Tuesday, December 04, 2007

Vel tækjum búinn á hlaupabrautinni


Fyrir svona nokkuð mörgum mánuðum átt maður afmæli og varð hálf áttræður myndi einhver segja. Fékk fullt í afmælisgjöf en aðallega samt pjening og gjafakort. Einn pjeningurinn var frá tengdafólkinu og loksins var honum komið í lóg...

Í vikunni á undan var sum sé farið á stúfana og verslað dulítið. Græfjufíkillinn eignaðist enn eitt tæki, nebblega GPS hlauparatæki!


Í kvöld var loksins vígbúist. Fyrst var að finna hlauparagallann. Hann má annars fara að endurnýjast eitthvað, orðinn hálf götóttur. En annars bara manni sjálfum að kenna að tíma ekki að hlaupa í bóndadagsgjafarstakknum eða hvunar sem mín elskulegust gaf mér rauðan stakk. Svo var það ipúðinn þannig að ég myndi ekki þurfa að hlusta á þögnina eða umferðarhávaðann. Var einhver að minnast á fuglasöng? Ég á hann á diski sko líka. Svo var nýja grægjan óluð á úlnliðinn og skundað af stað. Ekki var nú farið langt þegar garpurinn var orðinn eitthvað óstyrkur í göngulaginu. Nei það var nú ekki sakir drykkju. Reyndar var einhver vínkynning í vinnunni minni þar sem góflað var á súkkulaði með hóflegri víndrykkju en ég var ekki þar, ég var hér úti á götu eða gangstétt við það að renna á hausinn. Nei, hér var hún Hálka háskalega mætt til leiks og sýndi mér hversu sleip hún er orðin.

En auðvitað sá grægjufíkillinn hann ég við henni og fór upp á háaloft. Þar kennir margra grasa en allt í einstakri röð og reglu eða þannig. Að minnsta kosti var létt verk að finna mannbrodda, hlauparamannbroddana sko, gúmmídrusluna sem maður smeygir utan um skódrusluna.

Þá var mínum ekkert að vanbúnaði. Reyndar sóttist hlaupið hægt. Það var auðvitað þessi hálka þarna ennþá og líka myrkur út um allt. Og svo þurfti að kveikja á ipúðanum. Stilla á mátulegan tónstyrk og fara svo að hlaupa... og svo þurfti auðvitað að kveikja á nýju græjunni og svo var hægt að hluapa smá. En ekki mikið því það þurfti að skoða hvað grægjan sýndi. Svo þurfti að hagræða broddunum og svo líka athuga mússíkina í ipúðanum. Svo þurfti að breyta meiri stillingum á nýju grægjunni. Þetta sóttist eitthvað seint en maður skilaði sér nú samt í mark einhvern tíman eftir dúk og disk og sönnunargagnið er ekkert astraltertugubb heldur kort með hæðarriti og hvaðeina!


....annars skil ég ekki alveg af hverju HK var eitthvað svona sposk á svipinn þegar ég var að sýna henni hvað þetta er allt roslega frábært!

No comments: