Sunday, December 15, 2013

Aðventuferð í Fellsmörk þegar himnarnir hrundu

Aðventuferð í Fellsmörk 2013

Undir norðurljósahimni Fellsmerkur

Það var farin árleg aðventuferð bræðra í Fellsmörk. Dimm él á leiðinni þar sem hann hreytti úr sér aðallega samt á milli Selfoss og Hellu. Orðið stjörnubjart þegar komið var í fellsmörk og svo birtust norðurljós. En áður en það gerðist, gerðist nokkuð undarlegt. Sem ég stend við stóru brúna sem er á myndinni neðst í færslunni og lít í áttina að Búrfellinu þá er eins og einhver sé þar úti á áreyrunum með kúlublys með einni grænni kúlu. Hún fer ekki hratt yfir, eiginlega bara frekar hægt og það standa neistar aftan úr henni. Hún kemur að sjá úr austri, þ.e. frá hægri þegar horft er í suðurátt eða suðaustur að Búrfellinu og hallinn á brautinni sem kúlan fór virtist vera um 20° eða svo. Brennur upp og hverfur en ekkert hljóð heyrðist sem ég varð var við. Gunninn sá ekki neitt, enda var hann að bjástra eitthvað annað en ekki að glápa svona bara út í loftið. Það sem var merkilegast er að ég er eiginlega alveg viss um að þessa sýn bar í Búrfellið þannig að þetta var yfir áreyrum Fellsmerkur þar.

Ekki veit ég hvort eitthvað féll niður á áreyrarnar en gat ekki útilokað það þannig að það var farinn einhver smá könnunarleiðangur í tunglskininu vopnaður höfuðljósi. Varð einskis var en aðstæður voru góðar þar sem snjór var yfir að minnsta kosti sums staðar. Nokkuð ljóst að þetta var lítill loftsteinn sem náði þá ekki að brenna upp fyrr en hann var kominn nær alveg niður að jörðu, ef hann þá náði ekki alveg niður - sem ég fæ líklega aldrei að vita. Til viðbótar má halda því til haga að þetta kvöld átti að vera talsvert mikið loftsteinaregn.

Aðventuferð í Fellsmörk 2013

Séð til Búrfells undir tunglinu,
sömu stefnu og það sást til fljúgandi grænnar kúlu

No comments: