Wednesday, February 21, 2007

Tíminn og ragginn

Hann líður víst alltaf hvað sem maður gerir


5th February 2007
Þessi mynd endaði á að verða sú næst seinasta í sjálfsmyndasyrpunni minni að þessu sinni. Ég hætti að gefa mér tímann til að gera þessar myndir. Reyni kannski aftur seinna en kannski dæmigert að hafa klukku á myndinni þar sem það er víst tíminn sem er alltaf að hlaupa frá manni....

Og tíminn sem verður þess valdandi að maður á afmæli. Minn er núna sem sagt orðinn fertugur! Þetta tókst manni. Uppáhaldið var alveg hreint stórfínt fannst mér og ekki síður HK en við brugðum undir okkur Fokker flugfáki og runnum norðir yfir heiðar. Þar var svona auk þess að liggja í leti og hafa það gott: Farið í bíó, farið út að borða, sötrað rauðvín og hesthúsaðir ostar uppi á hótelherbergi, farið á Skauta, á gönguskíði inn í Vaglaskóg, borðað hádegisnestissíðdegissnarl í skóginum, farið í leikhús, farið út að borða, farið í Hlíðarfjall, farið á rúntínn, farið á pöbbinn og aftur farið á pöbbinn, farið meira út að borða, farið á listasýningar og gert eiginlega barasta allt alls kyns en samt bara verið í rólegheitunum. Alveg hreint prýðileg helgi hjá okkur þarna!
hk and the artists
hk and the artists

Wednesday, February 14, 2007

Það var tannpína og svo á ég ammimæli

en verð að heiman eins og stóð í auglýsingunni

Það var víst tannpína i mér eftir helgina og ég skyldi ekki bara hvað. Tannlæknirinn krukkaði í einhverjar tennur í mér í seinustu viku sem voru samt ekkert skemmdar bara einhverjir litablettir á þeim svo fékk ég samt tannpínu. Og það var sárt. Ég bara skyldi ekki neitt og endaði á að væla út tíma strax í gær. Það var eitthvað skoðað upp í mig og ekkert að sjá. Bankað eitthvað í tönnurnar og jú það var dálítið sárt. Svo sá hann eitthvað smá skemmt og svo tók hann mynd og svo kom úrskurðurinn: Það verður að taka þessa tönn hún er ónýt! Ég átti ekki orð. Búinn að vera hjá mínum ágæta tannlækni í vikunni áður og einnig þarna fyrir jól og þá var átti allt að vera bara gúddí. En núna... heil tönn ónýt. Og hverra kosta á maður völ, liggjandi í tannlæknastólnum að drepast úr tannpínu með ónýta tönn... jú dragðu skömmina úr mér og það gerði hann svikalaust og þar með fór tannpínan en eftir var gat uppi í mér. Ekki gaman það. Annars vissi ég svo sem ekkert um það hvort tannpínan væri farin þar sem hálfur hausinn á mér var tilfinningalaus eftir deyfinguna. En svo fór nú deyfingin bara og engin tannpínan kom ekki aftur.

En svo á maður bráðum ammimæli og hvernig haldið verður upp á það á eftir að koma í ljós því við HK tókum þá snarskemmtilegu ákvörðun að fara til Akureyris á ammimælinu og þannig að það verður ekkert svona ammimælispartý fyrr en einhvern tíman aðeins seinna og þá kannski innflutningspartýur með eða einhvern veginn. það verður að minnsta kosti eitthvað gert einhvern veginn einhvern tíman... en við verðum í öllu falli að heiman á ammimælinu!



....

Monday, February 12, 2007

Fjallamennskunámskeið

Stuttblogg um afrek helgarinnar

Þar sem það er í frásögur færandi þá er það líklega í bloggfærslur bloggandi. Ég fór um helgina á fjallamennskunámskeið númer 2 hjá mínu eðla HSSR. Það var bæði upp og niður í víðum skilningi þess orðs.

Ég var með hálfgerðan hnút í maganum þar sem ég þykist sjaldan ef nokkurn tímann hafa farið í alvöru fjallaferð í jafn slöppu formi og núna. Búinn að vera með kvef og vesöld í þær tvær vikur sem ég ætlaði að nota til að lappa eitthvað aðeins upp á formið mitt. En ferðin hóst samt.

Það var farið austur að Tindfjöllum. Þar fékk maður kort og var svo sagt að taka stefnu upp í efsta skálann og drulla sér svo af stað. Jamm það var ágætt nema maður vissi eiginlega ekki í myrkrinu hvort einhver væri að leiða hópinn eða ekki. Að minnsta kosti var gengið eitthvað af stað í einhverja stefnu sem var alls ekki beint upp fjallið að þessum skála sem við vorum að fara í. Svo sá maður að það var stefnt út með Hlíðinni (hinni förgu Fljótshlíð sko) að veginum sem liggur þarna uppeftir. Það átti sem sagt að rölta veginn en ekki fara beint af augum. Ágætt það en hefði kannski alveg mátt segja manni að það ætti að fara eina leið frekar en einhverja aðra. Já þarna var sem sagt hópur af misvönum fjallaförum kominn út í myrkrið til að fara upp í einhvern skála sem fæstir í hópnum vissu nokkuð um og líklega voru margir sem höfðu ekki grænan grun um hvar þeir væru staddir á landinu eða hvar þessi Tindfjöll eiginlega væru. En hvað um það.

