Saturday, December 29, 2007

Eitthvað svona jólablogg

Það teldist líklega vera fimmti í jólum í dag eða eitthvað álíka. Einhver kallar það rest. Jú mig minnir að það hafi verið af minn. Hann talaði líka um þunna þrettánda. Okkar verður varla þannig nema kannski veðri farið að slá í allan jólamatinn sem er enn afgangs. Samt ekki miklar stórveislur hér hjá okkur, jú nema ein, sem var í ríflegri kantinum.

Daginn fyrir Þorlák var verið daglangt í Keflavíka að umstafla skotkökuskömmum merktu einu símafyrirtæki. Eitthvað of mikið þar á ferð fannst mér. Svo brennt upp í Heiðmörk til að sækja brunamannalaunin sem voru fólitré. Bónin frekar undarleg: "Má taka birkitré?" Skógarvörðurinn hafði aldrei heyrt neitt eins skrýtið og ákvað að við værum bara viðundur sem jú, mættu vel höggva sér birkigrein.

Þorláksmessa með ys og þys út af öllu og engu lang fram á kvöld.
Jólatréð svart skreytt í stofunni. Eðalis fína birkihríslan úr Heiðmörkinni. Ekki allir með svo fínt tré.

Svo kom aðfangadagur. Ég hálf ekki glaður yfir að jólagjöf HK var einhvers staðar að þvælast í Keflavík og UPS ekkert að vinna á aðfangadag. En jú, bara ágætt að þeir hafi fengið frí á aðfangadag eins og maður sjálfur.

Svo tveir jólamatar. Allt of seinn af öllu og fór ekki í neina messu. Svo smá hamborgarhryggur í Selbrekkunni og svo steikt gæs á Urðarstekknum

Svo jóladagur og svo annar í jólum og svo er tíminn að hlaupa frá mér eina ferðina enn. Er að sækja HK í Flugeldasölu í Gufunesbæ. Hrafnhildur á afmæli í kvöld og við þangað á eftir.

Svo er aumingja Gutti að fara yfirum út af öllum þessum sprengingum sem eru alls staðar hér um kring. Skyldi ég bera ábyrgð á þessu?



....

Thursday, December 20, 2007

Varðeldur, laufabrauð og biluð tölva

Hk making the fire
Það var eitthvað gert um helgina. Frábært veður á laugardeginum og við HK á leið á Elliðavatn þar sem HK var með landarðahlutverk að kveikja varðeld einn mikinn. Mikil jólastemning þó eitthvað basl hafi verið á okkur að láta spýturnar brenna almennilega en að lokum kviknaði nú ágætlega í þeim. Lesin fyrir okkur saga og svo var það kakó með vöfflu.

Ekki var svo dagurinn endasleppur því það var farið í Kópavoginn á eftir og skorið út laufabrauð af miklum móð!
makint the "bread of leafs"

Þarna má sjá hvar ég er langt kominn með að skera út eina herlega dómkirkju sem heppnaðist þetta líka með ágætum kostum, rétt eins og þessi mynd sem HK tók af herlegheitunum.

...

Svo er nú það helst að tölvuskriflið manns fór eitthvað að hökta í vikunni og harði diskurinn er núna bara spaghettí. Ekki gaman að því. En svo sem ekki mikill skaði þar sem backup mál öryggisstjórans eru ekki alveg í klessu!



....

Monday, December 10, 2007

Og það var farið í Fellsmörkur um þarsóðustu helgi...

Búrfell in the morning - Venus and The Moon
Það stóð nú aðallega til að gá hvort Músahúsið stæði undir nafni eða hvort það væri kannski bara fokið um koll!

Það var kvöld. Gúnninn enn eitthvað í bílnum. Stjörnubjart og enginn nema við tveir í allri Fellsmörkunni. Fyrsta verk að opna. Húsið ekki bara orðið múshelt heldur mannhelt líka. Eftir dálítinn þrýsting tókst loksins að opna... og jú... það kom fljótlega úrskurðurinn að húsið teldist loksins múshelt. Engin ummmerki neins staðar eftir neina einustu mús! En hvað var þetta... jú, undir stól, þar var músaskítur og hmmm voru ekki einhverjar leyfar af mús þarna undir stólnum. Hálfétin og ekki mjög geðsleg. Reyndar var svo lítið eftir af henni að hún gat ekki verið neitt verulega ógeðsleg. En hún fékk samt að fljúga út!

Það átti svo að vera einhver saga um þetta, aðallega hina músina sem er hér fyrir neðan sem fannst utflött kramin ofan í einni fötu undir annarri og orðin frekar illa þefjandi. Stór og feit, líklega eftir að hafa étið fyrri músina. En þetta er allt í lagi því þær eru báðar komnar út. Nema sú þriðja hafi verið þarna einhvers staðar...



....

Það var badminmót

Síðasta föstudag


Og minn að skepöleggja eins og hann átti lífið að leysa. Hinn helmingurinn af nefndinni í útlandinu og Gunnsinn hættur og allt í voða. Reyndar Ingimar betri en enginn að redda öllu sem þurfti að redda. Skipulagning gekk ágætlega nema hvað... tvíliðaleikur í svona badmin kallar dálítið á það að keppendur séu til dæmis 16 eða 20. Það er ekkert rosaleg gaman að hafa keppendur 19. Sérstaklega er lítið gaman að komast að því að einn keppandinn ætlaði víst bara að skrá sig í tíma sem er á þriðjudaginn. HALLÓ!!! hann er síðan ekki búinn að skrá sig í þann tíma núna. En þetta reddaðist allt, þökk sé varamannaúrvalinu og Áslaug vann og allir voru rosalega sætir á myndunum sem HK tók af okkur!



....

Tuesday, December 04, 2007

Vel tækjum búinn á hlaupabrautinni


Fyrir svona nokkuð mörgum mánuðum átt maður afmæli og varð hálf áttræður myndi einhver segja. Fékk fullt í afmælisgjöf en aðallega samt pjening og gjafakort. Einn pjeningurinn var frá tengdafólkinu og loksins var honum komið í lóg...

Í vikunni á undan var sum sé farið á stúfana og verslað dulítið. Græfjufíkillinn eignaðist enn eitt tæki, nebblega GPS hlauparatæki!


Í kvöld var loksins vígbúist. Fyrst var að finna hlauparagallann. Hann má annars fara að endurnýjast eitthvað, orðinn hálf götóttur. En annars bara manni sjálfum að kenna að tíma ekki að hlaupa í bóndadagsgjafarstakknum eða hvunar sem mín elskulegust gaf mér rauðan stakk. Svo var það ipúðinn þannig að ég myndi ekki þurfa að hlusta á þögnina eða umferðarhávaðann. Var einhver að minnast á fuglasöng? Ég á hann á diski sko líka. Svo var nýja grægjan óluð á úlnliðinn og skundað af stað. Ekki var nú farið langt þegar garpurinn var orðinn eitthvað óstyrkur í göngulaginu. Nei það var nú ekki sakir drykkju. Reyndar var einhver vínkynning í vinnunni minni þar sem góflað var á súkkulaði með hóflegri víndrykkju en ég var ekki þar, ég var hér úti á götu eða gangstétt við það að renna á hausinn. Nei, hér var hún Hálka háskalega mætt til leiks og sýndi mér hversu sleip hún er orðin.

En auðvitað sá grægjufíkillinn hann ég við henni og fór upp á háaloft. Þar kennir margra grasa en allt í einstakri röð og reglu eða þannig. Að minnsta kosti var létt verk að finna mannbrodda, hlauparamannbroddana sko, gúmmídrusluna sem maður smeygir utan um skódrusluna.

Þá var mínum ekkert að vanbúnaði. Reyndar sóttist hlaupið hægt. Það var auðvitað þessi hálka þarna ennþá og líka myrkur út um allt. Og svo þurfti að kveikja á ipúðanum. Stilla á mátulegan tónstyrk og fara svo að hlaupa... og svo þurfti auðvitað að kveikja á nýju græjunni og svo var hægt að hluapa smá. En ekki mikið því það þurfti að skoða hvað grægjan sýndi. Svo þurfti að hagræða broddunum og svo líka athuga mússíkina í ipúðanum. Svo þurfti að breyta meiri stillingum á nýju grægjunni. Þetta sóttist eitthvað seint en maður skilaði sér nú samt í mark einhvern tíman eftir dúk og disk og sönnunargagnið er ekkert astraltertugubb heldur kort með hæðarriti og hvaðeina!


....annars skil ég ekki alveg af hverju HK var eitthvað svona sposk á svipinn þegar ég var að sýna henni hvað þetta er allt roslega frábært!

Sunday, December 02, 2007

Óléttan breyttist í lítið barn

Bumbubúinn slapp út og ég er orðinn frændi!

ERS_3761
Mánudagurinn 26. nóvember á eftir að verða afmælisdagur á meðan ég lifi geri ég ráð fyrir því þá varð ég frændi. Þau þrjú voðalega lukkuleg með þetta og ég held bara allir aðrir bara líka. Komin heim í Fagrahjallann og bara gleði með þetta!

Það koma eitthvað fleiri myndir á flickrið en ætli ég reyni ekki að láta þau fá að sjá þær fyrst.


....