Tuesday, November 08, 2011

Gúmmíraunir dekkjavikunnar ógurlegu

vikan sem var fyrir einhverjum vikum síðan


bótabætur

Það var fyrir tveimur vikum eða þremur að allt snérist um dekk og slöngur. Það var frost og ég ákvað að kominn væri tími á nögladekk undir antilópuna gráu (sem er reiðhjól ef einhver skyldi ekki vita það) og þetta var gert í snarhasti á sunnudagskvöldi og ég í leið í mat til pa og mö. Framdekkið fyrst og afturdekkið svo. Pumpað í og farið í einhver hjólavæn föt sem hæfðu hitastiginu utandyra. Lopipeysa, hjólahanskar og ullarvettlingar utan um hjólahanskana, ullarsokkar og hjólaskór... líklega hjólabuxur. Hef eflaust litið út eins og ég veit ekki hvað. En skipti ekki máli því úti var auðvitað myrkur og skipti svo enn minna máli þegar ég ætlaði að snarast á hjólið þar sem það var orðið alveg vita loftlaust afturdekkið. Ég fór því bara akandi til Breiðholtsins hvar soðin svið biðu mín.

Vanndræði númer 2
Svo leið einn dagur og annar og fari var að gera grín að mér í skólanum fyrir að kunna ekki að skipta um dekk. Það var þá tekið sig saman í andlitinu og afturdekkið tekið undan og þar voru tvö örlítil göt eftir einhvern skrambans klaufaskap mann sjálfs. Það var bætt í snarheitum, slangan sett inn á og inn í dekkið og dekkið á gjörðina alveg eins og lög gera ráð fyrir. Svo pumpað í og... mínútu seinna var allt lekið úr aftur.

Vandræði númer 3
Það var því ekkert um annað að ræða en að skoða þetta aftur. Núna voru engin klaufaskapargöt en þess í stað hafði ég greinilega ekki vandað bótavinnuna nógu mikið þar sem það lak með bótinni. Bótin rifin af og önnur sett á í staðinn og núna vandað til verksins. Öllu svo komið aftur fyrir á gjörðinni og pumpað í. Ég reyndar orðinn svo kvekktur að dekkið var ekki sett undir hjólið strax. Ætlaði að sjá hvort þetta hefði ekki heppnast.

Vandræði númer 4
Þetta virtist ætla að ganga og ég bara farinn að dunda mér eitthvað og hinn ánægðasti. Heyrðist þá skyndilega byssuskot ótrúlega nálægt. Engin frekari læti og ég skyldi ekki alveg hvað var að gerast. Hélt að það væri einhver að berjast eða eitthvað. En hvað beið mín þá á borðstofuborðinu (sem er notabene líka verkstæðisborð þar sem ég er löngu hættur að bjóða nokkrum manni eða konu í mat) annað en illilega kvellsprungið dekk, slangan rifin og tætt blasti við og dekkið farið af gjörðinni að hluta til! Eitthvað virðist ég hafa klúðrað þessu fjórða sinni. Átti það ekki að vera allt er þegar þrennt er?

Vandræði númer 5
Ég bölvaði dálítið og fann til nýja slöngu þar sem sú gamla var komin í hengla. Setti þá nýju undir og byrjaði að pumpa varlega í. Heyrðist þá eitthvað skrýtið hljóð og fór dekkið að renna af gjörðinni þó ekki væri mikið loft komið í. Virtist dekkið vera orðið eitthvað skrýtið. Ég hleyptí því sjálfur úr þessu sinni og tók dekkið af.

Vandræði númer 6
Eftir mikið vandvirkniverk kom ég dekkinu aftur á og var að reyna að fá dekkið til að tolla á og þurfti að beita einhverjum verkfærum við það. Endaði það auðvitað bara á einn veg. Ég reif gat á slönguna eina ferðina enn!

Vandræði númer 7
Nú var ég við það að gefast upp og fara bara með hjólið á verkstæði. Óttaðist samt of mikið grín starfsmanna Arnarins að ég herti upp hugann og reyndi einu sinni enn. Og viti menn. Dekkið komst á og slangan innaní og það var hægt að pumpa... mjög mjög varlega og ekkert gerðist. Og dekkið fór á hjólið og það var hægt að hjóla!

Jammsul.... nokkuð ljóst að ég á ekki að leggja hjólaviðgerðir fyrir mig!

Og merkileg tilviljun
Þessa sömu viku gerðist einnig tvennt annað sem tengist dekkjum. Annað var að auglýstur var markaður fyrir notuð dekk og hitt var að einher var líklega í lagersöfnun fyrir þá dekkjasölu og kom við í mínum foreldrahúsum hvar ég geymdi nagladekk Ventósins. Þau á ég ekki lengur utan eitt sem rummungunum þóttu ekki nógu fín!

No comments: