Sunday, April 29, 2012

Að verða alveg ótrúlega blautur

og ég eignaðist persónulegan óvin í Sundlauginni í Mosfellsbæ

IMG_5974
Lokahópurinn sem fór alla leið upp með miklu harðfylgi
Það er skemmtilegt verkefnið sem ég er að sjá um með örðu góðu ef ekki enn betra fólki að ganga á tólf fjöll á ári. Í dag [laugardag] var farið á Kerhólakamb Esjunnar. Það hafði nú reyndar átt að fara á Hátind sömu Esju en það voru sögusagnir um harðann snjóskafl og reyndar aðallega hættu á grjóthruni sem kom í veg fyrir að við reyndum að fara okkur þar að voða.

En veðrið maður, veðrið! Búin að vera blíða í marga daga og svo er spáð aftur blíðu held ég en í dag var ekki blíða. Þegar heilinn í mér ákvað að það væri kominn tími til að fara á fætur löngu áður en ég ætlaði sjálfur að fara á fætur þá heyrði ég bara riginignuna bylja á rúðunni. Það er bara svona hugsaði ég með þeim sama heila. Ákvað að reyna að sofa aðeins meira því ég hafði ekki farið neitt sérlega snemma að sofa kvöldið áður og aukinheldur hafði ratað heilt glas af rauðvíni ofan í mig einhvern tíman kvöldið áður.

En það var farið af stað og það varð blautt, blautara, blautast. Ég lafði nú reyndar þokkalega lengi þurr en það kom þó að því að allt varð blautt. Einhvern veginn alveg sama hvað gallinn er nýr eða gamall ég skal enda á því að blotna í gegn ef það er alvöru vatnsveður. Það var reyndar meinleysis rigning megnið af tímanum alveg þangað til sú ógleymanlega stund rann upp að Þorvaldur nokkur í þessum hópi hóf upp raust sína og söng veðrinu til dýrðar og óskaði eftir almennilegum þræsingi:

    Ég vildi óska, það yrði nú regn
    eða þá bylur á Kaldadal,
    og ærlegur kaldsvali okkur í gegn
    ofan úr háreistum jöklasal.

    Loft við þurfum. Við þurfum bað,
    að þvo burt dáðleysis mollukóf,
    þurfum að koma á kaldan stað,
    í karlmennsku vorri halda próf.

    Þurfum á stað, þar sem stormur hvín
    og steypiregn gerir hörund vott.
    Þeir geta þá skolfið og skammast sín,
    sem skjálfa vilja. Þeim er það gott.

    Ef kaldur stormur um karlmann ber
    og kinnar bítur og reynir fót,
    þá finnur ’ann hitann í sjálfum sér
    og sjálfs sín kraft til að standa mót.

    Að kljúfa rjúkandi kalda gegn
    það kætir hjartað í vöskum hal. –
    Ég vildi það yrði nú ærlegt regn
    og íslenskur stormur á Kaldadal.


Og honum varð að ósk sinni því skömmu síðar vorum við komin í hávaðarok ofan á alla úrkomuna!

Svo á eftir var farið í sundlaugina í Mosfellsbæ. Ekki þessa gömlu sem ég fór einhvern tíman með Önnu Maríu í, líklega eftir Esjugöngu sömuleiðis, heldur var núna farið í einhverja herjarinnar 2007 sundlaug byggð fyrir eitthvern bráðahagnað með von um enn meiri bráðahagnað sem brást auðvitað. Þar hitti ég fyrir einhverja fúla vog sem hélt því fram að ég væri að nálgast heil 100 kg. Skil ekki alveg hvernig ég á að hafa getað þyngst um heil 2-3 kg á örfáum dögum síðan ég steig á hana frú Halldóru í Laugardalslauginni.

En kannski verður maður bara að fara að gera eitthvað í sínum málum ef það á ekki að stefna í algjört óefni!

No comments: