Eftir að hafa unnið alla vikuna alveg upp í kok var haldið austur um sveitir og ekki numið staðar fyrr en komið var í mörk þá er Fellsmörk heitir. Þar er fagur lítill kofi og þar er gott að sofa og grilla sér hamborbara um miðja nótt. Þetta var sannareynt aðfaranótt laugardags. Klukkan hvað veit enginn því klukkur voru vandlega faldar. Það var samt að minnsta kosti komið myrkur og rúmlega það.
Þrátt fyrir allt klukkuleysi kom sólin upp á sínum tíma. Merkilegur andskoti þetta að sólin geti komið upp án þess að maður líti á klukkuna fyrst. Við vorum annars ekkert að ónáða sólina of mikið og vorum í leti kasti eitthvað fram eftir degi. Reyndar var sólin heldur ekkert mikið að ónáða okkur þar sem hún faldi sig bakvið skýjabakka allt um kring. En einhvern tíman lögðum við að stað í göngutúr.
Og gengum af stað um Fellsmörlina og inn með Lambá þar sem heitir hvorki meira né minna en Fjallgil. Þar fundum við hinn herlegasta hellisskúta grafinn inn í móbergið og heitir þar reyndar ekki neittt en lítur einhvern veginn svona út:
Nú svo var gengið áfram og gerðist gilið æði draugalegt á köflum. Mjög hugðum við að uppgöngu en allt kom fyrir ekki. Þrátt fyrir mikla tilbuðri til uppgöngu tókst það ekki enda efri brúnir gilsins tryggilega varðar með klettasnösum ógurlegum mjög!
Voru þar og bardagar hinir mestu tröllanna millum!
Loks var til baka haldið hina mestu háskaför þar sem fljótið ógurlega var vaðið margsinnis. Var þar tekið hraustlega á og ekki hirt um smábleytu vætlandi niður i skæði vor.
Nú, er til kofa var komið hafði sólin náðarsamlegast látið sig hverfa og gerðist nú myrkvað mjög. Það létu æfintýrafarar samt sem vindu um eyru sín þjóta og réðust í grillveislu hina mesta. Var annar meira inni að stýra veisluföngum á meðan hinn var meira úti að stýra eldglæringum. Var reyndar einhver leki endalaust úr himinum þannig að brugði var á það ráð að grilla undir borði. Reyndist það hið mesta snjallræði og að lokum var étinn grillaður lambavöðvi.
Að áti loknu var lagst í þungar hugsanir skákþrautarmanna þar sem bókstaflega rauk úr heilasellunum.
Varð undirskrifaður að lokum að játa sig mátaðan af Hönnu Kötu hinum roslega skákþrautarmanni. Var loks lagst til hvílu með húfutetur enn um haus því íslensku veðurfari er hvergi neitt að treysta sem allir með vit á vetlingi eru fullnuma um.
Klukkan hvað var ekki vitað svo gjörla og reyndar skiptar skoðanir um. Sagði annar að klukkan væri langt gengin í fjögur en hinn taldi hana vera eitthvað nær miðnætti. Sá hófsamari í þeim efnum hafði réttar fyrir sér og raunar tölvert rétt sem reynar kom í ljós strax um nóttina því það virtist aldrei ætla að fara að birta af næsta degi. Var undirritaður jafnvel farinn að hafa áhyggjur í alvöruni af því að sólin hefði sofið yfir sig.
Um nóttina rigndi all mjög mikið og endaði það með því eins og sagði í vísunni að vatnið óx og óx!
Morguninn eftir þegar sólin hafði sýnt sig á bakvið skýin varð síðan allt í einu vart mannaferða. Var þar kominn Sigurjón bóndi á Eystri-Pétursey í björgunarleiðangur einn mikinn til að bjarga turtildúfunum tveimur sem voru orðnar innlyksa án þess að vita það almennilega. Hafði hann dráttarvél eina ferlega með skóflu mikilli og réðist hann í alls kyns vegalagningu, stýflugerð og vatnaframkvæmdir aðrar til að bjarga okkur tveimur og vesalings Ventó úr prísundinni sem komin vorum við í.
Verður saga sú ekki höfð lengri að sinni en sjá má fleiri myndir hér
No comments:
Post a Comment