Það var í dag eða kannski í gær fyrir þá sem vilja meina að nýr dagur byrji alltaf á miðnætti. Dagurinn byrjaði vel með því að fara á fætur eftir að hafa hlustað á klukkuna reyna að láta okkur drattast á fætur á kortersfresti í svona næstum heilan klukkutíma. Ég meina, til hvers eru helgidagar ef ekki til að vera pínulítið latur / löt eða bara í góðu skapi.
Morgunverðarhlaðborðið var eitthvað aðeins óskýrt þegar HK mundaði myndavélina til að mynda það í bak og fyrir. Nei, það var bara slökkt á honum herra autofokus.
Eftir að hann var kominn í betra lag fundum við græna eðalisdrykkinn sem var innbyrtur með fettum og brettum.
En nýjasta trendið okkar sem sagt lifir enn og það er að fara fram á stigapall og slá hveitigrasakurinn sem mátti lesa eða að minnsta kosti sjá í blogginu 18. apríl. Það er reyndar meira eins og að klippa heldur en að slá því sláttuvélin er nú bara eldhússkæragarmurinn. Svo er grasið sett í hakkavélina sem mamman kom með að lána okkur um daginn og svo kemur annars vegar út úr henni dularfullur volgur grasdrellir og hins vegar þessi undarlega lyktandi græni vökvi. Reyndar ekki svo mjög undarlega lyktandi þar sem það er nú bara sumargraslykt af honum. Við sem sagt skáluðum fyrir sumrinu.
Svo vorum við alveg massamegadugleg. Tókum alveg heví mikið á því í garðvinnu. Ég var sínu duglegastur að eigin mati. Byrjaði á að taka niður jólaseríuna úr sírenutrénu (eða er þetta annars ekki sírena sem við erum með... spyr sá sem man ekki hvernig hvaða tré er en þykist samt vera skógræktarlarl) og fór svo að skrúfa ný bretti á minn aldna Leðjuláka hjólfák. HK var eitthvað svona meira í hefðbundinni garðvinnu, safna saman vetrarrússli og taka saman dauðar greinar.
...en af hverju finnst mér Sigurrós núna vera svona fáránlega góð hljómsveit... eru einhverjar aðrar þannig hljómsveitir til? ...
No comments:
Post a Comment