Það var svo gengið áfram og svo hvessti og einn Reykjarbíll fór á undan veginn og kom svo fljótlega til baka. Glórulaus skafrenningsbylur þarna uppi og varla stætt. Hopnum því snúið til baka og ákveðið að tjalda á láglendi. Það var ágætt nema að eiginlega enginn var með tjaldhæla með í för því þegar tjaldað er í snjó þá er það bara óþarfa birði. En þarna á láglendinu var ekki mikið fyrir snjónum að fara.


Ég hafði nú ekki mikla trú á þessu og var eitthvað tuðandi en Það tókst nú samt að losa einhverja steina og bera á tjöldin sem risu jú eitt af öðru og jú, minn verður víst að játa að hafa verið eitthvað helst til of neikvæður á þessa hugmynd að tjalda þarna með grjótinu í rokinu með enga hæla. Þetta gekk svo sem nema kannski að tjaldið fékk ekki of góða útreið út úr þessu og rifnaði stag og smá gat kom einhvers staðar eftir grjótnudd. Svo tókst okkur ekki betur til en svo að tjaldið snéri þvert á vindstrenginn Þannig að öll þessi tjöldun okkar var eitthvað hálf álappaleg.

Það varð vindasöm nótt þar sem við vorum fjörur saman eftir að Arna hafði komið á puttanum til okkar. Lau og Lei. Ekki varð manni mjög svefnsamt þarna en smá náði maður samt að blunda.

Um morguninn var enn svo hvasst og mikið drasl fyrir manni í fortjaldinu að ekki var lagt í neina hitunareldamennsku starfsemi. Helst að það gleddi mann að geta japlað á mangónum frá HT sem Arna hafði komið með. Og svo jú annars, súkkulaðimúslí borðað þurrt og drukkið volgt vatn með í boði Lei var ekki slæmt heldur.

Það var sem sagt farið á lappir án þess að fá heitan drukk! Við tóku æfingar í alls konar fjallatrixum sem voru alveg hinar stórfínustu. Dagurinn var sem sagt ekki látinn klikka þó veðrið væri ekki alveg eins og það ætti alltaf að vera og við værum ekki uppi á fjallinu heldur bara í neðstu hlíðum þess.

Eftir að hafa gert gott úr þessu öllu um daginn voru tjöldin felld og haldið af stað í leit að gistingu. Eftir japln jaml og fuður varð niðurstaðan sú að það væri best að játa sig sigraðan og fara bara í bæinn. En það var ekki öll nótt úti því sumir eyddu henni á M6 þó aðrir hafi nú bara farið til sinnar HK.

En svo kom sunnudagur og þá var vaknað snemma og haldið á Esju. Veðrið orðið fínt og flott farið upp eitthvert gilið sem heitir örugglega eitthvað skemmtilegt. Það var stuð í snarbröttu hjarninu í broddum vopnaður ísexi að krafla sig þarna upp. Svo sem ekki neitt ísklifur en snarbratt samt og alveg hið besta. Svo blés uppi á Esjubrúnum en við skakklöppuðumst samt yfir og fórum svo í rassaköstum niður við Þverfellshornið. Alveg bara frábær dagur og fínn endir á fjallamennskunámskeiði sem var jú dálítið upp og niður eins og slík námskeið eiga auðvitað að vera þegar maður fer á eitthvert fjall!


... ég sé reyndar að þetta er ekki alveg stuttblogg lengur heldur svona eiginlega bara alvörublogg!

Svo er ég annars eitthvað hálf svona eftir mig eftir þetta brölt. Einhverjir vöðvar hálfslappir svona og svo er ég með einhverja skrambans tannpínu í tönninni sem átti að hafa verið löguð í síðustu viku. Ekki mjög gaman að því :(

Monday, February 05, 2007

Kjalvegur - ég ann þér

Að passa ekki inn í rammann

28th January 2007
Ég var á leiðinni að skrifa einhvern áróðuirspistil til að bjarga því sem bjargað yrði á Kili, ég hafði nefnlega ekki næga trú á landanum. En svo hafði ég ekki neinn tíma og í millitíðinni er víst komið í ljós að það hvorki ráðherrar né pöpullinn í landinu vill þennan veg þarna sem átti að fara að leggja þarna fyrir einhverjum tveimur viku, og já átti að leggja. Það á held ég ekkert að leggja hann lengur þessa vegarskömm sýnist mér eða það held ég. Minn áróðurspistill liggur því hér óbættur hjá garði og kemst hvergi enda vonandi ekki nein þörf fyrir hann lengur. Það lítur út fyrir að það sé Kjalvegur sem passar ekki inn í ramman!

En upphafið á honum hefði getað litið út einhvern veginn svona:

Eitt af því sem gerir Ísland að Íslandi er hálendi. Hálendi sem er öðru vísi en allt annað, öðru vísi en láglendið þar sem er fullt af fólki, þar sem er byggð og þar sem við höfum sem besta vegi. Á hálendinu er ekki mikil byggð og þar er yfirleitt ekki mikið af fólki og þar ætti ekki að vera nein þörf fyrir upphækkaða vegi - enda er hálendið allt öðru vísi. Þetta vita þeir sem þangað hafa komið.



... bloggfærsla kláruð 21. febrúar eða hvað veit ég hvaða dagur er í dag!

Norðurvegur - nei takk, ekki fyrir mig...

Vilja hefja undirbúning nýs vegar yfir Kjöl í einkaframkvæmd

Eflaust saka einhverjir mig um að vera bara þröngsýnan nöldursegg á móti öllu en þessi vegur yfir Kjöl (eða Sprengisand) sem ég hef heyrt um af og til er einhver al versta framkvæmd sem ég hef heyrt um. Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds af tilhugsuninni einni saman. Bloggið mitt gæti núna breyst í pólitískt blogg bara út af þessu og víst er að ég á eftir að blogga um þetta meira.

Gerir fólk sér enga grein fyrir að hálendi án stórframkvæmda er einhver verðmætasta auðlindin sem íslendingar eiga og í mínum huga mikið verðmætari en tíminn sem það tekur að fara norður á Akureyri?

Meira um þetta seinna!


....

Sunday, February 04, 2007

Það var útivera í dag

Farið í Bláfjöll með stæl!

The blue mountains
Það hefur verið ýmsilegt gert þessa helgina. Það var haldið upp á flugeldasölu með HSSR á föstudagskvöldi og endaði gleðin á Torvaldsen þar sem menn áttu að vanda í erfiðleikum með að komast inn sakir hins stórmerka dresskóda sem þar tíðkast! En þar inni var bara stuð og gaman að hitta MöggVölu gamlan vinnufélaga.

Svo var laugardagur eitthvað dálítið þynnri en maður hefði kannski helst viljað. Hressleikinn sótti nú samt í sig veðrið þegar leið á daginn og var haldið í göngutúr í Heiðmörk sem var stórfínt fyrir utan að það var hálf kalt og ætlaði kuldinn næstum að gera útaf við okkur hálf þynnkulega kvefpésa. Undir kveld kom Gúnninn í heimsókn en Ralldign og Kristján ekki neitt sakir krankleika. Það var reynt að spila Fimbulfamb en hvað er gaman að því þegar einn spilamaðurinn kann annað hvert orð í spilinu!

En svo kom sunnudagurinn. Þá sýndum við okkar bestu hliðar og fórum út í garð til að tjalda. Já, ég meina, það er að koma sumar. Febrúar langt liðinn og allt. Kominn fjórði febrúar eða eitthvað.
HK and our great VE-25 tent
Það stendur nefnlega til að fara á fjöll um næstu helgi og hýrast í tjaldi í Tindfjöllum. En þá ku víst vera betra að vita eitthvað aðeins hvað snýr fram og hvað snýr aftur á tjaldinu manns. En við HK nebblega keyptum okkur eðal jöklatjald af Fjallaleiðsögumönnum (þessum hinum einu sönnu) af gerðinni North Face VE-25. Jamm, margir fjallamenn sem kannast við þær tölur. Það tókst að koma tjaldinu upp í vernduðum aðstæðum undir húsvegg. Það eina sem minnti á eðlilegar tjaldaðstæður var snjórinn á flötinni. Þetta var þannig ekki alslæmt.

Sérstaklega var þetta ekki mjög slæmt þegar allt í einu birtist gestur... köttur í bóli Bjarnar. Honum var klappað og sagt við hann kis kis, hoaj og tzzz tzzzz.... hann lét sér þetta allt vel í léttu rúmi liggja [eða HK segir að maður segi svoleis] en svo bara fór hann yfir grindverkið til nágrannans!
HK and the cat that came to visit us today
Svo var haldið í Bláfjöll. Þar var kalt og þar var gaman. Hefði mátt vera meira um þetta hvíta eða kannski frekar minna um þetta dökksvarta sem stóð upp úr snjónum hér og hvar. Ekki örgrannt um að skíðin okkar fínu hafi rispast. HK reyndar ekki á sínum spánnýju sem betur fer en ég á mínum næstum því nýju. En maður er svosem vanur að böðlast um með nýja dótið sitt. Svo þegar við vorum að fara til baka þá kallaði skíðasleðaskúr á mig og heimtaði myndatöku. Hann fékk að kynnast fiskaugalinsunni minni og sætti sig held ég bara nokkuð vel við þetta allt saman!
on skiis a small hut


....