Monday, April 21, 2008

Badminton og jöklaferð

Eiríkur and The Thunderbird
Eiríkur á þeim hvíta - Thunderbird

Það var eitthvað til dundurs gert. Til hafði reyndar staðið að fara einhverjar fjallgöngur um helgina. Annað hvort á Eyjafjallajökul með nafna mínum úr vinnunni og fleirum eða þá með HSSR tengdu fólki á Snæfellsjökul.

Á föstudagskvöldi var hins vegar flugumót í badminton þar sem ég lenti í þriðja sæti og ákvað að vera bara latur og fara að dæmi Gunnars á Hlíðarenda og sitja heima í sæmdi minni og fara bara hvergi. Ekki eins lengi og fornkappinn sem sat heilan vetur heldur ætlaði ég að láta daginn duga. Það tókst þó alls ekki þar sem maður að nafni Eiríkur hringdi og vildi fá okkur bæði, mig og HK upp á Langjökul með sér í bara svona dægilegan bíltúr. HK var ekki alveg orði nógu hress af vesöld sem var að hrjá hana og fór ekki en það gerði ég.

Þetta var mikið gaman. Komum við á M6 þar sem alls kyns dót var tekið saman áður en haldið skyldi í hann. Aðal tilgangurinn var reyndar að koma með vatn á brúsum fyrir JÖRFÍ menn sem voru við borun og mælingar á jöklinum.

Ferðin gekk vel og stórslysalaust fyrir sig fyrir utan eitt púff þegar drífutakkarnir biluðu. Hittum síðan þá félaga, Eyfa, Sveinbjörn og Hlyn Skagfjörð sem voru að bora og hamast í góðaveðrinu. Þvældumst við með þeim fram eftir degi. Hjálpuðum smá og ég tók eitthvað myndum. Æddum upp á Geitlandsjökul og fórum svo í fluggír niður Krillajökul hans Kristleifs í Húsafelli. Reyndar gekk ferðin upp aftur til baka eitthvað hægar fyrir sig. Vont færi með púðursnjó undir þunnri ísskel og drífutakkarnir bilaðir. Þetta gat bara endað á þann veg að gert var við drífutakkana góðu og með loftlæsingarnar á komumst við á skrið og enduðum svo í pulsupartýi uppi á miðjum Langjöklinum.

Sveinbjörn and Eyfi
Sveinbjörn að bora - Eyfi að mæla

Sveinbjörn and Hlynur
Skagfjörð að bora

Three men on a glacier
Einhverjir tveir gestkomandi karlar á tveimur jeppum sem kíktu á okkur

The sunset on the glacier
Svo kom að því að sólin settist - alltaf flott á jökli

Thunderbird and Boli
Tunder og Boli uppi á miðjum Langjökli með stjörnubjartan himininn yfir sér

On the way home
Á heimleð á Línuveginum að pumpa í dekk, tanka og alls kyns

Eftir pulsupartýið Edilonsfína sem fór fram í hlýjunni í Bola var haldið heim á leið. Gekk fyrirhafnarlítið að skottast niður jökulinn og stjörnunar eltu okkur áleiðis til Reykjavíkur og tunglið reyndar líka.

No comments: