Eins og allt fólkið sem kom í matarboð og brjálað partý heim til mín á föstudagskvöldið. Matarboðið var undirbúið í þaula sem fólst t.d. í því að klósettið var þrifið á handahlaupum kl 6 um kvöld. Svo var verslað í Hagkaup í Smáralind á meðan búðin var að loka klukkan 7. Svo var ætt niður á Laugaveg og farið að lesa betur uppskriftina. Klukkan átta kom svo fyrsti matargesturinn reyndar heilum hálftíma of snemma. Á sama tíma komst kjúllinn í ofinn og þá loksins upptötvaðist að þetta var uppskrift að hægsteiktum kjúlla sem skyldi fá að dúsa tvo klukkutíma í ofninum. En með einvhverju ótrúlegu svindli þá bjargaðist þetta allt saman. Ég held að maturinn hafi bara verið frábær og svo þróaðist þetta í brjálað partý til klukkan fjögur um nótt með tilheyrandi hávaða, brothljóðum og látum.
Harmon Kardon í essinu sínu og villt partýlæti um miðja nótt
Á laugardeginum var ekki hægt að sofa mikið frameftir því við HK vorum í hlutverki passara Almars frænda frá Egilsstöðum sem var í bænum. Við hrisstum af okkur allt slen og aumingjaskap og vorum komin á fætur ekki mikið seinna en klukkan ellefu. Eða að minnsa kosti Hann Kata. Ég sjálfur var eitthvað aðeins seinni til enda ekki að fara að passa frænda minn.
En þetta var bara megastuð. Við fórum út um víðan völl og Almar á blárri snjóþotu sem hefur það helst sér til frægðar unnið að hafa farið yfir Vatnajökul þveran og endilangan. Nei ekki lítið afrek það fyrir eina litla bláa snjóþotu.
Á snjóþotu á laugardegi á Klambratúni
Á Klambratúni lentum við í hetjulegum bardaga við fríspilandi sjeffer hund. Reyndar ekkert sérlega illúðlegan en hann var svona hálf örvinglaður greyið.
Svo var haldið niður í bæ. Við fengum þá fáránlegu flugu í höfuðið að það væri snjallræði að fara á Pizza 67 og snæða svo sem eina flatböku. Það voru hin mestu mistök. Gráðaosturinn á pizzunni var meira en úldinn og bragðið eftir því. Það eina sem bjargaði þessu voru hinar sívinsælu jólasmákökur sem voru snæddar í tugavís.
Almar og HK nýbúin að fá sér nokkrar jólasmákökur!
Eftir pössunarstörf var ákveðið að leggja land undir fót eða að minnsta kosti land undir hjól... á Ventó sko. En áður en það var hægt þurfti að leggja sig smá... reyndar ekkert mikið. Ekki nema svona 3 tíma held ég. Eftir það þurfti að spá aðeins í málin og spekúlera í hvert væri skemmtilegas að fara og hvað væri best að gera. Úr því það var komið langt yfir miðnætti var ekki lengur neitt vit í að fara langnleiðis og því var farið skammleiðis. Það var sem sagt brennt upp í Holt eða já, ég meina farið í Brennholt. Það er uppi í Mosfellssveit rétt hjá þar sem Nóbelsskáldið átti bústað og reit sumar bóka sinna.
Þar tók á móti okkur eitthvað það dásamlegasta tunglskin sem nokkurt auga hefur nokkurn tíman barið og lýsti það upp ósnertanlega mjöllina allt um kring. Þarna í æfintýralandinu vorum við svo það sem eftir lifði nætur og eínhvern tíman fyrir birtingu var loksins gengið til náða...
Brennholt í tunglskini klukkan þrjú að nóttu
Þeir sem ganga ekki sérlega snemma til náða hafa einnig uppáskrifað leyfi til að sofa aðeins fram eftr. Að minnsta kosti ef það er kominn sunnudagur. Þetta leyfi nýttum við okkur óspart og einhvern tíman seint og um síðir var skrönglast af stað. Það var nu skundað á Þingvöll.
Þar keyrðum við ófæran Bolabásarveginn áleiðis inn að Meyjarsæti. Loks voru skíðin sett undir bífurnar og arkað af stað. Í punkti 27W 0499618 UTM 7130815 hjörsey 1955 var numið staðar og grillaðir hamborgarar sem smökkuðust betur en allir hamborgarar heimsins hafa smakkast.
Blásið á glæðurnar á Bláskógaheiði í kvöldrökkrinu
Nú svo var bara haldið heim á leið. Ég og HK á Ventónum með öllum hinum jepunum á Mosfellsheiðinni
....
No comments:
Post a Comment