Tuesday, October 31, 2006

Fasteignakaup og fleira

Það er staðið í stórræðum þessa dagana

Eftirfarandi tilkynning var send út af betri helmingnum til náinna vandamanna í gærkveldi:


Appelsína á borðstofuborðinu, appelsínugul servíetta rétt handan, appelsínugulur trefill á stólbakinu, appelsínugulur Plútó blýfantur, glittir í appelsínugular matreiðslubækur í bókaskápnum...og á gólfinu liggur...appelsínuGUL fasteign. Keyptum í dag, 25 króna kjarakaup. Höfum aflýst frekari fasteignaviðskiptum, munum leggjast út. Vildum leyfa ykkur að vita af þessu - en verið snögg ef þið ætlið ykkur!

Kv, HK og Ragginn

P.s. Þessi gulu eru flokkuð í 3 verðflokka: "Mjög góð" (40.000), "góð" (25.000 - hugsanlega stirðir rennilásar, bogin súla eða bót í botni) og loks "í lagi" (10-15.000 kall - allt að nokkur göt, stirðari rennilásar eða eitthvað).
---
Nánar má t.d. skoða auglýsingu ÍFLM á síðu ÍSALP


það var sem sagt skellt sér á eitt svona gott VE-25 tjald. Svona gula kúlu sem þolir flest ef ekki allt. Það vantar reyndar snjóskarir en þeim verður bara bætt við skulum við ætla. Vígsluathöfn fasteignarinnar verður e.t.v. um þriðju helgi héðan í frá. Hver veit. Kannski verður veðrið nógu vont fyrir okkur þá. Á eftir að koma í ljós. Annars fyndið að okkur skötuhjú hefur líklega langað í eins tjald í mörg ár án þess að hafa hugmynd um það. VE-25 skyldi það hafa verið.


Fyrir þá sem það ekki vita þá lítur svona
eðalfasteign út einhvern veginn svona:



Fyrsta hjálp kemur líklega á undan annarri hjálp...

Annars er það að frétta af þjálfunaráætlun Laggans að hann er núna kominn með gráðu í fyrstu hjálp. Búinn að læra alls konar dularfulla þríhyrninga og skammstafanir. Ef einhver slappur verður á manns vegi má búast við að spilaður verði OLSEN með A og svo gæti vel farið svo að í framhaldinu verði bara BROS. Vonum samt að það sé ekki eitthvað af ÞOLHRESS sem hafi gerst eða viðkomand skori eitthvað leiðinlega lítið á VÁSE. Já, það eru skammstafanir sem hjálpa manni að muna það sem maður þarf að muna ef einhver á bágt.

Annars verður þessu fyrstuhjálparnámskeiði aðallega minnst fyrir það sem fór inn í manns munn. Ætti þá kannski frekar að segja mynnst! Arna yfirkokkur tók að sér undirdeild Isspiss og eldaði fyrir 9 manns eða eitthvað, dýrindis kræsingar á hverjum degi. Bara frábært í alla staði!
Arna yfirkokkur

Annars voru líka þarna helíllar björgunaræfingar og sjást Gulli og Kristín bera einn hérna stórslasaðann til byggða!
Nokkrir voru illa særðir og fóru á börur

Og svo var okkur kennt að blása og kvása ofan í þá líflausu:
Og svo prófaði Hrabbi að blása

Meiri myndir hér og Isspiss blogg hans nafna míns hér.

Síðan er árshátíð með drifstútarallíi um helgina og svo fer að styttist í fjallamennsku 1 sem er um aðra helgi. Reyndar vonast ég til að það þurfi ekki að nota neitt af því sem var kennt á þessu námskeiði en allur er jú samt varinn góður!

Af aumingja Cesurari er síðan ekkert gott að frétta en meira um það einhvern tíman seinna.

No comments: