Saturday, February 15, 2020

Dótið vígt

Farið með reiðskjótann í Heiðmörk


Jæja... þetta fokdýra torfæruhjól var víst ekki keypt bara til að vera inni í stofu en það var víst búið að eyða vikunni þar frá því að það komst í mínar hendur. Veðrið var reyndar ekki alveg að leika við mig og tímaskorturinn sem mér tekst alltaf að verða mér útum var að hrjá mig eitthvað. Reyndar frekar léleg hreyfivika og þegar ég hefði kannski komist á skíði þá var farið í badminton.

Svo var ég eitthvað að vandræðast með dekkin á gripnum. Ég einhvern veginn hélt að þetta væri slöngulaust sem hefði kallað á eitthvað vesen - fyrir utan að líklega voru þessi nagladekk sem ég verslaði mér bara fyrir slöngur. Þetta slöngulausa hefði a.m.k. alltaf kallað á eitthvað vesen og líklega subbuskap við að koma nögladekkjunum undir.Eftir að hafa að að lokum bara hringt í Markið þá var niðurstaðan sú að það væru bara slöngur þarna. Mér því ekkert að vanbúnaði að henda nögladekkjunum undir. Gekk ágætlega og gataði ekki nema eina slöngu - einu sinni - en á tveimur stöðum... ein bót ætti nú samt að duga.

En þá hvernig þessi hjólfákur var að virka fyrir mig. Ég vissi eiginlega ekkert alveg á hverju ég ætti að eiga von og verð að játa að þetta var nú ekkert rosalega mikið öðru vísi en gamla fjallahjólið. Kannski ekkert alveg að marka því það var auðvitað snjór og þannig séð ekkert góð færð og kannski ekki alveg hægt að bera saman við að vera utan stíga eitthvað.
Verð samt að segja að ég er ekkert rosalega glaður með allt. Er ekki ennþá neitt mikið að fíla þessa gíra sem eru 1x12. Hef verið með 3x9 á gamla hjólinu sem reyndist mér vel. Var alltaf mjög auðvelt að skipta á milli stóru framhjólanna og ég notaði þau eiginlega sem eins konar drif. Annað hvort var ég í torfærum á minnsta tannhjólinu, á sæmilegum slóða á miðtannhjólinu eða á greiðum stíg á stærsta tannhjólinu. Þurfti að skipta vina þrisvar eða fjórum sinnum kannski á ríkishringnum. Ég held að þetta nýja hjól sé ekki með sama svið á gírunum. Sá léttasti er ekki eins léttur og sá þyngsti er ekki jafn þungur. Svo skemmdi talsvert fyrir að það er eitthvað stillingarvesen á gírunum þannig að keðjan tollir ekki almennilega á tveimur stærstu tannhjólunum. En það er væntanlega eitthvað sem ég læt þá í Markinu stilla fyrir mig.

No comments: