðið ennþá.
Já og annað. Ég skráði mig á einhvern sportvef þar sem hægt er að skrá hlaupa- og hjólatíma. Lítur bara nokkuð vel út. Veit þá ekki alveg hvað ég geri með hlaup.com. Er sem sagt Endomondo eða eitthvað svoleis.
Núna er líklega málið að fara snemma að sofa og bera á sig tígrísdýraáburðinn dularfulla. Það getur varla skemmt fyrir!
No comments:
Post a Comment