Í framhaldi af því að ég fór að reyna að gera mig gildandi í skíðapreppinu þurfti ég að verða mér úti um einhvern búnað, efni og dót. Eftir að hafa gúgglað komst ég eiginlega að tvennu. Ég ætti sennilega að fá mér alvöru skíðastraujárn því þó að skíðastraujárn kosti fáránlega mikið miðað við venjuleg straujárn þá er það líklega þess virði að eyða 20 þúsund krónum í straujárn ef það getur komið í veg fyrir að maður eyðileggi skíði fyrir mörg hundruð þúsund.
Hitt sem ég komst að er að það þarf líklegast klístur en ekki bara gripáburð til að geta gengið klassíska göngu á áburðarskíðum af einhverju viti. Oftast er talað um klístur með einhverjum hryllingi hér á Íslandi og að það sé eitthvað sem maður neyðist til að nota á áburðarskíði þegar kemur fram á vorið og snjórinn er að verða gömul skítug drulla. það er jú líklegast rétt að þá verður að vera með klístur - enda voru það þær aðstæður sem komu í veg fyrir ánægjulegar skíðaferðir hjá mér síðasta vor - en það er gott að nota klístur sýnist mér mun oftar.
Málið er nefnilega það, eftir því sem ég skoðaði fleiri Youtube video að þessi venjulegi gripáburður virkar bara vel á nýja snjókristalla sem eru beittir og geta gefið gott viðnám við gripáburðinn. Ef kristallarnir hafa brotnað, eru orðnir gamlir (nokkurra daga gamlir) eða hafa jafnvel bráðnað og frosið aftur, þá virkar gripáburður lítið til að gefa grip þó það sé frost og ekkert virkar almnennilega af efnum borin á skíðin, nema hið voðalega klístur.
Ég fór sem sagt á stúfana í eina af viðurkenndustu gönguskíðaverslunum höfuðborgarsvæðsins. Ætlaði að fá mér klístur, hugsanlega einn eða tvo auka stauka með gripáburði, einn auka kork, bursta og sköfu. Svo ætlaði ég líka að skoða hvort þau ættu fyrir mig straujárn á sanngjörnu verði.
Jæja... það var auðvitað biðröð inn í búðina og ekkert of mikil afgreiðsla þegar inn var komið. Ég fann nú samt hvar áburðardótið var. Samtalið var einhvern veginn svona:
Ég: Já, ég er að hugsa um að fá mér klístur til að fá almennilegt grip.
Afgreiðslukonan: Ha, klístur... það er nú aðallega notað bara á vorin þegar snjórinn er allur orðinn bráðinn... ertu viss um að þú æltir að fá þér klístur?
Ég: Já, ég ætla að eiga klístur líka til að nota þegar snjórinn er ekki nýr
Afgreiðslukonan: Já en núna er bara nýr snjór... vantar þig ekki ferkar svona stauka?
Ég: Ha, hvað áttu við með stauka?
Afgreiðslukonan: Nú, svona stauka sem allir eru að fá sér núna. Þessir hér eru vinsælastir.
Ég skoða þessa stauka og sé fljótleg að þetta er það sem ég kalla gripáburð eða upp á ensku gripvax... og það er það sem ég á og virkaði ekki nógu vel og mig langaði til að fá klístur. Sagði því líklega: Já en ég var að hugsa um að f
Ég (dálítið þóttugur og snúðugur): Jæja ef þú vilt ekki selja mér klístur þá er það allt í lagi ég get bara farið eitthvað annað.
Afgreiðslukonan: Fölnar eitthvað og veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið.
Man svo sem ekki hvernig þetta þróaðist alveg en hún sótti einhvern annan sem vissi meira og reyndar talsvert mikið um gönguskíði. Hann hins vegar talaði ekkert of mikla íslensku og var ekkert að skipta í ensku þannig að við skildum hvorn annan ekkert of vel. Það var þarna reyndar eitthvað ótilgreint kit með einni klísturtúbu og einherjum tveimur gripvax staukum. Ekki alveg það sem ég var að spá í að fá mér þar sem mig vantaði a.m.k. ekki bara eitthvað gripvax í einhverju hallærislegu kitti.
Held samt að ég hafi náð að kaupa einn bursta af þeim. Sérfræðingurinn seldi mér einhvern alhliða bursta sem hann sagði að virkaði illa á allt.
Heiðarleg og frábær sölumennska.
Það má alveg geta í eyðurnar um hvaða búð þetta var en ég fór seinna annað og keypi mér ljómandu fínt straujárn í Fjallakofanum og svo fór ég í Sportval þar sem sölumaðurinn var nokkuð sammála mér um klístrið og sagði t.d. að ef það er klaki í brautinni þá virkar ekkert nema klístur. Staujárnið hef ég ekki ennþá notað en klístur fór undir í gær og ég fékk þetta líka ljómandi fína grip og ágætt rennsli í nokkuð margfrosnum snjónum í gærkvöldi í Bláfjöllum. Fór ekki fjölbreyttar leiðir en náði betri tíma en nokkurn tímann áður á öllum leiðum sem ég fór.
Búðin með misheppanaða sölufólkinu var sem sagt margrómuð gönguskíðaverslun en samt hvorki Fjallakofinn né Sportval.
Annars er það að frétta af klístrinu að það reyndist ekki alveg eins vel daginn eftir þegar það var eitthvað snjófjúk og nýjan snjó skóf í brautina jafnharðan. Færið þá annars bara ekkert sérstakt og ég skipti á skinnaskíðin.
Svo varð það verra í dag þegar ég var kominn í skásta frakkann minn og ætlaði í bæinn til jólagjafainnkaupa að skíðin með klístrinu ákváðu að koma með. Þau festu sig við frakkann fína og voru bara komin með mér hálfa leið út í bíl þegar ég rak þau til baka aftur. Frakkinn fékk svo blettahreinsimeðferð og handþvott í kjölfarið. Held að hann verði jafngóður á eftir en það er ljóst að klístur er ekki skemmtilegt nema bara þegar það er undir miðjunni á skíðunum og klessist við klakkann til að gefa góða spyrnu.
Tuesday, December 22, 2020
Tuesday, November 24, 2020
Skíðin preppuð
preppipreppiprepp... eitthvað á þetta að renna!
Og af því að ég fór eitthvað að tjá mig um skíðaprepp annars staðar, þá ætla ég að hafa pistilinn hér líka. Ég veit ekki hvort ég nái lágmarksviðmiðum. Þegar ég eignaðist áburðarskíði í lok skíðavertðíðarinnar á síðasta vetri fór ég fyrst að gera eitthvað í þessu. Mér fannst almennt að það dót sem var til í útivistarbúðum og var sérhannað til áburðargjafar væri fáránlega dýrt og ákvað því að prófa að fara ódýrari leiðir. Straujárn úr Elkó. Átti fyrir nokkuð gott heimilisstraujárn en fór í Elkó og keypti ódýrasta straujárnið sem ég fann. Kostaði líklega innan við fjórðung af meðal skíðastraujárni.Nota gamla spýtukubba undir skíðið og festi skíðið með borðaþvingu úr BYKO sem kostaði líklega eitthvað um 10 til 20% af algengu verði á þvingusetti í skíðabúð.
Nota gamalt stabílt vinnuborð í staðinn fyrir sérhannað borð á uppundir 50 þúsund.
Nota svo held ég annað nokkurn veginn eftir bókinni, þ.e. base og áburð (rennslis og grip), kork og sköfur (flata sköfu og sköfu til að ná upp úr miðjufarinu). Þarf líklega að verða mér útum betri bursta og hreinsiefni til að ná gömlum áburði af. Reikna með að kaupa það í skíðabúð.
Ég sé almennt ekki að ég myndi ná neitt meiri árangri með sérhönnuðum skíðaþvingum en eflaust væri skíðastraujárn meðfærilegra en það sem ég er að nota og stillingar á því þannig að ég gæti stillt hitastigið eftir leiðbeiningum framleiðenda áburðarins. Það er reyndar galli á straujárninu að í Elkó fengust bara gufustraujárn og ég nennti ekki að leita að straujárni annars staðar. Gufufítusarnir á straujárninu eru auðvitað aldrei notaðir en holurnar sem gufan á að fara út um, þær eru til trafala.
Svo má það líka fylgja sögunni að það þarf að bera á skíðin þannig að þau renni almennilega. Ég bætti mig sem sagt talsvert þegar ég var búinn að bera á skinnskíðin sem ég er mest á. Og einnig að fljótandi áburður sem er einfalt að bera á hvar sem er, gerir smá gagn á meðan hann er á skíðunum en það eru fáir kílómetrar sem hann helst á er mín reynsla af því. Svo má reyndar líka benda á það að skoðanir hafa verið skiptar um hvort það þurfi eitthvað að vera að bera á... http://www.gyl.fi/rennslisvax-er-haettulegt-brudl/
En mín reynsla er sú að skíði með áburði renni talsvert betur. Jafnvel þó það sé ekkert endilega hárréttur áburður í öllum tilfellum eða neitt sérstaklega merkilegur ábyrður sem er verið að nota. Síðan eru nokkuð góð Youtube video til, eins og þessi hér:
- Rennslisáburður borinn á: https://www.youtube.com/watch?v=YX-wiE3oItg
- Gripáburður borinn á: https://www.youtube.com/watch?v=SDASQACrCZ4
- Gömul skíði, skítug og ógeðlsleg hreinsuð og áborin að nýju https://www.youtube.com/watch?v=lW4K8XpBPck...
......
https://www.facebook.com/eirasi/posts/10223983289191096Svo einhverjum dögum seinna var ég reyndar búinn að kaupa mér fokdýrt straujárn... komst eiginlega að því að það er ekki viturlegt að eyðileggja skíði fyrir einhverja hundraðþúsundkalla af því ég tímdi ekki að kaupa straujárn á einn eða tvo tíuþúsundkalla.
Friday, November 20, 2020
Matarmenn á fjarfundi
Fjarfundur í gangi í eldhúsinu
Á þessum dæmalausa vinnstað sem ég vinn hjá að starfsmannafélagið var með matreiðslunámskeið í fjarfundi! Ég náði reyndar bara forréttinum þar sem það var ferðalagsundirbúningur í gangi á sama tímaF-. Forrétturinn var rúmlega þokkalegur eins og sést á þessum myndum en var ekki síðri til snæðings! Svo var eiginlega of margt að gera í einu [annað en að elda og fylgjast með á zoom] þannig að ég vona að ég ég finni upptöku fyrir aðalréttinn! En þetta var alveg massasniðugt!
Saturday, November 14, 2020
Sunday, November 08, 2020
Á skógarstíg í Heiðmörk
Tekið í gegnum ultravíðlinsuna á símanum mínum sem bjagar dálítið það sem er í köntunum. Kálfarnir á mér eru sem sagt ekki alveg svona samanreknir í alvörunni.
......
Wednesday, July 15, 2020
Eitt og annað sem er gert í sumarfríinu. Mamman fór eitthvað að tala um gamlar filmur í gær og það varð til þess að rifjaðir voru upp gamlir taktar í myrkraherbergi. Ótrúlegt nokk að 30 ára gamall stækkari fór bara í gang eftir líklega um 20 ára notkunarleysi. Flest sem til þurfti fannst en svo reyndar fór stækkarinn að mylja einhver plasttannhjól en hvað um það... það tókst að búa til nokkrar myndir! Uppundir 100 ára gamlar myndir af mismunandi stórum filmum, runnu út á splunkunýan ILFORD ljósmyndapappír!
Komst reyndar að því að myrkraherbergisvinna er eitthvað dálítið eins og að hjóla. Ef maður hefur einu sinni lært þetta - almennilega þá gleymist það ekki svo glatt!
Komst reyndar að því að myrkraherbergisvinna er eitthvað dálítið eins og að hjóla. Ef maður hefur einu sinni lært þetta - almennilega þá gleymist það ekki svo glatt!
Tuesday, July 14, 2020
Heilsdagsmorgunganga ofan Fellsmerkur
10. júlí 2020
...... Sumarið 2020 er eitthvað frekar lauslega skipulagt. Hef ágætt sumarfrí en ekkert skipulag niðurneglt fyrirfram. Ef maður vinnur að mestu við skipulag þá er kannski best að hafa sumarfríið óskipulagt. En það var farið í Fellsmörk tvisvar með stuttu millibili og það seinna með þá gömlu með. Ég hafði svo bara daginn áður farið í fjallgöngukönnunarleiðangur á Stóra-Björnsfell með smá viðkomu við Langjökul hvar ég tók mynd af einum fossi meðal annars. Júlía í Fellsmörk stakk uppá að sá foss væri í Holtsá þannig að ég tók einhverja skyndiákvörðun um að rölta uppað fossi sem mig minnti að væri þar einhvers staðar nálægt. Í minningunni lítill foss í gljúfri og varla í Holtsá fannst mér. Eitthvað var minnið að svíkja mig því mér gekk ekki vel að finna fossinn þann og gekk næstum upp að Mýrdalsjökli. Hafði lagt af stað í stutta morgungöngu upp að þessum fossi um kl. 9 um morguninn eftir einn kaffibolla og hálfa dós af grískri jógúrt.Á niðurleiðinni meðfram ánni kom ég að þessum flotta fossi í sjálfri Holtsá. Dinglaði aðeins fótunum á bjargbrúninni en var svo sem ekkert í neinni sérstakri hættu að fljúga þar framaf. Flottur foss og kom á óvart fannst mér.
Svo líklega daginn eftir fór ég að skoða þetta eitthvað nánar og sá þá að þetta var auðvitað fossinn sem ég var að leita að en þegar ég hafði farið að honum áður hafði ég gengið upp með Holtsánni og bara fengið mátulega stuttan göngutúr þá. Núna hins vegar varð þetta eiginlega að dagsgöngu og ekki kominn til baka fyrr en um hálf fimm síðdegis. Hafði sem betur fer haft með mér bæði hádegismat og síðdegiskaffi. Raunar boðið uppá það sama á báða málsverði: Vatn og Snickers!
Monday, July 06, 2020
Ein mynd en tveir á flugi
Tveir sem hittust á flugi yfir Holtsá í Fellsmörk. Vissi reyndar ekki af spóanum fyrrn en ég fór að skoða myndirnar eftirá. Báðir sluppu frá þessu ómeiddir en spóar ku vera e.t.v. næst skæðastir í árásum á dróna, á eftir tjaldinum.
Sunday, May 31, 2020
Mavic Mini
Það liðu ekki margir dagar þangað til ég var kominn með nýtt drónaverkfæri í hendurnar.
....
Saturday, May 30, 2020
Dróninn minn dýri - ódýri
Það var líklegast fyrir um tveimur og hálfu ári síðan - ég kominn í fullt starf og átti allt í einu pening sem ég gat bara eytt í einhverja vitleysu án þess að hafa af því neinar allt of miklar áhyggjur. Hafði langað í einhvers konar Gopro myndavél og sá að hjá Símabæ heitnum var hægt að kaupa einhverja Acme myndavél sem átti að gera svipaða hluti en kostaði samt eitthvað mikið minna. Endaði á að versla mér slíka myndavél og sá þá að þeir voru líka að selja dróna fyrir eitthvað lítinn pening. Og aukin heldur var hægt að kaupa nokkuð stóran dróna sem var sérstaklega hugsaður til að bera myndavélina sem ég var að kaupa. Eftir spekúlasjónir ekki allt of miklar keypti ég drónann upp á grín bara líka. Kostaði held ég kannski bara svona 15 þúsund - eða kannski eitthvað aðeins meira... hann var í öllu falli ekki mjög dýr.
Spenningurinn yfir drónanum var samt ekki meiri en svo að hann fór bara í kassanum upp á háaloft og þar fékk hann að dúsa í tvö og hálft ár... þangað til um síðustu helgi.
......
....
Wednesday, March 25, 2020
Heimavinna í covid 19
Það er ýmist talað um skrýtna tíma og fordómalausa tíma [spurning hvort þetta hafi átt að vera fordæmalausir tímar sem er það sem hefði átt að vera talað um en margir rugluðu með að þetta væru fordómalausir tímar - sem þeir vonandi eru líka :-)]. Líklega eru þeir hvort tveggja. Núna er ég að bögglast við það að halda fókus við að vinna heima og búinn að gera meira og minna í líklega heila viku. Var eitthvað á á vinnustaðnum í síðustu viku en afskaplega lítið í þessari viku.
Líklega má ég heita heppinn. Það er ekki margt sem er að trufla mig í heimavinnunni nema stundum kannski gól hundsins á neðri hæðinni og svo ef krakkaskaranum í leikskólanum á móti er hleypt út. En þau á neðri hæðinni eru sjálf eitthvað að vinna heima og þá hundurinn hinn rólegasti og líklega eitthvað minna að gerast í leikskólanum en venjulega. Aðal vandamálið hjá mér er þá að halda fókus.
Í framhaldi af síðustu færslu um spár um útbreiðslu þá kom fram það sem var alveg augljóst að spáin um 2000 smitaða í lok maí gat engan veginn staðist. Eitthvað hærri spár er núna verið að gefa út en ég er samt nokkuð viss um að þeir spekingar eru með frekar veikan grunn til að gefa út spá. Það eina sem við getum huggað okkur við er að á íslandi geta ekki margar milljónir smitast eins og á væntanlega eftir að gerast í fjölmennari ríkjum - ef það er ekki þegar komið í einhverjar þannig tölur. Síðan er líka breyta í þessu að hver og einn sem smitast er varla smitaður nema í eitthvað rúmlega tvær vikur þannig að ef margir smitast þá gengur þetta hratt yfir - en með miklum afleiðingum ef heilbrigðiskerfið ræður ekki við ástandið.
Var sæmilegur í gær og verðlaunaði sjálfan mig svo með hjólatúr í Elliðaárdal á honum Órangtútan. Það má játast að ég er að verða ágætlega sáttur við hann. Hann stóð sig a.m.k. afar vel í gær!
Friday, March 20, 2020
Það geisar farsótt
Smit til hádegis 20 mars 2020 skv. covid.is
Ég ætla mér ekki að vera að mála skrattann á vegginn en ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvernig fróðir aðilar gátu gefið út spá í gær að í lok maí, eftir um 70 daga væru eitthvað á bilinu 1000 til 2000 búnir að smitast.Fyrir hálfum mánuði þá voru Danir með færri greinda en við á Íslandi, þ.e. færri einstaklinga. Það sagði mér að smitaða skíðafólkið í Danmörku væri bara út um allt hjá þeim enda þurftu þeir að bregðast mjög hart við sem þeir gerðu fyrir viku síðan þegar kúrfan þeirra hljóp upp. Núna er okkar kúrfa að hlaupa upp og ég skil ekki hvernig er hægt að fá út þessari þróun að það verði ekki meira en 2000 Íslenindingar komnir með smit í lok maí.
Wednesday, February 19, 2020
Að skrönglast á gönguskíðum yfir 30 km
Þrír Strompar og nokkrar Leirur inn á milli
Hafði ætlað að fara eitthvað langt á sunnudeginum en varð latur þá en fór í staðinn langan túr í gær. Ætlaði bara að fara mjög rólega en það komst smá kapp í minn þegar fyrsti strompahringur virtist þróast á góðum hraða miðað við aldur og fyrri störf (aldur hár og fyrri störf í þessu samhengi mestmegnis á utanbrautarskíðum), enda færið frekar gott þarna í upphafi. Verð að játa að minns var dálítið búinn á því undir lokin og tveir Leiruhringir í restina afar rólegir voru bara til að ná þessu uppfyrir 30km. Reyndar hafði færið líka spillst og sporið horfið undir nýsnævi á köflum. Heitur pottur í Árbæjarlaug var ljúfur á eftir!Datt á fyrstu tveimur Strompahringjunum og held að það hafi verið á nákvæmlega sama stað!
Skrambi þreyttur svo daginn eftir.
Engar myndir sem sýna hetjuverkið en þetta er samt einhvers staðar á Strava.
Monday, February 17, 2020
Afmæli í dag en skíði í gær
Það ku vera afmæli hjá mér í dag en það voru Bláfjöll í gær í Edilonsblíðu. Strava heldur því fram að ég hafi mætt eða farið framúr fullt af fólki sem ég á að þekkja! Ég annars ágætlega sáttur við það að hafa farið Strompahringinn nokkuð klakkalaust og án þess að gefast upp fyrir niðurferð brekknanna... jú maður segir brekknanna - athugaði það á bin.
Mætti líka Jódu, sem ég hefði nú átt að fatta því það var þar sem Landvættirnir voru að æfa sig í einni brekkunni. En ekki sá ég hana fyrr en ég var kominn heim og skoðaði á Strava. Kjartan reyndi að leggja mér lífsreglurnar í einni brekkunni. Held reyndar að það hafi eitthvað virkað alveg þannig séð. Fannst ég hafa séð Dóra Lúðvígs eitthvað að brölta en var ekki viss en samt líklegt því konan hans var víst þarna á harðaspretti skv. Stravanu.
Ég er annars vel sáttur með það að hafa náð að fara þennan Strompahring án þess að fara alveg í kerfi í þessum brekkum sem eru á honum. Held eiginlega að ég hafi verið alveg ásættanlegur miðað við aðra þarna. Þetta er kannski bara eitthvað að koma hjá mér!
Svo eftir að ég var farinn heim þá var víst Gunninn mættur á staðinn.
Saturday, February 15, 2020
Dótið vígt
Farið með reiðskjótann í Heiðmörk
Jæja... þetta fokdýra torfæruhjól var víst ekki keypt bara til að vera inni í stofu en það var víst búið að eyða vikunni þar frá því að það komst í mínar hendur. Veðrið var reyndar ekki alveg að leika við mig og tímaskorturinn sem mér tekst alltaf að verða mér útum var að hrjá mig eitthvað. Reyndar frekar léleg hreyfivika og þegar ég hefði kannski komist á skíði þá var farið í badminton.
Svo var ég eitthvað að vandræðast með dekkin á gripnum. Ég einhvern veginn hélt að þetta væri slöngulaust sem hefði kallað á eitthvað vesen - fyrir utan að líklega voru þessi nagladekk sem ég verslaði mér bara fyrir slöngur. Þetta slöngulausa hefði a.m.k. alltaf kallað á eitthvað vesen og líklega subbuskap við að koma nögladekkjunum undir.Eftir að hafa að að lokum bara hringt í Markið þá var niðurstaðan sú að það væru bara slöngur þarna. Mér því ekkert að vanbúnaði að henda nögladekkjunum undir. Gekk ágætlega og gataði ekki nema eina slöngu - einu sinni - en á tveimur stöðum... ein bót ætti nú samt að duga.
En þá hvernig þessi hjólfákur var að virka fyrir mig. Ég vissi eiginlega ekkert alveg á hverju ég ætti að eiga von og verð að játa að þetta var nú ekkert rosalega mikið öðru vísi en gamla fjallahjólið. Kannski ekkert alveg að marka því það var auðvitað snjór og þannig séð ekkert góð færð og kannski ekki alveg hægt að bera saman við að vera utan stíga eitthvað.
Verð samt að segja að ég er ekkert rosalega glaður með allt. Er ekki ennþá neitt mikið að fíla þessa gíra sem eru 1x12. Hef verið með 3x9 á gamla hjólinu sem reyndist mér vel. Var alltaf mjög auðvelt að skipta á milli stóru framhjólanna og ég notaði þau eiginlega sem eins konar drif. Annað hvort var ég í torfærum á minnsta tannhjólinu, á sæmilegum slóða á miðtannhjólinu eða á greiðum stíg á stærsta tannhjólinu. Þurfti að skipta vina þrisvar eða fjórum sinnum kannski á ríkishringnum. Ég held að þetta nýja hjól sé ekki með sama svið á gírunum. Sá léttasti er ekki eins léttur og sá þyngsti er ekki jafn þungur. Svo skemmdi talsvert fyrir að það er eitthvað stillingarvesen á gírunum þannig að keðjan tollir ekki almennilega á tveimur stærstu tannhjólunum. En það er væntanlega eitthvað sem ég læt þá í Markinu stilla fyrir mig.
Monday, February 10, 2020
Ætli það sé ekki að vera komið gott í dótadögunum!
Það er nú líklega ekki hægt að segja að ég hafi verið að ana að neinu varðandi nýjasta dótið. Meðgöngutíminn er búinn að vera nokkur ár... nokkuð mörg ár og kvikindið er búið að skipta um eðli nokkrum sinnum á leiðinni. Er búið að vera til skiptis racer og cyclocross hjól en endaði svo á því að vera það sem ég kallaði tveggja demparahjól en einn misvitur hló að mér og sagði að eiginlega öll hjól með dempara yfir höfuð væru með tvo dempara, tvo framdempara þá... ég væri væntanleg að tala um fulldempað hjól. Það má kannski til sans vegar færa að það megi kalla það fulldepmað hjól en hitt er rugl að það séu tveir demparar að framan því oft gormur en vökvadrasl hinum megin. En hvað um það.
En það eru held ég í öllu falli komin svona tvö ár síðan ég skipti síðast um skoðun og ákvað að mig langaði mest af öllu í eitthvert voðalegt fulldempað fjallahjól. Eitthvað var pælt og spekúlerað og yfirleitt virtist vera gáfulegast að kaupa þetta á vefnum einhvers staðar útlendis frá en einhvern tímann síðasta haust sá ég að það var víst hægt að fá hjól á alveg fínu verði með að panta í gegnum Markið hér heima og vera þá kannski með einhverja þjónustu ef eitthvað kæmi uppá. Var svona eiginlega búinn að ganga frá þessu síðasta haust en það varð líklega athyglisbrestinum að bráð og ekkert varð úr því þá. Svo var látið til skarar skríða einhvern tímann í nóvember líklega en mér tókst víst að telja sjálfum mér trú um að hjólið væri uppselt hjá þeim og það frestaðist. Svo loksins núna eftir áramótin - líka þegar búið var að lækka virðisaukaskattinn á fyrsta 200 þúsundkallinum í hjólinu, þá var gengið frá þessu. Þriggja vikna afhendingartími átti að klárast miðja þessa viku og þeir hringdu í mig uppúr hádeginu í dag og hjólið komið!
Eins og ég sagði við þá í búðinni með talsverða eftirvæntingu í röddinni: Núna verður sko gaman!
En það eru held ég í öllu falli komin svona tvö ár síðan ég skipti síðast um skoðun og ákvað að mig langaði mest af öllu í eitthvert voðalegt fulldempað fjallahjól. Eitthvað var pælt og spekúlerað og yfirleitt virtist vera gáfulegast að kaupa þetta á vefnum einhvers staðar útlendis frá en einhvern tímann síðasta haust sá ég að það var víst hægt að fá hjól á alveg fínu verði með að panta í gegnum Markið hér heima og vera þá kannski með einhverja þjónustu ef eitthvað kæmi uppá. Var svona eiginlega búinn að ganga frá þessu síðasta haust en það varð líklega athyglisbrestinum að bráð og ekkert varð úr því þá. Svo var látið til skarar skríða einhvern tímann í nóvember líklega en mér tókst víst að telja sjálfum mér trú um að hjólið væri uppselt hjá þeim og það frestaðist. Svo loksins núna eftir áramótin - líka þegar búið var að lækka virðisaukaskattinn á fyrsta 200 þúsundkallinum í hjólinu, þá var gengið frá þessu. Þriggja vikna afhendingartími átti að klárast miðja þessa viku og þeir hringdu í mig uppúr hádeginu í dag og hjólið komið!
Eins og ég sagði við þá í búðinni með talsverða eftirvæntingu í röddinni: Núna verður sko gaman!
Monday, February 03, 2020
Hálft Fossavatn í Heiðmörk
Hún var heldur stuttaraleg gönguferðin á Álút með FÍ laugardainn var, þar sem ég sneri við með hluta hópsins áður en endamarkinu var náð. Ég greip því að æfa mig betur fyrir Fossavatnsgönguna. Markmiðið var að fara hálfa vegalengdina og sjá hvernig það kæmi út hjá mér. Það voru því farnir heilir þrír hringir og aðeins betur en það þannig að 25 km næðust á track. Það gekk allt saman eftir og var ekkert rosalega erfitt þannig séð. Reyndar vel glaðhlakkalegur á myndinni að ofan eftir svona 3 km en aðeins þreyttari þegar dimmt var orðið og Venus varð mitt kennimark eftir um 20km eins og á neðri myndinni.
Var svo eitthvað þreyttur þegar heim kom en frekar ónýtur daginn eftir. Þegar þetta er skrifað daginn þar á eftir var ég orðinn nokkuð góður aftur og tímaleysi helst að koma í veg fyrir að taka eins og einn hring. Ætla nú samt að gera ráð fyrir að ná því enda held ég að snjórinn láti á sjá á morgun.
Sem fyrst þarf ég svo að skrölta annað hvort fjóra hringi eða þá fara i Bláfjöll og þvælast þar um og ná 30km. Þetta hlýtur allt að koma. Aðalvandamálið verður væntanlega samt að finna sér gistingu þarna fyrir vestan, sýnist það allt vera í tómu tjóni.
Var svo eitthvað þreyttur þegar heim kom en frekar ónýtur daginn eftir. Þegar þetta er skrifað daginn þar á eftir var ég orðinn nokkuð góður aftur og tímaleysi helst að koma í veg fyrir að taka eins og einn hring. Ætla nú samt að gera ráð fyrir að ná því enda held ég að snjórinn láti á sjá á morgun.
Sem fyrst þarf ég svo að skrölta annað hvort fjóra hringi eða þá fara i Bláfjöll og þvælast þar um og ná 30km. Þetta hlýtur allt að koma. Aðalvandamálið verður væntanlega samt að finna sér gistingu þarna fyrir vestan, sýnist það allt vera í tómu tjóni.
Saturday, January 11, 2020
Ný skíði!
Fjallakofinn heimsóttur en þar fást núna utanbrautargönguskíði, stálkanta með skinnum. Verslað í hádeginu og Helmut snillingur búinn að setja bindingarnar á um kaffileytið. Þá var ekkert að gera nema prófa græjurnar strax enda veðrið orðið allt í lagi þegar leið á daginn. Það var farið í Heiðmörk.
Hin skemmtilegustu skíði og náði ágætis rennsli þó þau reyndar renni ekki eins brjálæðislega og góð brautarskíði með skinnum.
Mér telst annars til að þetta sé fjórða utanbrautagönguskíðaparið sem ég eignast! Verður reyndar notað í bland við par númer 3 sem er enn í ágætu standi en er rifflað.
Svo verður víst að játast að ég stóð mig ekki sérlega vel sem staðal Íslendingur í dag. Á meðan ég þrammaði um Heiðmörkina, utan brautar aðallega og út um allt þá átti ég víst að vera að horfa á beina útsendingu í sjónvarpinu hvar íslenska handboltalandsliðið náði að leggja Dani á Evrópumóti held ég í handbolta. Ekki slæmt þar sem Danir áttu eiginlega að vera bestir af öllum á mótinu. Kannski einhver skýring að þeir voru búnir að missa þjálfarann sinn til Íslands.
Hin skemmtilegustu skíði og náði ágætis rennsli þó þau reyndar renni ekki eins brjálæðislega og góð brautarskíði með skinnum.
Mér telst annars til að þetta sé fjórða utanbrautagönguskíðaparið sem ég eignast! Verður reyndar notað í bland við par númer 3 sem er enn í ágætu standi en er rifflað.
Svo verður víst að játast að ég stóð mig ekki sérlega vel sem staðal Íslendingur í dag. Á meðan ég þrammaði um Heiðmörkina, utan brautar aðallega og út um allt þá átti ég víst að vera að horfa á beina útsendingu í sjónvarpinu hvar íslenska handboltalandsliðið náði að leggja Dani á Evrópumóti held ég í handbolta. Ekki slæmt þar sem Danir áttu eiginlega að vera bestir af öllum á mótinu. Kannski einhver skýring að þeir voru búnir að missa þjálfarann sinn til Íslands.
Wednesday, January 01, 2020
Það er komið 2020
Gleðilegt ár 2020. Takk fyrir árið 2019 og hér eru brot af ýmsu frá því ári þar sem átti bara að finna eina mynd frá hverjum mánuði... en það var ekki nokkur vegur að láta bara eina mynd frá sumum góðum mánuðum þess árs og eiginlega fáránlega margt sem vantar á þessar myndir! Sem þýðir bara að 2019 var gott ár. 2020 verður það eflaust líka!
Subscribe to:
Posts (Atom)