Thursday, May 22, 2008

Hjólað í vinnuna

Það er eiginlega allt of margt að gerast en ...



Hjólagarpar Skýrrrsins

Það er allt of margt að gerast þannig að eitthvað sé hægt að blogga. Reunion Breiðholtsskóla um síðustu helgi sem ég ætlaði að blogga eitthvað meira um og svo er ég búinn að vera allur á hjólum síðustu tvær vikur. Skýrr með alveg eðal flott hjólalið sem ég er með í. Hjólaði 31 kílómeter í gær og það var bara keyrt á mig einu sinni á þeirri leið, sem var á bílastæði Skýrrsins.



....

Tuesday, May 20, 2008

Að vera flæktur í nostalgíu

Það var reunion um helgina og ég fór 25 ár aftur í tímann!


Rass
...Undarlega gömul mynd frá íþróttahátíð í Breiðholtsskóla árið 1983


Árgangurinn minn úr Breiðholtsskóla er dálítið ofvirkur eða að minnsta kosti eru einhverjir þar alveg skelfilega duglegir að láta hópinn hittast og það gerist nokkuð reglubundið á fimm ára fresti. Og þar sem nú ku vera deilanlegur árafjöldi með fimm síðan árgangur 1967 kláraði þá var reunion um helgina. Og þetta er bara svo undarlegt að hitta þetta "gamla" lið að ég er eiginlega alveg frá.

Ég veit varla hvar ég á að byrja... veit ekki alveg hvernig minningar ég á þarna úr grunnskólanum. Ekki allar góðar en ekki allar slæmar heldur. Líklega á ég ekki verstu minningarnar af öllum en samt kannski ekki alveg þær bestu. Það er svo undarlegt að sjá sömu hópana og voru fyrir 25 árum myndast aftur. Sumir þeirra hafa samt kannski alltaf verið til.

Fyrir 25 árum voru sumir meira "in" en aðrir og sumir eiginlega alveg "out". Ég var held ég meira "out" en "in". Á einhvern dularfullanhátt þá áttu sumir ennþá svæðið alveg eins og þeir áttu svæðið líka fyrir 25 árum. Hafði eiginlega ekki breyst nokkurn skapaðan hlut. Samt eru allir einhvern veginn vinir líka og reyndar töluðu allir við alla meira en einu sinni eða ég vona það að minnsta kosti.

Og svo mæta bara sumir. Reyndar voru margir sem komust ekki af alls konar ástæðum en hefðu komið. En aðrir komu ekki af því að þeir vildu bara ekkert koma eða létu ekkert ná í sig. Það eiga ekki allir alltaf góðar minningar.

Suma þekkti ég ekki strax aftur og jafn vel alls ekki neitt. Aðrir þekktu mig ekki strax aftur og jafn vel alls ekki neitt. Og líklega þekktu dálítið margir mig ekki neitt því ég held að þeir sem ég umgekkst hvað mest á þessum árum létu sorglega margir ekki sjá sig þarna. Eða kannski er það bara ímyndun í mér. Segjum það bara! Svo var ekkert einfalt að segja hinum og þessum hver ég eiginlega er því ég hálfpartinn skipti um nafn einhvern tíman í 7. bekk og hætti að heita bara Einar. Reyndar slapp Breiðholtsskólinn við að þurfa að kalla mig Eirasa. Það skeið æfinnar kom ekki fyrr en seinna.

SVo er þarna vefur sem er náttúrlega bara snilld. breiðholtsskoli.com. Þar eru myndir og alls kyns. Ég fór í háaloftsleik áðan og fann gamlar filmur sem ég tók einhvern tíman á seinasta árinu mínu. Þegar HK sá myndirnar tók hún andköf og fannst ég vera gamall að eiga svona fornaldarlegar myndir. Og jú víst eru þær það víst. Ég kannski að verða einhver fornaldargaur - það er jú víst eitthvað um liðið. Myndirnar mínar fóru samt ekki strax á vefinn fína, heldur bara á flickr. Og síðan til að velta vöngum yfir að þegar þessar gömlu myndir þarna á Breiðholtsskólavefnum eru skoðaðar þá finnst maður sjálfur hvergi. Ekki var greinilega mikil fyirferð í manni á þessum árum. Hefur vonandi breyst eitthvað til batnaðar.

Það var reyndar afleitt að ég gat ekki verið nema stutt og ekki tekið nema hálfan þátt í þessu því ég þurfti nauðsynlega í vinnu þarna seinna um kvöldið. Ég þarf því eiginlega að bíða í heil fimm ár eftir að hitta þetta lið aftur.

Monday, May 05, 2008

Afmælisferð og alls konar

Helgin var svona frekar dálítið eins og afmælishelgi.. JUST IN TIME !


Hafnarfjall and the clouds

Hafnarfjallið undir öllum skýjunum á meðan við vorum á leið til Reykjavíkur til að halda upp á afmæli

Á meðan HK sótti SÝS á leikskólann var hann ég að versla afmælisgjafir, alveg ferlega leynardómsfullur. Svo fékk ég ís með þeim frænkum. Ísinn var góður og það var gaman og veðrið var bara gott. Held að það sé að koma sumar.

Pizzuveisla fyrir þann hluta Selbrekkuættarinnar sem er í henni Reykjavík. Bara heilmikið gaman. Allt svona frekar óráðið um afmælistilstand en líklega farið eitthað úr bænum eða hvað. Einhverjum datt í hug að það yrði sent út afmælisboð ekki fyrr en fyrir hádegi á sunnudeginum. Ég þóttist þekkja mína konu og var nokk viss um að ef það yrði afmælisboð þá myndi það ekki verða ákeðið fyrr en einhvern tíman um eftirmiðdaginn daginn þann. Ég meina er ekki eðlilegt að þrítugsafmæli sé svona just in time...

Svo kom laugardagur. Þá var allt í einu ákveðið seint og um síðir að leggja land undir fót eða kannski frekar undir dekk. Jú. Klukkan orðin svona líklega vel rúmlega sex um kvöld og við að henda einhverju dóti ofan í tösku til að gista einhvers staðar sem hvorugt vissi hvar yrði eftir að við myndum berja Brákina í Borgarnesi augum. Hvað... leikritið átti nú bara að hefjast klukkan svona átta og við ekki nema innan við klukkutíma að komast í Boregarnesið. Ég meina - til hvers eru þessi göng þarna ef ekki til að tryggja að maður komist með sinni spúsu á leikrit í Borgarnesi með klukkutíma fyrivara. Og auðvitað eru þessi þrjúkorter eða hvað alveg nóg til að finna sér gistingu á Snorrastöðum eða einhvers staðar á góðum stað.

Leikritið, einleikur Brynhildar um Þorgerði Brák var alveg eðal. Það vorum við bæði algjörlega sammála um. Svo var haldið á Snorrastaði.

Eitthvað vorum við súr út af okkar snögga undirbúningi sem var þannig að það gleymdist að taka einn stakan bjór hvað þá meira af slíku með okkur. Grillveisla var komin í farangurinn úr Borgarnesi en allt útlit fyrir að henni yrði skolað niður með amrískum svaladrykk sem kallaður er Coke. Það fór þó örðuvísi. Þegar á Snorrastaði var komið var þar margt um manninn og allt að gerast. Við eitthvað að vandræðast hvort einhver af þeim sem þar var væri ekki alveg hugsanlega til í að láta okkur fá eins og tvo bjóra út á krít. Loks var látið til skarar skríða og ég fann manninn í næsta bústað. Hann horfði eitthvað undirfurðulega á mig og svo kom upp úr dúrnum að þar var hárskerinn minn mættur sem steggur í steggjapartýi. Jú, þeir voru auðvitað með ótakmarkað magn af öli og ekki vandamálið að fá lánað þangað til maður verður klipptur næst!


[hér var ég búinn að skrifa eitthvað ferlega merkilegt sem hvarf á víðernum internetsins á meðan ég fór út að gera við hjólfákinn minn... þarf sem sagt að bulla upp á nýtt...
.... svo fann ég þetta týnda reyndar aftur í síðustu bloggfærslu... það er líklega ekki alveg í lagi með mann!]

Við grilluðum og drukkum kók og kláruðum alveg heila tvo bjóra samanlagt sem reyndust vera undarlegir og af kínverskum uppruna. Svo sótti bara svefnhöfgi á okkur afmælisveislugesti og fórum að sofa. Í næstu bústöðum var hins vegar villt steggjapartí sem fór fram ofan í heitum pottum og upp um alla veggi.

Svo kom morgun og þar sem ég var alveg að fara yfirum af rómantík fór ég út fyrir klukkan sjö til að tína saman falleg blóm í blómvönd handa afmælisbarninu. Það var létt verk og löðurmannlegt. Vopnaður trjáklippum voru klipptar ólaufgaðar trjágreinar og einni hálfbrunninni grein bætt við úr eftirstöðvum einhvers dularfulls sinubruna sem geisaði þarna einhvern tíman fyrir ekki löngu. Þetta var svo bundið saman í hinn kostulegasta "blómsturvönd" og afgangurinn notaður í pakkaskraut. Þar sem enginn var umbúðapappírinn meðferðis var afmælispökkunum pakkað inn í plastpoka sem voru hafðir á röngunni. Og þar sem ég þekki mína konu þá féll þetta auðvitað í kramið. Reyndar kaninski ekki sérstaklega plastpokainnpökkunin en blómvendir úr ólaufguðum trjárgreinum er dálítið sem sumir ekki standast!

Þrátt fyrir mikið stuð á steggjunum voru þeir sumir fljótari á fætur en við enda við bara að njóta lífisins en þeir að flýta sér eitthvað mikið. Síðan svona upp úr hádeginu úti á Snæfellsnesi fyrir vestan Vegamót þegar klukkan var farin að ganga 5 var loks tekin ákvörðun um að það væri rok og rigning og skemmtilegast eiginlega að snúa við og bjóða til afmælishófs. Til hvers að ákveða hlutina með of löngum fyrirvara. Það voru alveg þrír tímar til stefnu. Við reyndar úti á landi og áttum eftir að keyra í bæinn, taka til og elda matinn. Allt tókst þetta samt svona nokkurn veginn og það kom alveg fullt af gestum og mikið gaman. Ég og einhverjir aðrir skilja samt eiginlega ekki alveg hvernig þetta var í ósköpunum hægt!

Svo þvoðum við bara upp og fórum að sofa... Enda venjuleg vinna hjá mér og HK með próf klukkan átta eða eitthvað þar um bil.

Friday, May 02, 2008

Eftirstöðvar vetrarins

Fellsmörk um síðustu helgi


After the winter
Brotinn bekkur og slitin tré

Það er eitthvað að hægjast um svona kannski að minnsta kosti er að koma sumar. Eitthvað er kannski hægt að blogga um það sem gerist. Bræður, mamma og pabbi fórum samleiðis í Fellsmörk um Helgina. Ef einhver les sem ekki veit hvað Fellsmörk er, þá er það stórmerkilegt skógræktarverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur þar sem saklaust fólk leggur í kostnað og erfiði við að rækta tré fyrir Skógræktar félag Reykjavíkur og Íslenska ríkið. Við plöntum og borgum eftir atvikum en deilt er um hvort skógurinn verði í eigu Skógræktarfélags Reykjavíkur eða íslenska ríkisins. Ljóst er að við sem plöntum eigum ekki að eiga hann. Reyndar megum við byggja okkur húskofa þarna þannig að þetta er nú ekki allt alveg út í hött.

Þetta gengur svona eftir atvikum og eftir hvern vetur er spenningur í gangi um hvernig trjáskapur og mannvirki hvers konar koma undan vetri. Hluta vetrar var núna allt á bólakafi og eitt og annað hefur látið á sjá. Þar sem eitt sinn var borðað nesti er núna brotinn bekkur og tré með slitnar greinar. Bekk og borði verður þó hægt að klambra saman að nýju og svo er ekki loku fyrir það skotið að trén rétti eitthvað úr kútnum þó greinarnar hafi tálgast eitthvað aðeins af þeim!


....

Túlípana dagsins fær...

Firefox

Túlípani
Fögglegur túlípanur á bolðinu heima :)

Í heila viku eða hvur má vita hvað hefur tölvan mín verið til helberra leiðinda. Kannski vírus, kannski ónýt tengin, kannski bara ónýt tölva. Það var búið að vírusleita hátt og lágt, setja allar mögulegar og ómögulegar viðbætur við forrit sem þurftu að virka, allur óþarfi og eitthvað sem ég vissi ekki hvað var tekinn út en allt kom fyrir ekki. Tölvan var eins og hún væri föst í sírópi. Sem er ekki gaman fyrir mig sjálfan eða aðra í kringum mig. Svo allt í einu kom himnasendingin. Það er eitthvað þarna einhvers staðar kennt við brennandi ref. Af hverju ekki að prófa. Og viti menn og konur! Tölvan er orðin að sportkagga! Maður bara smellir á eitthvað og það bara opnast. Snjallari verða hlutir ekki held ég!

Það var gaman að þessu Explorer æfintýri sem hófst eftir að ég varð eitthvað ósáttur við eitthvað hjá gamla Netscape en því er svona núna lokið. Allt sem ég hef prófað hefur virkað þetta líka flott og fínt nema reyndar eitthvað sharepoint dót sem ég þarf líklega að brúka með Explorer að einhverju leyti... en samt bara voðalega lítið.

Best að hafa bara meiri túlípana hér!


Túlípani


Reyndar bara eitt lauf en það var svona bara fögglegt lauf!