Tuesday, December 22, 2020

Líklega met í lélegri sölumennsku

Í framhaldi af því að ég fór að reyna að gera mig gildandi í skíðapreppinu þurfti ég að verða mér úti um einhvern búnað, efni og dót. Eftir að hafa gúgglað komst ég eiginlega að tvennu. Ég ætti sennilega að fá mér alvöru skíðastraujárn því þó að skíðastraujárn kosti fáránlega mikið miðað við venjuleg straujárn þá er það líklega þess virði að eyða 20 þúsund krónum í straujárn ef það getur komið í veg fyrir að maður eyðileggi skíði fyrir mörg hundruð þúsund.

Hitt sem ég komst að er að það þarf líklegast klístur en ekki bara gripáburð til að geta gengið klassíska göngu á áburðarskíðum af einhverju viti. Oftast er talað um klístur með einhverjum hryllingi hér á Íslandi og að það sé eitthvað sem maður neyðist til að nota á áburðarskíði þegar kemur fram á vorið og snjórinn er að verða gömul skítug drulla. það er jú líklegast rétt að þá verður að vera með klístur - enda voru það þær aðstæður sem komu í veg fyrir ánægjulegar skíðaferðir hjá mér síðasta vor - en það er gott að nota klístur sýnist mér mun oftar.
Málið er nefnilega það, eftir því sem ég skoðaði fleiri Youtube video að þessi venjulegi gripáburður virkar bara vel á nýja snjókristalla sem eru beittir og geta gefið gott viðnám við gripáburðinn. Ef kristallarnir hafa brotnað, eru orðnir gamlir (nokkurra daga gamlir) eða hafa jafnvel bráðnað og frosið aftur, þá virkar gripáburður lítið til að gefa grip þó það sé frost og ekkert virkar almnennilega af efnum borin á skíðin, nema hið voðalega klístur.

Ég fór sem sagt á stúfana í eina af viðurkenndustu gönguskíðaverslunum höfuðborgarsvæðsins. Ætlaði að fá mér klístur, hugsanlega einn eða tvo auka stauka með gripáburði, einn auka kork, bursta og sköfu. Svo ætlaði ég líka að skoða hvort þau ættu fyrir mig straujárn á sanngjörnu verði.
Jæja... það var auðvitað biðröð inn í búðina og ekkert of mikil afgreiðsla þegar inn var komið. Ég fann nú samt hvar áburðardótið var. Samtalið var einhvern veginn svona:
Ég: Já, ég er að hugsa um að fá mér klístur til að fá almennilegt grip.
Afgreiðslukonan: Ha, klístur... það er nú aðallega notað bara á vorin þegar snjórinn er allur orðinn bráðinn... ertu viss um að þú æltir að fá þér klístur?
Ég: Já, ég ætla að eiga klístur líka til að nota þegar snjórinn er ekki nýr
Afgreiðslukonan: Já en núna er bara nýr snjór... vantar þig ekki ferkar svona stauka?
Ég: Ha, hvað áttu við með stauka?
Afgreiðslukonan: Nú, svona stauka sem allir eru að fá sér núna. Þessir hér eru vinsælastir.
Ég skoða þessa stauka og sé fljótleg að þetta er það sem ég kalla gripáburð eða upp á ensku gripvax... og það er það sem ég á og virkaði ekki nógu vel og mig langaði til að fá klístur. Sagði því líklega: Já en ég var að hugsa um að f
Ég (dálítið þóttugur og snúðugur): Jæja ef þú vilt ekki selja mér klístur þá er það allt í lagi ég get bara farið eitthvað annað.
Afgreiðslukonan: Fölnar eitthvað og veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið.

Man svo sem ekki hvernig þetta þróaðist alveg en hún sótti einhvern annan sem vissi meira og reyndar talsvert mikið um gönguskíði. Hann hins vegar talaði ekkert of mikla íslensku og var ekkert að skipta í ensku þannig að við skildum hvorn annan ekkert of vel. Það var þarna reyndar eitthvað ótilgreint kit með einni klísturtúbu og einherjum tveimur gripvax staukum. Ekki alveg það sem ég var að spá í að fá mér þar sem mig vantaði a.m.k. ekki bara eitthvað gripvax í einhverju hallærislegu kitti.
Held samt að ég hafi náð að kaupa einn bursta af þeim. Sérfræðingurinn seldi mér einhvern alhliða bursta sem hann sagði að virkaði illa á allt.
Heiðarleg og frábær sölumennska.

Það má alveg geta í eyðurnar um hvaða búð þetta var en ég fór seinna annað og keypi mér ljómandu fínt straujárn í Fjallakofanum og svo fór ég í Sportval þar sem sölumaðurinn var nokkuð sammála mér um klístrið og sagði t.d. að ef það er klaki í brautinni þá virkar ekkert nema klístur. Staujárnið hef ég ekki ennþá notað en klístur fór undir í gær og ég fékk þetta líka ljómandi fína grip og ágætt rennsli í nokkuð margfrosnum snjónum í gærkvöldi í Bláfjöllum. Fór ekki fjölbreyttar leiðir en náði betri tíma en nokkurn tímann áður á öllum leiðum sem ég fór.
Búðin með misheppanaða sölufólkinu var sem sagt margrómuð gönguskíðaverslun en samt hvorki Fjallakofinn né Sportval.
Annars er það að frétta af klístrinu að það reyndist ekki alveg eins vel daginn eftir þegar það var eitthvað snjófjúk og nýjan snjó skóf í brautina jafnharðan. Færið þá annars bara ekkert sérstakt og ég skipti á skinnaskíðin.

Svo varð það verra í dag þegar ég var kominn í skásta frakkann minn og ætlaði í bæinn til jólagjafainnkaupa að skíðin með klístrinu ákváðu að koma með. Þau festu sig við frakkann fína og voru bara komin með mér hálfa leið út í bíl þegar ég rak þau til baka aftur. Frakkinn fékk svo blettahreinsimeðferð og handþvott í kjölfarið. Held að hann verði jafngóður á eftir en það er ljóst að klístur er ekki skemmtilegt nema bara þegar það er undir miðjunni á skíðunum og klessist við klakkann til að gefa góða spyrnu.

No comments: