Trjávöxtur 7 ára, 2003 til 2011
Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum munarannað hvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Þetta var ég látinn læra Breiðholtsskóla þegar ég var í níuárabekk og Þuríður kenndi mér en það er ljóst að í Fellsmörk hefur miðað nokkuð á leið og jafnvel bara töluvert. Það hefur samt ekki alltaf blásið byrlega þar. Ég man fyrstu árin og fyrstu árin voru líklega svona 10 talsins. Þegar koimið var í Fellsmörk að vori þá fannst mér yfirleitt allt vera unnið fyrir gíg. Tré sem hafði ekki verið hlíft yfir veturinn voru nær dauða en lífi og greinar sem stóðu upp úr flöskum eða striga voru meira og minna hálf dauð. Flest vorin vildi ég bara hætta þessu en svo liðu nokkrir dagar og ég var farinn að hugsa um hvernig hús maður ætti að byggja á skikanum. Það varð reyndar ekki neitt af alvöru húsbyggingarframkvæmdum sem kom kannski til af því að við gátum keypt landið við hliðina foreldralandinu og þar var lítill kofi. Hann hefur eitthvað gengið í endurnýjun lífdaga en ber nú samt enn nafn með rentu, Músahúsið.
Ég veit ekki hvort eða hvað mér miðar alltaf áfram en vonandi ekki aftur á bak þó. Núna á ég að vera að lesa fyrir próf en þá þurfti ég auðvitað að fara að finna til einhverjar gamlar myndir úr Fellsmörk og uppfæra vef Fellsmerkurinnar. Fannst þá frekar ótrúlegt að sjá hvað mikið hefur breyst þar á ekki mörgum árum. Reyndar kannski líka merkilegt að það er eiginlega þannig að mér fannst þetta vera orðið nokkuð gott þarna í Fellsmörkinni árið 2003 þegar myndin að ofan vinstra megin var tekin. Þá vorum við nýlega búin að fá Músahúsið og jú, eins og Sigrún sem er með sinn skika vestast í Fellsmörkinni sagði mér einhvern tíman, það fór ekkert að gerast í trjávextinum fyrr en húsið var komið!
......
....
No comments:
Post a Comment