Tuesday, October 17, 2006

Það var farið í Austurdal 13 -15 okt 2006

Þetta er eiginlega svona björgunarsveitarsaga...


Einhvern veginn varð maður að fara í þessa ferð. Þetta var allt einhvern veginn þannig. Maður bara varð því það kom ekkert annað til greina. Reyndar var enginn tími til þess að fara þetta og allt í upplausn og óefni en við skyldum samt fara.

Ég var búinn að ákveða að taka mér frí allan föstudagseftirmiðdaginn til að geta nú almennlega undrabúið mig. Það gekk eftir þannig að ég var búinn í vinnunni svona einhvern tíman um þrjúleytið. Þá var ætt fyrst í Hagkaup með innkaupalista einn sveran og verslað alls kyns. Síðan var farið með kort í plöstun og svo loksins einhvern tíman um fjögurleytið eitthvað var hægt að fara að tína eitthvað dót ofan í bakpoka.

Það voru eitthvað dularfull skilaboð um hvort ferðin væri trússferð eða ekki og tókum við HK að lokum með okkur tvö sett af bakpokum svona til að vera við öllu búin. Svo var haldið upp á M6 (sem eru höfuðstöðvar HSSR fyrir þá sem ekkert vita og er Malarhöfði 6 en hljómar mikið meira eins og eitthvað Djeims Bond dæmi svona Emm sex...)

Eftir að undrafarararnir voru búnir að gera úttekt á nærfatnaði okkar nýliðanna var sest upp í stóra fjallatrukkinn og ekið norður yfir Heiðar. Í Varmahlíð kom Íbí sem sá um allt skipulag inn í hópinn og þá var komið myrkur. Svo fór að rigna og svo kom rok. Og þá var loksins ekki komist lengra á stóra fjallatrukkinum og við máttum yfirgefa hlýjuna og fara út í myrkrið.

Vafamálið með trúss eða ekki trúss snérist dálítið um hvort hægt væri að keyra yfir brú á Jökulsánni Austari. Brú sem ég áttaði mig á að pa minn og ma mín ákváðu fyrir 30 árum að væri göngubrú sem héldi ekki lítilli Cortínu. En núna hafði brúnni eitthvað vaxið ásmegin með áunnum fúa og annarri veðran og ekki talið óhugsandi að hún gæti haldið uppi Nissan Patrol með kerru fulla af útilegudóti.

Fyrst gengum við fótgönguliðar yfir og var nokk greinilegt að brúin tók okkur fagnandi því hún iðaði öll í skinninu. Gekk upp og niður við hvert fótmál okkar gönguhrólfanna. Svo héldum við niðri í okkur andanum á meðan Patrolinn læddist yfir. Hraðinn var ekki mikill enda komst bíllinn eiginlega ekki fyrir á brúnni á sínum 44 tommu risadekkum. En hægt og rólega komst hann áfram og alveg yfir heilu og höldnu. Það urði fagnaðarfundir og svo hélt hann sína leið áfram með allt okkar hafurtask en við fótganandi í rigningunni, rokinu og myrkrinu þannig að það var sem sagt mjög gaman. Enda gekk þetta allt saman vel og einhvern tíman um miðja nótt komum við í skálann.

Í skálanum urðu fagnaðarfundir þegar við nafnarnir hittum fyrir kaffikönnu og var helt uppá með blandaðri tækni. Aðrir hófu matargerð af kappi og elduðu sumir pasta með blóðmör en aðrir bara pasta með einhverri hallæris pastasósu. Svo var farið að sofa einhvern tíman undir morgunn.

Og einhvern tímann eftir að morguninn var hálfnaður var vaknað aftur. Það tók tímann sinn að komast af stað enda þurftu sumir sitt egg og beikon í morgunmat áður en mögulegt var að takast á við verkefni dagsins. Loks var arkað af stað áfram upp með Jökulsá Austari svona þegar hádegið var við það að verða gamalt. Ferðin gekk vel en samt ekkert of hratt. Það þurfti að vaða nokkra læki og svo þurfti að stoppa út af hælsærum og einnig vildu sumir fara að hátta sig þegar gula fíflið sýndi sig.


Haukur og fleiri að spá í kortið og svona alls konar

Matarstopp til að kýla vömbina / HK tók þessa mynd annars en hann eirasi hina sko

En svo kom allt í einu myrkur og svo varð gilið eitthvað bratt með alls konar klettum og lífshættum, birkikjarri og annarri óáran. Varð það úr að brotist var uppúr gilinu og gengið á leiðis til Patrolsins og stóra fjallatrukksins sem beið okkar og flutti okkur hálf úppgefin til Laugafells þar sem svamlað var í lauginni fram eftir nóttu og loks grillað einhvern tíman undir morgunn.

Svo var lagt af stað heimleiðis akandi bara ágætlega snemma eftir að einhver önnur björgunarsveit hafði gert rúmrusk á óguðlegum tíma rétt eftir að sólin kom upp.

En sem smjatt. Þetta var mikið gaman og roslega vel heppnað og minn bara sáttur við að vera kominn í svona björgunarsveit!

Ef einhver er forvitinn að vita hvað var labbað þá sést það hér að neðan og hægt að smella til að fá stærra kort upp.




....

No comments: