Thursday, September 01, 2005

Ég er of utanviðmig

Það ætlar engan enda að taka hvað ellin herjar á mig. Núna er ég orðinn svo mikið utanviðmig að ég get ekki lengur stundað líkamsrækt. Fór af stað áðan með fögur fyrirheit í farteskinu og einhverja svarta tösku með einhverju dóti í. Eftir að hafa villst niður Laugaveginn einu sinni komst ég í World Class. Er því miður ekki orðinn svo utanviðmig að fara í kvennaklefann en það kemur eflaust að því.

Nú, ég fór svona úr fötunum eins og lög gera ráð fyrir. Væntanlega var tekin mynd af mér að striplast eins og lögbók Björns gerir ráð fyrir. Ætlaði svo að fara að fara í einhverjar buxur nothæfar til íþróttabrúks en greip þá í tómt. Endaði með að sneipast bara heim með öll mín fögru fyrirheit mölbrotin í farteskinu.

Í gær eða einhvern tíman fór ég þarna líka. Var með einhverja brók en fattaði þegar ég var að fara í sturtu að handklæðið var ekkert með í för. Varð það hálf erfið útför þaðan í það skiptið. En annars. Það er kannski eins gott að ég áttaði mig á þessu buxnaleysi áður en ég fór að sprikla. Hefði verið verra afspurnar ef ég hefði skokkað á hlauparabrettinu berrassaður. Já, er ekkert alveg viss um að það hefði fallið í kramið þarna hjá öllum. En annars, ætli það sé bannað? Ég hef ekki séð neitt um það. Einhver staðar stóð reyndar að það væri bannað að vera ber að ofan í world class en ég var með einhvern suttermabol. Hefði þá kannski bara átt að prófa berrassa æfinguna.

En svo. Kannski hefur þetta utanviðelsi mitt eitthvað að gera með dularfulla sokkahvarfið. Ég er annars að hugsa um að fá í lið með mér þar CIA, MI5, KGB og BSRB. Einhver þeirra hlýtur að geta haft upp á eins og þrjátíu hægri sokkum. Eða eru þetta kannski vinstri sokkarnri sem mig vantar. Þarf að fara að skoða hvort er.

En sem sagt bless í bili.

Það á að fara að kveikja í einhverju úti á svölum hjá mér. Það heitir víst grill.

No comments: