Það var reunion um helgina og ég fór 25 ár aftur í tímann!
...Undarlega gömul mynd frá íþróttahátíð í Breiðholtsskóla árið 1983
Árgangurinn minn úr Breiðholtsskóla er dálítið ofvirkur eða að minnsta kosti eru einhverjir þar alveg skelfilega duglegir að láta hópinn hittast og það gerist nokkuð reglubundið á fimm ára fresti. Og þar sem nú ku vera deilanlegur árafjöldi með fimm síðan árgangur 1967 kláraði þá var reunion um helgina. Og þetta er bara svo undarlegt að hitta þetta "gamla" lið að ég er eiginlega alveg frá.
Ég veit varla hvar ég á að byrja... veit ekki alveg hvernig minningar ég á þarna úr grunnskólanum. Ekki allar góðar en ekki allar slæmar heldur. Líklega á ég ekki verstu minningarnar af öllum en samt kannski ekki alveg þær bestu. Það er svo undarlegt að sjá sömu hópana og voru fyrir 25 árum myndast aftur. Sumir þeirra hafa samt kannski alltaf verið til.
Fyrir 25 árum voru sumir meira "in" en aðrir og sumir eiginlega alveg "out". Ég var held ég meira "out" en "in". Á einhvern dularfullanhátt þá áttu sumir ennþá svæðið alveg eins og þeir áttu svæðið líka fyrir 25 árum. Hafði eiginlega ekki breyst nokkurn skapaðan hlut. Samt eru allir einhvern veginn vinir líka og reyndar töluðu allir við alla meira en einu sinni eða ég vona það að minnsta kosti.
Og svo mæta bara sumir. Reyndar voru margir sem komust ekki af alls konar ástæðum en hefðu komið. En aðrir komu ekki af því að þeir vildu bara ekkert koma eða létu ekkert ná í sig. Það eiga ekki allir alltaf góðar minningar.
Suma þekkti ég ekki strax aftur og jafn vel alls ekki neitt. Aðrir þekktu mig ekki strax aftur og jafn vel alls ekki neitt. Og líklega þekktu dálítið margir mig ekki neitt því ég held að þeir sem ég umgekkst hvað mest á þessum árum létu sorglega margir ekki sjá sig þarna. Eða kannski er það bara ímyndun í mér. Segjum það bara! Svo var ekkert einfalt að segja hinum og þessum hver ég eiginlega er því ég hálfpartinn skipti um nafn einhvern tíman í 7. bekk og hætti að heita bara Einar. Reyndar slapp Breiðholtsskólinn við að þurfa að kalla mig Eirasa. Það skeið æfinnar kom ekki fyrr en seinna.
SVo er þarna vefur sem er náttúrlega bara snilld. breiðholtsskoli.com. Þar eru myndir og alls kyns. Ég fór í háaloftsleik áðan og fann gamlar filmur sem ég tók einhvern tíman á seinasta árinu mínu. Þegar HK sá myndirnar tók hún andköf og fannst ég vera gamall að eiga svona fornaldarlegar myndir. Og jú víst eru þær það víst. Ég kannski að verða einhver fornaldargaur - það er jú víst eitthvað um liðið. Myndirnar mínar fóru samt ekki strax á vefinn fína, heldur bara á flickr. Og síðan til að velta vöngum yfir að þegar þessar gömlu myndir þarna á Breiðholtsskólavefnum eru skoðaðar þá finnst maður sjálfur hvergi. Ekki var greinilega mikil fyirferð í manni á þessum árum. Hefur vonandi breyst eitthvað til batnaðar.
Það var reyndar afleitt að ég gat ekki verið nema stutt og ekki tekið nema hálfan þátt í þessu því ég þurfti nauðsynlega í vinnu þarna seinna um kvöldið. Ég þarf því eiginlega að bíða í heil fimm ár eftir að hitta þetta lið aftur.
No comments:
Post a Comment