Stuttblogg um afrek helgarinnar
Þar sem það er í frásögur færandi þá er það líklega í bloggfærslur bloggandi. Ég fór um helgina á fjallamennskunámskeið númer 2 hjá mínu eðla HSSR. Það var bæði upp og niður í víðum skilningi þess orðs.Ég var með hálfgerðan hnút í maganum þar sem ég þykist sjaldan ef nokkurn tímann hafa farið í alvöru fjallaferð í jafn slöppu formi og núna. Búinn að vera með kvef og vesöld í þær tvær vikur sem ég ætlaði að nota til að lappa eitthvað aðeins upp á formið mitt. En ferðin hóst samt.
Það var farið austur að Tindfjöllum. Þar fékk maður kort og var svo sagt að taka stefnu upp í efsta skálann og drulla sér svo af stað. Jamm það var ágætt nema maður vissi eiginlega ekki í myrkrinu hvort einhver væri að leiða hópinn eða ekki. Að minnsta kosti var gengið eitthvað af stað í einhverja stefnu sem var alls ekki beint upp fjallið að þessum skála sem við vorum að fara í. Svo sá maður að það var stefnt út með Hlíðinni (hinni förgu Fljótshlíð sko) að veginum sem liggur þarna uppeftir. Það átti sem sagt að rölta veginn en ekki fara beint af augum. Ágætt það en hefði kannski alveg mátt segja manni að það ætti að fara eina leið frekar en einhverja aðra. Já þarna var sem sagt hópur af misvönum fjallaförum kominn út í myrkrið til að fara upp í einhvern skála sem fæstir í hópnum vissu nokkuð um og líklega voru margir sem höfðu ekki grænan grun um hvar þeir væru staddir á landinu eða hvar þessi Tindfjöll eiginlega væru. En hvað um það.
Það var svo gengið áfram og svo hvessti og einn Reykjarbíll fór á undan veginn og kom svo fljótlega til baka. Glórulaus skafrenningsbylur þarna uppi og varla stætt. Hopnum því snúið til baka og ákveðið að tjalda á láglendi. Það var ágætt nema að eiginlega enginn var með tjaldhæla með í för því þegar tjaldað er í snjó þá er það bara óþarfa birði. En þarna á láglendinu var ekki mikið fyrir snjónum að fara.
Ég hafði nú ekki mikla trú á þessu og var eitthvað tuðandi en Það tókst nú samt að losa einhverja steina og bera á tjöldin sem risu jú eitt af öðru og jú, minn verður víst að játa að hafa verið eitthvað helst til of neikvæður á þessa hugmynd að tjalda þarna með grjótinu í rokinu með enga hæla. Þetta gekk svo sem nema kannski að tjaldið fékk ekki of góða útreið út úr þessu og rifnaði stag og smá gat kom einhvers staðar eftir grjótnudd. Svo tókst okkur ekki betur til en svo að tjaldið snéri þvert á vindstrenginn Þannig að öll þessi tjöldun okkar var eitthvað hálf álappaleg.
Það varð vindasöm nótt þar sem við vorum fjörur saman eftir að Arna hafði komið á puttanum til okkar. Lau og Lei. Ekki varð manni mjög svefnsamt þarna en smá náði maður samt að blunda.
Um morguninn var enn svo hvasst og mikið drasl fyrir manni í fortjaldinu að ekki var lagt í neina hitunareldamennsku starfsemi. Helst að það gleddi mann að geta japlað á mangónum frá HT sem Arna hafði komið með. Og svo jú annars, súkkulaðimúslí borðað þurrt og drukkið volgt vatn með í boði Lei var ekki slæmt heldur.
Það var sem sagt farið á lappir án þess að fá heitan drukk! Við tóku æfingar í alls konar fjallatrixum sem voru alveg hinar stórfínustu. Dagurinn var sem sagt ekki látinn klikka þó veðrið væri ekki alveg eins og það ætti alltaf að vera og við værum ekki uppi á fjallinu heldur bara í neðstu hlíðum þess.
Eftir að hafa gert gott úr þessu öllu um daginn voru tjöldin felld og haldið af stað í leit að gistingu. Eftir japln jaml og fuður varð niðurstaðan sú að það væri best að játa sig sigraðan og fara bara í bæinn. En það var ekki öll nótt úti því sumir eyddu henni á M6 þó aðrir hafi nú bara farið til sinnar HK.
En svo kom sunnudagur og þá var vaknað snemma og haldið á Esju. Veðrið orðið fínt og flott farið upp eitthvert gilið sem heitir örugglega eitthvað skemmtilegt. Það var stuð í snarbröttu hjarninu í broddum vopnaður ísexi að krafla sig þarna upp. Svo sem ekki neitt ísklifur en snarbratt samt og alveg hið besta. Svo blés uppi á Esjubrúnum en við skakklöppuðumst samt yfir og fórum svo í rassaköstum niður við Þverfellshornið. Alveg bara frábær dagur og fínn endir á fjallamennskunámskeiði sem var jú dálítið upp og niður eins og slík námskeið eiga auðvitað að vera þegar maður fer á eitthvert fjall!
Svo er ég annars eitthvað hálf svona eftir mig eftir þetta brölt. Einhverjir vöðvar hálfslappir svona og svo er ég með einhverja skrambans tannpínu í tönninni sem átti að hafa verið löguð í síðustu viku. Ekki mjög gaman að því :(
... ég sé reyndar að þetta er ekki alveg stuttblogg lengur heldur svona eiginlega bara alvörublogg!
No comments:
Post a Comment