Wednesday, November 30, 2011

Próflestrarraunir

VMM_3125_Markarfljotsaurar

Þrír snillingar að skoða setög Markarfljóts í september 2011


Jæja... kominn tími til að blogga þar sem maður er kominn í próflestur. Loksins búinn að klára með tveimur öðrum miklum snillingum verkefni í setlagafræði. Fórum um áhrifasvæði Markarfljóts og tókum sand með steinvölum í plastpoka. Héngum utan í snarbröttum skriðum inn við Gíggjökul og mældum upp hvern einasta stein. Og viti menn, steinarnir bentu á jökulinn hér umbil allir sem einn.

Verkefnið er annars hér.


Er núna að lesa fyrir þetta skrambans próf og er eiginlega alveg að missa þolinmæðina yfir sumum ónákvæmum vísindum. Ásýndarlyklar sem vísa hver á annan og dularfull setlög sem bara blandast einhvern veginn saman á torskilinn hátt. En jújú í það heila þá er þetta ágætt.

En verð að játa að ég er farinn að hlakka strax til próflokanna þó þau séu eiginlega ekki byrjuð ennþá blessuð prófin!

Svo velti ég töluvert fyrir mér af hverju einn nágranni minn þarf endalaust að vera að slípa parketið sitt eða guð má vita hvað... sérstakelga ef miðað er við það að ég veit ekki betur en að hann hafi lagt parketið nýtt fyrir svona hálfu ári. Og svo er annar nágranni með sinn sígeltandi hund. Það eina sem ég get þó prísað mig sælan með er að það er ekki lengur verið að spila Celin Dion eða hvað sá poppari heitir alveg endalaust.

En ég er í öllu falli að fara að kaupa mér eyrnatappa.

Wednesday, November 09, 2011

jæja - ritgerðarsmíð lokið í bili

Jarðsaga Grænlands


Loksins búinn að klambra saman ritgerðinni, skila og flytja fyrirlestur.
Herlegheitin eru hér.

Alveg teygt sig í það ítrasta. Viðmiðið var 6 bls. og línubil ekki 2 heldur 1,5. Svindlaði línubilinu niður í 1,25 og svo eitthvað ekki jafn stór spássía og flestir voru með. En ritgerðin mín leit þá frekar út eins og grein í tímariti því þar tíðkast ekki 12 pkt letur eða stórt bil á milli dálka. Endaði víst í tvöföldum orðafjölda annarra sýnist mér. Ég fæ vonandi frekar gott fyrir en vont.

Fyrirlesturinn er hér. Hann átti að verða 5 mínútur en Esther sá held ég aumur á mér og hann fór upp í eitthvað rúmar 6 mínútur án þess að mér væri vikið af velli.

Er annars búinn að vera eitthvað of upptekinn við að snúast held ég í kringum sjálfan mig. Búinn aðv era að humma fram af mér að fara til tannlæknis og ekki fundist ég hafa tíma sem er hið versta mál. Fer loksins á mánudaginn. Vona að tönninni sem brotnaði í sumar sé viðbjargandi og að ég sé ekki heldur búinn að drepa alla í kringum mig með skemmdratannaandfýlu.

Tuesday, November 08, 2011

Í skólanum... í skólanum... er skemmtilegt að vera...

... eða hvað?

Þetta er hálf þreytt hjá mér núna þarna í hinum stórmerku jarðvísinum Háskóla Íslands. Það vantar eiginlega fleiri Hreggviða til að gera þetta allt nógu áhugavert. Núna eru kennararnir margir hverjir dálítið þannig að ég er bara farinn að þegja þunnu hljóði og skoða þess vegna Facebook eða hvur veit hvað. Á meria að segja að vera í tíma núna en fannst ekki taka því að hlusta á einn kennarann þusa glærurnar sínar. Þeir eru dálítið ef maður opnar munninn:
  • Taka spurningunni eins og truflun á kennslunin og óþarfa tímaeyðslu.
  • Fara í óskaplega vörn út af spurningu af því að kannski vita þeir ekki svarið nógu vel.
  • Rangtúlka það sem maður segir, leggja manni orð í munn og byggja fyrirlesturinn sinn á því að sýna fram á hvað maður hafi haft rangt fyrir sér... þannig að manni finnst eða finnst að manni eigi að finnast að maður sé auli.
Svo eru það fögin sem maður er í. Það dó dálítið af mér í gær þegar ég fékk það undarlega hlutverk að greina götunga í víðsjá eftir myndum sem ég hafði aldrei séð áður og fékk bara að bera með við hliðina á mér svona stundum. Götunga sem ég veit ekkert um, hef ekkert kynnt mér og enginn hefur í raun sagt mér frá... og verst er að ég hef engan áhuga á! Kannski fer þetta að verða gott og maður ætti bara að fara að fá sér einhverja vinnu aftur!

Annars á ég að vara að klára eina herjarins ritgerð um jarðsögu Grænlands. Er svona semi ánægður með hana en ekkert allt of samt. Aðal vandamálið er að gera grein fyrir jarðsögu Grænæands á 6 blaðsíðum og fá svo að flytja fyrirlestur um þessa fjögurþúsundmilljónára sögu á 5 mínútum. Mér telst til að jarðsaga Íslands yrði sögð á svona einni sekúndu miðað við sömu tímamörk.

Annars þá má halda því til haga að það er víst ár og dagur síðan mínar aðstæður breyttust hvað mest.

Æfintýri á gönguför

VMM_3821

Já, æfintýrin á gönguför gerast enn. Farið var með "Einu fjalli Ferðafélagsins á mánuði" á Hvalfell. Skemmtileg ferð.

Gúmmíraunir dekkjavikunnar ógurlegu

vikan sem var fyrir einhverjum vikum síðan


bótabætur

Það var fyrir tveimur vikum eða þremur að allt snérist um dekk og slöngur. Það var frost og ég ákvað að kominn væri tími á nögladekk undir antilópuna gráu (sem er reiðhjól ef einhver skyldi ekki vita það) og þetta var gert í snarhasti á sunnudagskvöldi og ég í leið í mat til pa og mö. Framdekkið fyrst og afturdekkið svo. Pumpað í og farið í einhver hjólavæn föt sem hæfðu hitastiginu utandyra. Lopipeysa, hjólahanskar og ullarvettlingar utan um hjólahanskana, ullarsokkar og hjólaskór... líklega hjólabuxur. Hef eflaust litið út eins og ég veit ekki hvað. En skipti ekki máli því úti var auðvitað myrkur og skipti svo enn minna máli þegar ég ætlaði að snarast á hjólið þar sem það var orðið alveg vita loftlaust afturdekkið. Ég fór því bara akandi til Breiðholtsins hvar soðin svið biðu mín.

Vanndræði númer 2
Svo leið einn dagur og annar og fari var að gera grín að mér í skólanum fyrir að kunna ekki að skipta um dekk. Það var þá tekið sig saman í andlitinu og afturdekkið tekið undan og þar voru tvö örlítil göt eftir einhvern skrambans klaufaskap mann sjálfs. Það var bætt í snarheitum, slangan sett inn á og inn í dekkið og dekkið á gjörðina alveg eins og lög gera ráð fyrir. Svo pumpað í og... mínútu seinna var allt lekið úr aftur.

Vandræði númer 3
Það var því ekkert um annað að ræða en að skoða þetta aftur. Núna voru engin klaufaskapargöt en þess í stað hafði ég greinilega ekki vandað bótavinnuna nógu mikið þar sem það lak með bótinni. Bótin rifin af og önnur sett á í staðinn og núna vandað til verksins. Öllu svo komið aftur fyrir á gjörðinni og pumpað í. Ég reyndar orðinn svo kvekktur að dekkið var ekki sett undir hjólið strax. Ætlaði að sjá hvort þetta hefði ekki heppnast.

Vandræði númer 4
Þetta virtist ætla að ganga og ég bara farinn að dunda mér eitthvað og hinn ánægðasti. Heyrðist þá skyndilega byssuskot ótrúlega nálægt. Engin frekari læti og ég skyldi ekki alveg hvað var að gerast. Hélt að það væri einhver að berjast eða eitthvað. En hvað beið mín þá á borðstofuborðinu (sem er notabene líka verkstæðisborð þar sem ég er löngu hættur að bjóða nokkrum manni eða konu í mat) annað en illilega kvellsprungið dekk, slangan rifin og tætt blasti við og dekkið farið af gjörðinni að hluta til! Eitthvað virðist ég hafa klúðrað þessu fjórða sinni. Átti það ekki að vera allt er þegar þrennt er?

Vandræði númer 5
Ég bölvaði dálítið og fann til nýja slöngu þar sem sú gamla var komin í hengla. Setti þá nýju undir og byrjaði að pumpa varlega í. Heyrðist þá eitthvað skrýtið hljóð og fór dekkið að renna af gjörðinni þó ekki væri mikið loft komið í. Virtist dekkið vera orðið eitthvað skrýtið. Ég hleyptí því sjálfur úr þessu sinni og tók dekkið af.

Vandræði númer 6
Eftir mikið vandvirkniverk kom ég dekkinu aftur á og var að reyna að fá dekkið til að tolla á og þurfti að beita einhverjum verkfærum við það. Endaði það auðvitað bara á einn veg. Ég reif gat á slönguna eina ferðina enn!

Vandræði númer 7
Nú var ég við það að gefast upp og fara bara með hjólið á verkstæði. Óttaðist samt of mikið grín starfsmanna Arnarins að ég herti upp hugann og reyndi einu sinni enn. Og viti menn. Dekkið komst á og slangan innaní og það var hægt að pumpa... mjög mjög varlega og ekkert gerðist. Og dekkið fór á hjólið og það var hægt að hjóla!

Jammsul.... nokkuð ljóst að ég á ekki að leggja hjólaviðgerðir fyrir mig!

Og merkileg tilviljun
Þessa sömu viku gerðist einnig tvennt annað sem tengist dekkjum. Annað var að auglýstur var markaður fyrir notuð dekk og hitt var að einher var líklega í lagersöfnun fyrir þá dekkjasölu og kom við í mínum foreldrahúsum hvar ég geymdi nagladekk Ventósins. Þau á ég ekki lengur utan eitt sem rummungunum þóttu ekki nógu fín!